Stígur til hliðar vegna sóttvarnabrota

Antonio Horta-Osorio hefur látið af störfum sem stjórnarformaður Credit Suisse …
Antonio Horta-Osorio hefur látið af störfum sem stjórnarformaður Credit Suisse vegna sóttvarnabrota, innan við ári eftir að hann tók við starfinu. AFP

Antonio Horta-Osorio hefur stigið til hliðar sem stjórnarformaður svissneska bankarisans Credit Suisse eftir að upp komst um sóttvarnabrot hans. Horta-Osorio leiddi stjórn bankans aðeins í um níu mánuði eftir að hafa áður stýrt Lloyds Banking Group í áratug.

Innri rannsókn Credit Suisse leiddi í ljós nokkur sóttvarnabrot hjá Horta-Osorio, meðal annars í tengslum við úrslitaleik Wimbledon-mótsins í tennis í júlí í fyrra. Í tilkynningu frá bankanum er haft eftir Horta-Osorio að hann sjái eftir gjörðum sínum og að hann telji að afsögn sín sé til hagsmuna fyrir bankann og eigendur hans.

Rannsókn bankans lauk í síðasta mánuði en niðurstöður hennar voru meðal annars að Horta-Osorio hefði brotið sóttvarnareglur í Sviss þegar hann flaug til landsins 28. nóvember í fyrra og svo aftur út 1. desember. Hefði hann þurft að vera í sóttkví í 10 daga eftir komu sína til landsins samkvæmt þágildandi sóttvarnareglum.

Einnig kom í ljós að Horta-Osorio hefði átt að vera í sóttkví samkvæmt gildandi reglum í Bretlandi í júlí þegar hann sótti úrslitaleik Wimbledon-tennismótsins.

Í umfjöllun BBC um málið kemur fram að tvær sögur fari um ástæður þess að Horta-Osorio hafi verið látinn fara frá bankanum. Sú fyrri sé að hann hafi brotið reglur og að rannsókn hafi staðfest brot hans og því hafi hann þurft að stíga til hliðar. Hin sagan sé að ekki hafi verið stuðningur innan stjórnarinnar við áform hans um breytingar í framkvæmdastjórn og menningu bankans eftir röð vandræðamála fyrir bankann á undanförnum árum.

Sem dæmi um slík mál á undanförnum árum var að fyrrverandi forstjóri bankans var látinn fara í byrjun árs 2020 eftir að upp komst að hann hefði látið njósna um háttsetta yfirmenn í bankanum. Þá töpuðu viðskiptavinir Credit Suisse einnig miklum fjármunum vegna falls Greensill Capital og bankinn sjálfur tapaði miklu á falli vogunarsjóðsins Archegos. Var Horta-Osorio einmitt fenginn inn til að lægja öldurnar eftir þessi mál, en kaldhæðni örlaganna varð til þess að sjálfur þurfti hann að víkja vegna eigin brota.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK