David Barclay látinn

David Barclay, til vinstri, og bróðir hans Frederick.
David Barclay, til vinstri, og bróðir hans Frederick. AFP

David Barclay, breskur milljarðamæringur sem á meðal annars fjölmiðilinn Daily Telegraph og Ritz-hótelið, er látinn eftir skammvinn veikindi, 86 ára að aldri. 

Barclay og tvíburabróðir hans Frederick byggðu upp gríðarstórt viðskiptaveldi á grunni flutningsmiðlunar sem þeir stofnuðu. 

„Barclay-bræðurnir unnu sem einn í gegnum viðskiptaferil sinn og gerðu sitt allra besta til að forðast sviðsljósið og fjölmiðlaumfjöllun,“ segir í grein Daily Telegraph sem greinir frá andláti Davids. 

Á meðal þeirra sem hafa heiðrað minningu Davids Barclays er fyrrverandi starfsmaður hans, forsætiráðherrann Boris Johnson, sem starfaði áður fyrr á Daily Telegraph. 

„Virðingarkveðja með aðdáun til herra Davids Barclays sem bjargaði frábæru dagblaði, skapaði þúsundir starfa um allt Bretland og trúði með ástríðu á sjálfstæði þessa lands og hvað það getur gert,“ sagði Johnson á Twitter. 

Barclay-bræðurnir voru meðal annars dyggir stuðningsmenn Margrétar Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, og komu henni fyrir á Ritz-hótelinu á síðustu dögum ævi hennar.

Þeir fæddust inn í stóra skoska fjölskyldu árið 1934, en fjölskyldan var þá búsett í Lundúnum. Fjórtán ára yfirgáfu bræðurnir heimili sitt og hófu nám með það að markmiði að láta til sín taka í bresku viðskiptalífi, þar sem þeir ruddu sér upphaflega til rúms á fasteignamarkaði.  

Bræðurnir hlutu riddaratign árið 2000 og krupu hlið við hlið frammi fyrir Elísabetu Bretadrottningu, en aldrei áður í nútímasögunni hafði riddaratign verið veitt tveimur samtímis. 

David Barclay, sem lést á sunnudag, var tvíkvæntur og skilur eftir sig fjóra syni. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK