Ómerkti dóm í máli þrotabús DV

Landsréttur ómerkti í dag héraðsdóm í máli þrotabús DV og …
Landsréttur ómerkti í dag héraðsdóm í máli þrotabús DV og Frjálsrar fjölmiðlunar. mbl.is/Hanna

Landsréttur ómerkti í dag áfrýjaðan dóm í máli þrotabús DV ehf. og Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. og vísaði málinu í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný. 

Þrotabú DV ehf. höfðaði upphaflega mál gegn Frjálsri fjölmiðlun ehf. þar sem þrotabúið krafðist greiðslu á samtals 24 milljónum króna eftirstöðvum kaupverðs samkvæmt kaupsamningi sem gerður var árið 2017.

Í dómi héraðsdóms sem féll í mars var kveðið á um að Frjáls fjölmiðlun ehf. skyldi greiða stefnufjárhæðina ásamt dráttarvöxtum og málskostnaði. 

Efndu ekki kaupsamninginn

Þrotabú DV var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í mars 2018 en mörg ár fyrir gjaldþrotið hafði rekstur fjölmiðilsins verið erfiðleikum bundinn og miklar skuldir safnast upp.

Sumarið 2017, fyrir gjaldþrotið, kom Frjáls fjölmiðlun og fleiri tengdir félaginu, að rekstri DV með það fyrir augum að koma inn í reksturinn sem hluthafar eða kaupa eignir félaganna, að því er fram kemur í dómi héraðsdóms. 

Frjáls fjölmiðlun keypti útgáfuréttindi DV þann 5. september 2017. Samkvæmt kaupsamningi nam verðið 200 milljónum króna og átti það m.a. að greiðast með yfirtöku á skuldum DV sem námu 40 milljónum króna. Auk þess sem greiða átti 160 milljónir króna í reiðufé.

Samkvæmt héraðsdómi þá yfirtók þó Frjáls fjölmiðlun ekki allar þær skuldir sem kaupsamningurinn kvað á um. Var þá skuld við Árvakur/Landsprent sem nam 22 milljónum króna ekki gerð upp.

Héraðsdómari hélt ekki dómþing fyrir aðalmeðferð

Frjáls fjölmiðlun áfrýjaði máli þrotabús DV til Landsréttar í apríl þar sem farið var fram á að dómur héraðsdóms yrði ómerktur og vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. Var áfrýjunin á grundvelli þess að héraðsdómari hefði ekki haldið dómþing í málinu fyrir aðalmeðferð þess. 

Þrotabú DV krafðist þess að kröfunni yrði hafnað. Ef til þess kæmi að hún yrði tekin til greina var farið fram á að málskostnaður fyrir Landsrétti myndi falla niður.

Óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm

Í úrskurði Landsréttar var fallist á kröfur Frjálsrar fjölmiðlunar í ljósi þess að héraðsdómari hefði ekki tekið málið fyrir þinghaldi áður en aðalmeðferð fór fram líkt og kveðið er á um í lögum. Væri því óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Þá fellur málskostnaður fyrir Landsrétti einnig niður, eins og þrotabú DV fór fram á.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK