Landsbankinn hagnast um 7,6 milljarða

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hagnaður Landsbankans á fyrstu þremur mánuðum ársins nam 7,6 milljörðum og var arðsemi eiginfjár 11,7%. Á sama tíma í fyrra var tap bankans 3,6 milljarðar. Virðisbreyting eignasafns bankans var jákvæð upp á 2,5 milljarða, en var á sama tíma í fyrra neikvæð um 5,2 milljarða.

Vaxtatekjur lækkuðu um rúmlega tvo milljarða milli ára og námu á fyrsta ársfjórðungi í ár 14,3 milljörðum. Vaxtagjöld lækkuðu einnig og voru 5,7 milljarðar á móti 7 milljörðum á sama tíma í fyrra. Segir í tilkynningu frá bankanum að þetta skýrist af lægri vaxtamun.

Hreinar þjónustutekjur hækkuðu um 100 milljónir og voru 2,05 milljarðar á fyrstu þremur mánuðum ársins. Fram kemur að jákvæð virðisbreyting skýrist af spám um efnahagsbata og ítarlegt mat á útlánasafninu. Hafði virðisrýrnunin í fyrra komið til vegna óvissu sem var uppi vegna faraldursins, sem þá var nýhafinn.

Heildareignir Landsbankans jukust um 36,8 milljarða króna á tímabilinu og námu 1.601 millj­arði króna í lok fyrsta ársfjórðungs. Útlán jukust um 14 milljarða króna en útlánaaukningin á fjórðungnum má rekja til aukningar á lánum einstaklinga. Í lok fyrsta ársfjórðungs voru innlán frá viðskiptavinum 794 milljarðar króna, samanborið við 793 milljarða króna í árslok 2020.

Hagnaður Landsbankans nam 7,6 milljörðum á fyrstu þremur mánuðum ársins. …
Hagnaður Landsbankans nam 7,6 milljörðum á fyrstu þremur mánuðum ársins. Það gera rúmlega 84 milljónir á dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eigið fé bankans var í lok tímabilsins 261,4 milljarðar og var eiginfjárhlutfallið 24,9%. Á aðalfundi bankans í mars var ákveðið að greiða út 4,5 milljarða ár vegna síðasta rekstrarárs og hefur sá arður verið greiddur út.

Haft er eftir Lilju Björk Einarsdóttur bankastjóra að gott uppgjör endurspegli góðan árangur í öllum rekstri bankans. Tiltekur hún meðal annars að markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði sé um 38% og að hlutdeild bankans á íbúðalánamarkaði hafi aukist úr 22% í 26,8%. Þannig hafi yfir tvo þúsund íbúðalán verið tekin hjá bankanum á fyrstu þremur mánuðum ársins, þar af 400 sem voru að kaupa sína fyrstu íbúð.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK