Sigurjón þarf að greiða LBI 50 milljónir

Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans.
Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans. mbl.is/Þórður Arnar

Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, var í dag dæmdur í Landsrétti til að greiða LBI ehf., slitastjórn gamla Landsbankans, 50 milljónir, auk 21 milljónar í málskostnað. Er um að ræða skaðabætur sem slitastjórnin hafði farið fram á vegna vanrækslu sem tengist ábyrgð vegna lánveitingu til félags í eigu Björgólfs Guðmundssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Landsbankans.

Dómurinn taldi hins vegar rétt að fella niður stjórnendaábyrgð sem tvö erlend tryggingafélög höfðu veitt þar sem sýnt þætti að Landsbankinn hefði veitt ófullnægjandi eða rangar upplýsingar í umsókn um tryggingarvernd.

Slitastjórnin krafðist þess í málinu að Sigurjón, auk þeirra Halldórs Jóns Kristjánssonar, fyrrverandi bankastjóra bankans og Sigríðar Elínar Sigfúsdóttur, fyrrverandi yfirmanns fyrirtækjasviðs bankans, yrðu dæmt til að greiða 10,5 milljarða auk vaxta vegna málsins. Taldi slitastjórnin að þau hefðu sýnt af sérvanrækslu við að innheimta bankaábyrgð sem Kaupþing í Lúxemborg hafði veitt í desember árið 2007 upp á samtals 18 milljarða. Ekki hefðu heldur verið gerðar aðrar ráðstafanir til þess að halda ábyrgðinni við, en hún stóð meðal annars til tryggingar á peningaláni Landsbankans til Fjárfestingafélagsins Grettis hf., sem Björgólfur átti.

Málið tengist ábyrgðum sem Landsbankinn gekk ekki á eftir og …
Málið tengist ábyrgðum sem Landsbankinn gekk ekki á eftir og höfðu verið veitt af Kaupþingi vegna lána Landsbankans til eignarhaldsfélags Björgólfs Guðmundssonar. mbl.is/Kristinn

Lánið upp á 18,4 milljarða en krafan var lækkuð  

Lánið var bæði í krónum og evrum, en heildarupphæð þess nam upphaflega 18,4 milljörðum. Björgólfur gaf sama dag og lánið var veitt út sjálfskuldarábyrgð til tryggingar á endurgreiðslu þess. Var sjálfskuldarábyrgðin skilyrt að því leyti að hún gilti aðeins ef fyrirhuguð bankaábyrgð Kaupþings vegna lánsins yrði ekki gefin út eða hún félli úr gildi.

Fram kemur í dómi Landsréttar að gögn málsins hafi borið með sér að unnið hafi verið að því síðla sumars 2008 að afla nýrrar bankaábyrgðar Kaupþings til tryggingar lánum Grettis, en að engin gögn liggi fyrir sem sýni að Kaupþing hafi gengist í ábyrgð á ný eftir að fyrri bankaábyrgð féll úr gildi 27. Júní 2008. Hins vegar gekkst félagið Givenshire Equities S.á.r.l. í Lúxemborg í sjálfskuldarábyrgð fyrir greiðslu á allt að 18 milljörðum.

Grettir var tekinn til gjaldþrotaskipta í maí 2009, Björgólfur í júlí sama ár og Givenshire í október. Eftir að málið var tekið fyrir lækkaði slitastjórnin kröfu sína um 10% niður í 16,2 milljarða til að taka fullt tillit til mögulegra greiðslna úr þrotabúunum.Síðar féll slitastjórnin frá kröfum á hendur 22 af 24 vátryggjendum sem upphaflegt mál var upphaflega sótt gegn. Var skaðabótakrafan við það lækkuð niður í 12 milljarða. Síðar var krafan lækkuð frekar niður í 10,5 milljarða.

Mistök áttu sér stað þegar ekki var gengið á bankaábyrgðina

Landsréttur staðfestir forsendur héraðsdóms í málinu um að mistök hafi átt sér stað þegar ekki var gengið á bankaábyrgð Kaupþings í Lúxemborg áður en hún rann út. Því sé til staðar skilyrði fyrir skaðabótaábyrgð gegn starfsmanni vegna fjártjóns sem sýnt sé fram á að viðkomandi hafi sýnt af sér saknæma vanrækslu við.

Dómurinn taldi hins vegar sannað að Halldór hefði ekki komið að umræddu lánamáli og að þáttur Sigríðar Elínar væri ekki það mikill að hún ætti að bera skaðabótaskyldu.

Bankinn gaf ekki upp rétta mynd við tryggingafélagið

Krafa slitastjórnarinnar á hendur bresku tryggingafélögunum QBE international insurance og QBE corporate var sett fram vegna stjórnendatrygginga félaganna fyrir Landsbankann. Landsréttur kemst að þeirri niðurstöðu að bankinn hafi hins vegar vanrækt upplýsingaskyldu sína þegar kom að því að veita tryggingafélögunum upplýsingar sem höfðu samanlagt verulega þýðingu við mat á áhættu við stjórnendatrygginguna. Er meðal annars vísað til þess að reikningsskil og ársskýrslur hafi gefið þá mynd að staða bankans væri góð og takmörkuð áhætta væri tengd honum.

Hins vegar hafi eiginfjárstaða bankans, m.a. með vísan til eignarhalds bankans á eigin bréfum umfram lögbundin mörk, útlánaáhættu tengdri stórum áhættuskuldbindingum og háttsemi starfsmanna bankans í sjálfvirkum pörunarviðskiptum með hlutabréf bankans (viðskipti sem ákært var fyrir og sakfellt í svokölluðu markaðsmisnotkunarmáli bankans), verði ekki fallist á að sú mynd sem dregin hafi verið upp hafi verið reist á traustum grunni.

Dæmir Landsbankinn Sigurjón til að greiða slitastjórninni 50 milljónir, en þau Halldór og Sigríður Elín eru sýknuð. Jafnframt eru QBE og QBE C sýknuð, en Sigurjóni er gert að greiða 15 milljónir í málskostnað fyrir héraði og Landsrétti, auk þess að greiða Halldóri og Elínu 3 milljónir hvoru í málskostnað fyrir Landsrétti.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK