Reykjavíkurborg gefur út skuldabréf í dag

Borgin hefur aflað 7,2 milljarða króna með skuldabréfaútgáfu á árinu …
Borgin hefur aflað 7,2 milljarða króna með skuldabréfaútgáfu á árinu en heimild til lántöku er 21 milljarður samkvæmt fjárhagsáætlun ársins. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Síðasti útgáfudagur útgáfuáætlunar fyrir fyrri hluta ársins í skuldabréfaútboði Reykjavíkurborgar er í dag. Efnt er til útboðs í skuldabréfaflokkunum RVK 32 1 og RVKG 48 1, samkvæmt tilkynningu.

RVK 32 1 er verðtryggður skuldabréfaflokkur sem ber fasta 2,5% verðtryggða vexti til um níu ára. RVKG 48 1 er verðtryggður grænn skuldabréfaflokkur sem ber fasta 2,385% verðtryggða vexti til um 25 ára.

Endanleg vaxtakjör ráðast þó af því hvernig markaðurinn tekur í útboðið. Útboðið verður með hollenskri aðferð þar sem öll skuldabréf verða seld á hæstu ávöxtunarkröfu sem tekið verður.

Sótt 7 milljarða með skuldabréfaútgáfu á árinu

Borgin hætti sem kunnugt er við útboð á fyrirhuguðum útboðsdögum í bæði mars og apríl en aflaði 3,2 milljarða króna í útboði í maí. Heildarfjármögnun ársins fyrir útboðið nemur rúmum 10 milljörðum en heim­ild til lán­töku er 21 millj­arður króna sam­kvæmt fjár­hags­áætl­un árs­ins.

Seld hafa verið skuldabréf í fjórum flokkum á árinu fyrir 7,2 milljarða króna en auk skuldabréfaflokkanna RVK 32 1 og RVKG 48 1 seldi borgin skuldabréf í verðtryggða skuldabréfaflokkinum RVK 53 1 og í óverðtryggða skuldabréfaflokkinum RVKN 35 1 auk þess að hafa dregið á lánalínu hjá Íslandsbanka um alls þrjá milljarða króna.

Fimm útgáfudagar eru fyrirhugaðir á seinni hluta ársins; 16. ágúst, 6. september, 18. október, 15. nóvember og 6. desember.

Reykjavíkurborg hefur boðið viðskiptavökum, sem eru Arion banki, Íslandsbanki, Kvika banki og Landsbanki, að hafa umsjón með útboðinu og taka á móti tilboðum í útboðinu að því er fram kemur í tilkynningu.

Niðurstaða útboðsins verður birt opinberlega á morgun.

Í upphaflegri frétt var ranglega greint frá því að útboðið í dag næmi 10 milljörðum króna. Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK