36,3% fjölgun seldra fólksbíla árið 2021

KIA bílar seldust best á árinu, að minnsta kosti ef …
KIA bílar seldust best á árinu, að minnsta kosti ef litið er til nýskráðra fólksbíla.

12.769 nýjar fólksbifreiðar seldust á síðasta ári og voru nýskráðar hér á landi. Er það aukning milli ára í heildarsölu nýskráðra bíla sem nemur um 36,3%. Bílgreinasambandið hafði gefið út spá í upphafi síðasta árs þar sem gert var ráð fyrir að um 12.500 nýir bílar yrðu seldir á árinu og reyndist spáin því nærri lagi hjá Bílgreinasambandinu.

Nýskráðir fólksbílar sem seldust til einstaklinga á árinu voru 6.110 talsins en í fyrra 5.091. Samsvarar hækkunin því 20% í sölu nýskráðra bíla til einstaklinga. Seldir fólksbílar til almennra fyrirtækja og bílaleiga falla ekki undir þann flokk, voru 2.068 en í fyrra voru þeir 2.134 og varð því samdráttur í sölu nýrra fólksbíla til almennra fyrirtækja um 3%.

Bílaleigur keyptu þó töluvert meira af nýskráðum fólksbílum á árinu og í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu er bent á að Covid-19-faraldurinn leiki þar stórt hlutverk. Ferðalög milli landa voru umtalsvert minni árið 2020 en gengur og gerist og fundu bílaleigur, líkt og ferðaþjónustan í heild, mikið fyrir því.

4.452 nýir fólksbílar voru keyptir af bílaleigum landsins og samanborið við þá 2.023 sem seldust árið áður nemur hækkunin því um 120,2%.

Toyota var vinsæll á árinu sem leið, líkt og endranær.
Toyota var vinsæll á árinu sem leið, líkt og endranær.

Nýorkan fyrirferðarmikil

Heildarhlutfall nýskráðra bíla sem seldust á árinu og eru knúnir af nýorku, sem þá vísar til rafmagns-, tengiltvinn- og metanbíla, var 54,7% en árið áður var hlutfallið um 45%. Hybrid-bílar voru þá 17,8% af heildarsölunni í fyrra en 12,5% árið 2020.

Segir þá í tilkynningunni að áhugavert verði að fylgjast með þróuninni á árinu þar sem ívilnanir stjórnvalda breyttust hvað varðar kaup á tengiltvinnbílum. Búist er við að verðhækkun muni eiga sér stað vegna þessa og ekki ólíklegt að það hafi áhrif á sölu á bílunum.

Í tilkynningunni er raunar sagt að það sé mat Bílgreinasambandsins að þetta muni hægja á orkuskiptunum og setja markmið stjórnvalda í loftslagsmálum í uppnám.

KIA var mest selda fólksbílategundin í fyrra með 1.826 nýskráða bíla. Toyota fylgdi fast á hæla KIA með 1.790 selda bíla og Hyundai var í þriðja sæti með 1.133 selda fólksbíla.

Árétting

Því skal haldið til haga að Toyota seldi flesta bíla á síðasta ári þegar á heildina er litið. Toyota seldi alls 2.145 bíla á síðasta ári en KIA seldi næstmest eða 1.983 bíla.

Rétt er þó að KIA seldi flesta fólksbíla á liðnu ári og fylgdi Toyota fast á þeirra hæla á því sviði, eins og áður segir. 

Hyundai var þriðja mest selda bílategundin ef litið er til …
Hyundai var þriðja mest selda bílategundin ef litið er til nýskráðra bíla.
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK