Málinu vísað frá og Skúli greiðir ekki eyri

Máli þrotabús Wow air gegn Skúla Mogensen og fleirum var …
Máli þrotabús Wow air gegn Skúla Mogensen og fleirum var vísað frá dómi og þrotabúinu gert að greiða Skúla 2,1 milljón krónur. mbl.is/RAX

Kröfu þrotabús Wow air gegn Títan fjárfestingafélagi, Skúla Mogensen og fjórum fyrrum stjórnarmönnum Wow air var vísað frá Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Þrotabú WOW air gerði kröfu gegn stefndu að þeim yrði gert að greiða 3 milljónir og 102 þúsund bandaríkjadali með skaðabótavöxtum en það nemur um hálfum milljarði íslenskra króna. 

Títan fjárfestingafélag, Skúli Mogensen og stjórnarmennirnir fjórir, Liv Bergþórsdóttir, Helga Hlín Hákonardóttir, Davíð Másson og Basil Ben Baldanza, kröfðust öll sýknu og að þeim yrði greiddur málskostnaður. Þarf því þrotabú Wow air að greiða 14,1 milljón krónur samtals í málskostnað til málsaðila.

Meint ólögmæt viðskipti

Þrotabúið höfðaði málið í skaðabótaskyni vegna meintar ólögmætar háttsemi Skúla og annarra  stjórnarmanna fyrirtækisins í tengslum við viðskipti um kauprétt á fjórum Airbus-flugvélum. Er rakið í úrskurði héraðsdóms að þrotabúið lítur svo á að Títan, móðurfélag Wow air, hafi auðgast með óréttmætum hætti á umræddum viðskiptum á kostnað Wow air. Títan var á þeim tíma alfarið í eigu Skúla. 

Wow og Títan gerðu þá með sér fjóra samninga sem vörðuðu kaup- og söluréttindi vegna umræddra flugvéla. Í samningunum féllst Wow air á að greiða Títan 12 milljónir bandaríkjadala fyrir kauprétt að flugvélunum. 

Þoturnar voru síðar seldar Air Canada og hlaut Wow 8,9 milljónir bandaríkjadala samtals fyrir söluna samkvæmt þrotabúinu. Þar með hélt þrotabúið fram að Wow hefði tapað 3,1 milljónum dala vegna samninganna um kaup- og söluréttindi. Þrotabúið hélt að auki fram að Títan hafði auðgast um þessa tilteknu upphæð með óréttmætum hætti. 

Lagði ekki fram samningana 

Stefndu lögðu fram áskorun á þrotabúið að leggja fram öll gögn um viðskiptin við Air Canada. Þrotabúið lagði hvorki fram kaupsamninga né greiðslukvittanir vegna sölunnar heldur lagði fram skýrslu sem endurskoðunarfyrirtækið Deloitte hafði unnið. Í skýrslunni er vísað til kaupverðsins en þó með þeim fyrirvara að höfundur skýrslunnar hafi ekki séð samningana. 

Dómurinn mat það sem svo að hvorki skýrslan né önnur gögn gætu komið í stað samninganna sjálfra og greiðslukvittana. 

Komst héraðsdómur þar með að þeirri niðurstöðu að ekki væru til staðar nægileg gögn til að unnt væri að fella efnisdóm á kröfu þrotabúsins. Málinu var því vísað sjálfkrafa frá dómi að sökum vanreifunar.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK