Hlutafé Coripharma aukið um 2,5 milljarða

Jónína Guðmundsdóttir, forstjóri Coripharma.
Jónína Guðmundsdóttir, forstjóri Coripharma. Ljósmynd/Aðsend

Umframeftirspurn var eftir nýjum hlutum í Coripharma, sem lauk 2,5 milljarða króna hlutafjáraukningu í marsmánuði. Hluti fjárfestanna kemur úr röðum núverandi hluthafa, en nýir bættust einnig inn í hluthafahópinn. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Stærsti nýi hluthafinn er Iðunn framtakssjóður sem er nýstofnaður framtakssjóður í rekstri Kviku eignastýringar. Eftir hlutafjárhækkunina ræður Iðunn yfir 19% hlut í félaginu og er þar með jafnframt stærsti hluthafi félagsins.  

Meðal annarra stórra hluthafa má nefna framtakssjóðinn TFII, sem er í stýringu Íslenskra verðbréfa, BKP Invest, sem er í meirihlutaeigu Bjarna K. Þorvarðarsonar, stjórnarformanns Coripharma, Vátryggingafélag Íslands, Snæból og Eignarhaldsfélagið Hof. Fjárfestarnir eru bæði innlendir og erlendir og íslenskir lífeyrissjóðir koma nú einnig að hlutafjárhækkun félagsins í fyrsta sinn með beinum hætti.  

Sem fyrr var fyrirtækjaráðgjöf Kviku ráðgjafi Coripharma við hlutafjáraukninguna.  

Coripharma er til húsa við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði.
Coripharma er til húsa við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði. Ljósmynd/Aðsend

„Coripharma er íslenskt samheitalyfjafyrirtæki sem byggir á traustum grunni lyfjaþróunar og framleiðslu á Íslandi en félagið tók yfir verksmiðju og þróunareiningu Actavis/Teva í Hafnarfirði fyrir fáum árum. Félagið sérhæfir sig í þróun og framleiðslu samheitalyfja ásamt því að sinna verktökuframleiðslu fyrir önnur lyfjafyrirtæki. Áætlað er að fyrsta samheitalyfið sem er þróað og framleitt af Coripharma komi á markað í Evrópu nú í sumar. 

Starfsfólk Coripharma telur um 130 manns og er öflugur hópur fólks með áralanga reynslu í þróun, framleiðslu og sölu á lyfjahugviti og samheitalyfjum til annarra lyfjafyrirtækja um allan heim,“ segir í fréttatilkynningu.

Jónína Gudmundsdóttir, forstjóri Coripharma, segir í fréttatilkynningunni: 
„Það er ánægjulegt að sjá þennan mikla áhuga íslenskra fjárfesta á að taka þátt í uppbyggingu félagsins og að viðhalda þessum mikilvæga iðnaði hérlendis. Ásamt því að renna stoðum undir þróunar- og rannsóknarstarf Coripharma, mun hlutfjáraukningin styrkja stefnu félagsins um bættan aðgang að erlendum mörkuðum. Áætlað er að þróa og markaðssetja 5-6 ný samheitalyf árlega. Þróun á nýjum samheitalyfjum er kostnaðarsöm og tímafrek en þessi fjármögnun gerir okkur kleift að halda ótrauð áfram í átt að markmiðum okkar.“ 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK