Alheimsfyrirtækjaskattur fær byr undir báða vængi

Janet Yellen, fjármálaráðherra Bandaríkjanna.
Janet Yellen, fjármálaráðherra Bandaríkjanna. AFP

Stjórnvöld í Frakklandi og Þýskalandi eru meðal þeirra sem hafa lýst yfir stuðningi við tillögur Bandaríkjastjórnar, runnar undan rifjum fjármálaráðherrans Janet Yellen, um alþjóðasamkomulag um lágmarksfyrirtækjaskatt.

Tillögurnar verða til umræðu á fundi fjármálaráðherra G20-ríkjanna á miðvikudag. Þær ganga út á að sett yrði sérstök lágmarksprósenta á fyrirtækjaskatt um heim allan.

„Samkomulag um alþjóðlega skattheimtu er innan seilingar,“ hefur AFP eftir Bruna Le Maire, fjármálaráðherra Frakklands.

Ekki hefur komið fram hvort þau ríki sem ekki myndu skrifa undir samkomulagið mættu eiga von á efnahagsþvingunum, en forsenda þess að tillögurnar gangi eftir er vitanlega að nógu mörg ríki fallist á þær.

Yellen, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, hefur lýst tillögunni sem viðbragði við skattalegum undirboðum, þar sem ríki keppast við að lækka fyrirtækjaskatt til að laða að sér fyrirtæki með rekstur á alþjóðavísu. Þannig yrði dregið úr hvata stórfyrirtækja á borð við Amazon, Facebook og Google til að nýta sér fyrirtæki á t.d. Írlandi, Lúxemborg eða aflandseyjum í Kyrrahafi.

AFP hefur eftir heimildarmanni úr bandaríska fjármálaráðuneytinu að markmið Biden-stjórnarinnar sé að fullmótaðar tillögur liggi fyrir í júlí og stjórnvöld gætu ef á þarf að halda breytt lögum um lágmarksskatt í landinu í samræmi við alþjóðlegu áætlunina.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK