Ekki rætt við Sindra og Ólaf

Sindri staðfestir í samtali við ViðskiptaMoggann að engin samskipti hafi …
Sindri staðfestir í samtali við ViðskiptaMoggann að engin samskipti hafi verið á milli hans og SKE meðan á rannsókninni stóð. Ljósmynd/Eimskip

Í þau þrettán ár sem rannsókn Samkeppniseftirlitsins (SKE) á meintu samráði flutningafyrirtækjanna Eimskips og Samskipa stóð yfir var aldrei rætt við né tekin skýrsla af Sindra Sindrasyni, fv. stjórnarformanni Eimskips, né Ólafi Ólafssyni aðaleiganda Samskipa.

Sindri staðfestir í samtali við ViðskiptaMoggann að engin samskipti hafi verið á milli hans og SKE meðan á rannsókninni stóð. Þá hefur blaðið einnig fengið staðfest að ekki hafi verið rætt við Ólaf Ólafsson vegna málsins.

Fjórir einstaklingar sátu afdrífaríkan fund sem fram fór í júní 2008, en samkvæmt niðurstöðu SKE er fundurinn sagður hafa markað upphaf að meintu samráði fyrirtækjanna.

Til viðbótar við þá Sindra og Ólaf sátu fundinn þeir Gylfi Sigfússon, þá nýráðinn forstjóri Eimskips, og Ásbjörn Gíslason, þá forstjóri Samskipa.

Forsvarsmenn Samskipa boðuðu til fundar

Líkt og fram kom í frétt ViðskiptaMoggans í síðustu viku má rekja tilurð fundarins til þess að forsvarsmenn Samskipa höfðu afspurn af bágri fjárhagsstöðu Eimskips og föluðust í kjölfarið eftir hluta af erlendum eignum félagsins, nánar tiltekið finnska gámaflutningafélaginu Containerships og hollenska frystigeymslufyrirtækinu Daalimpex. Þetta staðfestir Sindri jafnframt í samtali við blaðið nú.

„Forsvarsmenn Samskipa boðuðu til fundarins og lýstu þar yfir áhuga á því að kaupa þessar eignir. Fundurinn var stuttur enda stóð ekki til af okkar hálfu að selja þessar eignir til helsta keppinautarins,“ segir Sindri.

„Það er ekkert launungarmál að Eimskip var á þessum tíma að róa lífróður og var í erfiðri stöðu eftir miklar offjárfestingar á árunum á undan. Kaupþing hafði nýlega gjaldfellt lán á Eimskip og hugðist ganga á eignir félagsins. Það kom okkur á óvart að Samskip hefði upplýsingar um stöðuna sem þá var uppi, þá sérstaklega að bankinn hygðist ganga á eignir Eimskips. Það voru ekki upplýsingar sem okkar helsti keppinautur átti að búa yfir.“

Sindri segir aðspurður að hann hafi hvorki fyrr né síðar fundað með eigendum eða starfsmönnum Samskipa.

Ósáttur við niðurstöðuna

Samkeppniseftirlitið lagði sem kunnugt er 4,2 milljarða króna sekt á Samskip fyrr í þessu mánuði en Eimskip hafði samið um málalok sumarið 2021 með játningu og greiðslu 1,5 milljarða króna sektar. Spurður um samkomulag Eimskips og Samkeppniseftirlitsins í júní 2021 segist Sindri ósáttur við þá niðurstöðu.

„Það er alvarlegt að ég skuli vera borinn sökum af þessum toga af eftirlitsstjórnvaldi án þess að eiga kost á að bera hönd fyrir höfuð mér, hvað þá spurður um afstöðu mína til efnisins,“ segir Sindri.

„Það veldur mér einnig miklum vonbrigðum að nýir eigendur félagsins skuli játa lögbrot og sakir á mig með þessum hætti án þess að ég geti brugðist við á nokkurn hátt. Ég hef skilning á því að þeir hafi metið það svo að það væri heppilegra ljúka málinu með þessum hætti – með því að greiða sig frá málinu sem þá hafði verið til rannsóknar í rúman áratug og líklegt til að taka mörg ár til viðbótar – en þeir fórna um leið fyrrverandi stjórnendum sem geta ekki varið sig.“

ViðskiptaMogginn fylgir með Morgunblaðinu í dag, miðvikudag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK