Hljóta verðlaunin í fimmta skiptið í röð

Þetta er í fimmta skiptið í röð sem fyrirtækið hlýtur …
Þetta er í fimmta skiptið í röð sem fyrirtækið hlýtur verðlaunin en samtals hefur það unnið til verðlaunanna sex sinnum. Ljósmynd/Aðsend

Íslenska tæknifyrirtækið Dohop hefur hlotið verðlaun World Travel Tech Awards í flokki bókunarvéla. Þetta er í fimmta skiptið í röð sem fyrirtækið hlýtur verðlaunin en samtals hefur það unnið til verðlaunanna sex sinnum. Fagfólk innan ferðageirans greiðir atkvæði um það hver hlýtur verðlaunin.

„Þessi verðlaun eru veitt á heimsvísu, við erum í raun og veru að keppa þarna í flokki með öllum öðrum bókunarvélum,“ segir Davíð Gunnarsson, framkvæmdastjóri Dohop, í samtali við mbl.is.

„Ég held að það sé kannski ástæðan fyrir því að við vinnum, af því að hinar leitarvélarnar eru fyrst og fremst fókuseraðar á að hagræða til þess að græða sem mest á meðan Dohop einbeitir sér að því að finna bestu leiðina, það sem er best fyrir viðskiptavininn.“

Davíð segir nálgun fyrirtækisins ástæðuna fyrir því að fagfólk innan bransans kjósi að það sé með bestu tæknina, eða bestu bókunarvélina.

Davíð Gunnarsson framkvæmdastjóri Dohop.
Davíð Gunnarsson framkvæmdastjóri Dohop. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stöðug barátta

Að sögn Davíðs hjálpa verðlaunin fyrirtækinu að viðhalda góðu orðspori innan ferðaþjónustugeirans og séu mikil hvatning fyrir starfsfólkið.

„Út á við hjálpar þetta okkur í samskiptum við þau flugfélög sem við erum að tala við, af því að við erum þá með betra orðspor gagnvart þeim, og inn á við er þetta vítamínsprauta,“ segir hann.

„Við erum búin að standa í þessari Covid-baráttu núna í eitt og hálft ár og síðasta ár sérstaklega var gríðarlega erfitt, þangað til við fengum inn fjármögnun frá erlendum fjárfestingasjóði í nóvember á síðasta ári.“

Davíð segir það vera stöðuga baráttu að reka ferðaþjónustufyrirtæki á tímum kórónuveirufaraldursins og að það geri einnig erfitt fyrir að fyrirtækið sé starfandi í tíu mismunandi löndum á þessum tímum.

„Þetta ár hefur sannarlega verið miklu miklu betra en samt erum við ennþá undir þeirri ábreiðu sem Covid er og stöndum ennþá í þeirri baráttu þegar við héldum að við værum að komast út úr þessu.

Ekki nóg með að hópurinn okkar starfi í mörgum löndum, sem er líka mjög erfitt, heldur höfum við ekki getað hist sem fyrirtæki í tvö ár.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK