Play hyggst sækja 2,3 milljarða í nýtt hlutafé

Flugfélagið Play hyggst sækja sér nýtt hlutafé að andvirði 2,3 milljaða króna. Í tilkynningu frá félaginu nú í kvöld kemur fram að stjórn Play hafi safnað bindandi áskriftarloforðum að nýju hlutafé í félaginu. Fram kemur í tilkynningunni að áskriftarloforðin komi frá tuttugu stærstu hluthöfum Play.

Áskriftirnar eru fyrir um 157,5 milljónir hluta á genginu 14,6. Gengi félagsins við lok markaða í dag var 15,2 og hefur aldrei verið lægra frá því að félagið var skráð á markað sumarið 2021.

Fram kemur að samhliða útgáfu hlutanna verða gefin út áskriftarréttindi að hlutum sem nema 25% af framangreindri hlutafjárútgáfu. Áskriftarverðið verður það sama auk vaxta frá útgáfudegi sem nema sjö daga veðlánavöxtum Seðlabanka Íslands. Áskriftarréttindin verða nýtanleg í 10 daga eftir birtingu ársuppgjörs 2023. Stjórn mun boða til hluthafafundar í samræmi við samþykktir félagsins, þar sem lögð verður fram tillaga um hlutafjárhækkun, fráfall forgangsréttar núverandi hluthafa og veitingu heimildar til stjórnar til að efna skuldbindingar félagsins.

Fram kemur að markmiðið með söfnun áskriftarloforðanna sé að efla félagið fyrir komandi vöxt og tryggja sterka lausafjárstöðu þess.

„Þessi hlutafjáraukning frá tuttugu stærstu hluthöfum PLAY er mikið fagnaðarefni og fyrst og fremst til marks um það mikla traust sem stórir hluthafar hafa á rekstrinum og því sem við erum að gera,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play í tilkynningunni.

Fyrr í dag var greint frá því að tap félagsins á þriðja ársfjórðungi þess árs hafi numið 2,9 milljónum Bandaríkjadala. Rekstrarhagnaður fyrir skatta og fjármagnsliði nam 1,3 milljónum dala. Heildartap félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins nemur því um 28,4 milljónum dala. Þá hefur rekstrarspá félagsins verið færð niður og áætlar flugfélagið að tekjurnar í ár nemi um 140 milljónum dala, en áður hafði verið gert ráð fyrir 150-160 milljónum dala í rekstrartekjur á þessu ári.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK