Ríkustu 5% eiga tæplega 40% eigin fé landsmanna

240.262 fjölskyldur voru í gögnum ríkisskattstjóra á árinu 2020 og …
240.262 fjölskyldur voru í gögnum ríkisskattstjóra á árinu 2020 og námu heildareignir landsmanna 7.678 milljörðum króna. Ljósmynd/mbl.is

5% af ríkustu fjölskyldum landsins áttu 39,2% af heildar eigin fé allra framteljenda við árslok 2020, eða um 2.076 milljarða króna. Hefur hlutfallið lækkað um tæplega 1% frá árslokum 2019 en þá áttu efstu 5% um 40,1% af eigin fé landsmanna.

Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Loga Einarssonar um eignir og tekjur landsmanna árið 2020.

Samtals voru 240.262 fjölskyldur í gögnum ríkisskattstjóra á árinu 2020 en samkvæmt niðurstöðum álagningar ársins 2021 námu heildareignir landsmanna 7.678 milljörðum króna og eigið fé 5.298 milljörðum króna.

Hlutfall þeirra ríkustu lækkar

Eigið fé þess 1% sem átti mestar eignir nam 902 milljörðum og var hlutfall þeirra af eigin fé allra framteljenda 17%. Var þá efsta 0,1% með 293 milljarða í eigið fé sem gera 5,5% af eigin fé allra framteljenda.

Hefur eigið fé efsta 1% aukist um tæplega 37 milljarða frá árslokum 2019 en þrátt fyrir það hefur hlutfall þess af eigin fé allra framteljenda ekki verið lægra síðan við árslok 2001. Hefur þá eigið fé efsta 0,1% aukist um rúmlega 10 milljarða en hlutfall þess af eigin fé landsmanna hefur einnig lækkað frá fyrri árum og hefur ekki verið lægra síðan við árslok 2005.

Upphæð og hlutfall heildareigna

Hlutfall heildareigna ríkustu landsmanna hefur einnig lækkað frá fyrri árum en efstu 5% eiga nú 30,2% hlutfall af heildinni sem er 1% minna en við árslok 2019. Nema heildareignir þeirra nú 2.316 milljörðum

Hlutfall efsta 1% af heildareignum landsmanna hefur lækkað minna, en það fór úr 12,6% við árslok 2019 í 12,3% við árslok 2020, og stendur nú í 944 milljörðum. Heildareignir efstu 0,1% hækkaði um 10 milljarða en fór úr 4% við árslok 2019 í 3,9 við árslok 2020.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK