Hægja kann á einkaneyslu

Nú stendur yfir neysluþyngsti mánuður ársins.
Nú stendur yfir neysluþyngsti mánuður ársins. Haraldur Jónasson / Hari

Einkaneysla hefur verið mikil það sem af er ári, en minni kaupmáttur og vaxtahækkanir kunna að verða til þess að íslenskir neytendur haldi að sér höndunum.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Hagfræðideildar Landsbankans, sem hefur tekið saman tölur um stöðu verslunar og þjónustu á Íslandi. Þar kemur fram að áskoranir á borð við heimsfaraldur, verðhækkanir erlendis og miklar og mismunandi hækkanir launa hafa litað reksturinn síðustu misseri. Greinin hefur þó sýnt seiglu og aðlagast nýjum veruleika hverju sinni, að mati bankans.

Í skýrslunni kemur fram að verslun og þjónusta hafi blómstrað á síðustu árum og að aðsókn ferðamanna til landsins hafi ýtt undir fjölbreytta matar-, verslunar- og skemmtanamenningu sem heimamenn njóti einnig góðs af. Þá kemur einnig fram að þeir ferðamenn, sem nú koma til landsins, dvelja lengur og gera betur við sig en áður. Það styður við greinina á sama tíma og neysluaukning Íslendinga kemur aðallega fram erlendis.

Una Jónsdóttir, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans, segir í tilefni af útgáfu skýrslunnar að vöxtur innlendrar verslunar og þjónustu sé að stórum hluta háður því hversu margir ferðamenn koma til landsins, hversu lengi þeir dvelja og hversu miklu þeir eyða á ferðalaginu.

„Það skiptir líka miklu máli fyrir orðspor Íslands meðal ferðamanna og vinsældir landsins sem áfangastaðar að ferðamenn geti hér gengið að góðri þjónustu og verslun sem höfðar til þeirra. Hagur ferðaþjónustunnar annars vegar og innlendrar verslunar og þjónustu hins vegar er því nátengdur. Áskoranir hafa verið miklar á síðustu árum og er með ólíkindum hversu vel íslensk verslun og þjónusta hefur komist í gegnum þær,“ segir Una.

Norskir ferðamenn eyða mestu

Í kafla um neyslu ferðamanna kemur fram að norskir ferðamenn á Íslandi eyða mestu á hverjum degi, rúmlega 58 þúsund krónum að meðaltali. Þar á eftir koma Kanadamenn sem eyða að meðaltali rúmlega 46 þúsund krónum á dag. Kínverskir ferðamenn eyða minnstu, tæpum 17 þúsund krónum að meðaltali á dag. Allar tölur miðast við árin 2018-2019 á verðlagi þess tíma.

Kortavelta erlendra ferðamanna hefur aukist hratt á síðustu mánuðum og drifið áfram aukna heildarkortaveltu á landinu. Ferðamenn virðast gera betur við sig á ferðalögum um Ísland en fyrir faraldur, auk þess að dvelja almennt lengur.

Norðmenn dvelja aftur á móti stutt á Íslandi, að meðaltali í 2,4 skráðar gistinætur á árunum 2017-2019. Finnar stoppa líka stutt, að meðaltali í 2,1 skráða gistinótt og eyða hlutfallslega miklu. Ferðamenn frá Þýskalandi stöldruðu lengst við á árunum 2017-2019, að meðaltali 6,2 gistinætur, og eyddu minnstu á hverjum degi að undanskildum Kínverjum, sem dvöldu einnig lengur en meðalferðamaður, eða 4,4 gistinætur.

Bandaríkjamenn hafa verið langfjölmennasta ferðamannaþjóðin síðustu ár. Þar á eftir hafa ýmist komið Bretar eða Þjóðverjar og Danir og Frakkar fylgja fast á eftir.

Fjöldi erlendra ferðamanna í hverjum mánuði er mjög nálægt fjöldanum í sama mánuði 2019, síðasta árið fyrir faraldur. Það stefnir í að ferðamenn verði um 1,7 milljónir á þessu ári og Hagfræðideild Landsbankans spáir því að þeim fjölgi í 2,5 milljónir árið 2025. Gangi spáin eftir eru horfurnar bjartar fyrir innlenda verslun og þjónustu að því er segir í skýrslunni.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK