Afkoma Skeljar langt umfram væntingar

Skel á meðal annars og rekur 70 stöðvar undir merkjum …
Skel á meðal annars og rekur 70 stöðvar undir merkjum Orkunnar.

Útlit er fyrir að afkoma fjárfestingafélagsins Skeljar í fyrra verði verulega umfram væntingar, eða næstum því tvöföld vænt afkoma. Frá þessu er greint í jákvæðri afkomuviðvörun sem send var á Kauphöllina nú fyrir stuttu.

Segir þar að drög að ársuppgjöri félagsins liggi fyrir og samkvæmt þeim muni afkoma eftir skatta nema á bilinu 14,5 til 15 milljörðum. Vísað er til þess að afkomuspá sem birt var með uppgjöri fyrsta ársfjórðungs í fyrra hafi áætlað að hagnaður gæti verið á bilinu 7,6 til 8,3 milljarðar.

Er ástæðan fyrir þessar breytingu fyrst og fremst hagnaður vegna uppfærðs verðmats á óskráðum fjárfestingaeignum félagsins upp á 9,8 milljarða, en áætlað eigið fé Skeljar í árslok er á bilinu 33 til 33,5 milljarðar.

Skel á meðal annars félögin Orkuna, Löður, Skeljung og Gallon, auk 58% hluts í Lyfjavali. Undir rekstur Orkunnar falla 70 eldsneytisstöðvar og verslunarrekstur á stöðvunum undir merkjum Orkunnar, 10-11 og Extra. Þá á Orkan Löður að fullu, Íslenska vetnisfélagið, 34% hlut í Straumalind og eignarhlut í félögum í veitingarekstri undir merkjum Braut og co, Gló og Sbarro. Hluturinn í Lyfjavali heyrir einnig undir Orkuna.

Löður rekur 15 bílaþvottastöðvar, þar af 13 á höfuðborgarsvæðinu. Skeljungur sinnir sölu og þjónustu við fyrirtæki með eldsneyti, efnavöru og áburð, en félagið á einnig 67% hlut í Barki, 33% hlut í EAK, 33% í Fjölveri og 67% hlut í Ecomar.

Gallon á og rekur orkuinnviði eins og sex birgðastöðvar víða um land. Eru birgðatankar félagsins samtals 36 talsins og geymslurými fyrir um 90 milljónir lítra af eldsneyti. Gallon á einnig 25% hlut í EBK.

Félagið mun birta ársuppgjör 2022 eftir lokun markaða þann 7. Febrúar.

Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri Skel fjárfestingafélags.
Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri Skel fjárfestingafélags.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK