Ísland sagt misnota einokunarstöðu sína

Peter Cerda, varaforseti ameríkudeildar Alþjóðasamtaka flugfélaga, segir enga réttlætingu fyrir …
Peter Cerda, varaforseti ameríkudeildar Alþjóðasamtaka flugfélaga, segir enga réttlætingu fyrir 30% hækkun flugumferðargjalds Isavia. Ljósmynd/IATA

Peter Cerda, varaforseti Ameríkudeildar Alþjóðasamtaka flugfélaga (IATA), segir íslensk og dönsk stjórnvöld misnota landfræðilega legu sína til að hafa fé af flugfélögum sem fljúga milli Norður-Ameríku og Evrópu. Vísar hann til þess að flugumferðargjald mun hækka 1. janúar næstkomandi.

„Tvö ríki eru að gera einokunarstöðu sína að féþúfu án nokkurrar réttlætingar. Það verður að stöðva það. Af hverju ættu flugfélög að borga hærra verð fyrir þjónustu einokunaraðila sem hefur ekki breyst og ekkert sem réttlætir hærri kostnað?“ segir Cerda í fréttatilkynningu.

Um er að ræða gjald sem innheimt er af flugumferð um flugumferðarstjórnarsvæði ríkjanna tveggja og nær því til gríðarlegs fjölda ferða milli Norður-Ameríku og Evrópu. Í tilkynningu IATA, sem birt var á vef samtakanna í dag, er fullyrt að gjaldið muni að meðaltali hækka um 30% og að hækkunin hafi komið til án nokkurrar viðleitni til samtals eða samráðs um ákvörðunina í samræmi við leiðbeiningar Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO).

Ættu frekar að auka hagkvæmni

Þá hafa samtökin sent dönskum samgönguyfirvöldum, Trafikstyrelsen, og Isavia erindi þar sem beðið er um að hætt verði við gjaldskrárhækkunina.

„Frekar en að hækka gjöld ættu veitendur að leitast við að ná fram hagkvæmni sem mun halda kostnaði í skefjum. Og ef ekki er hægt að finna hagkvæmni, þá er kominn tími til að þessir birgjar sitji í samráði við viðskiptavini sína til að fara yfir tillögur. Einhliða nálgunin sem hefur verið farin er algjörlega óviðunandi,“ segir Cerda í yfirlýsingunni.

Hvetja samtökin til þess að ákvarðanir af þessum toga verði teknar í kjölfar þess að gagnsætt samráðsferli hafi átt sér stað og að lagðar verða fram upplýsingar um áhrif breytinganna sem og áætlun um innheimtu næstu fimm ára.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK