Hver lækkaði gjaldskrá Íslandspósts?

Tilefni minnisblaðsins er að Ríkisendurskoðun vinnur nú að úttekt á …
Tilefni minnisblaðsins er að Ríkisendurskoðun vinnur nú að úttekt á framkvæmd og eftirliti með póstþjónustu að beiðni Alþingis. mbl.is/Hari

Félag atvinnurekenda (FA) segir þáverandi stjórnarmenn og stjórnendur Íslandspósts (ÍSP) hafa, í samráði við embættismenn, lækkað gjaldskrá í trássi við lög og þannig niðurgreitt samkeppni á póstmarkaði.

Þetta kemur fram í minnisblaði FA sem félagið sendi Ríkisendurskoðun á dögunum og Morgunblaðið hefur undir höndum.

Tilefni minnisblaðsins er að Ríkisendurskoðun vinnur nú að úttekt á framkvæmd og eftirliti með póstþjónustu að beiðni Alþingis. Úttektinni er meðal annars ætlað að svara spurningunni „Hver tók ákvörðun um lækkun gjaldskrár fyrir pakkasendingar um land allt 1. janúar 2020 sem olli því að ríkið greiddi 126 millj. kr. vegna ársins 2020 og 134 millj. kr. vegna ársins 2021 í framlag vegna kvaðar um sömu gjaldskrá um land allt?“.

Ofangreind spurning hefur lengi verið þrætuepli en samkvæmt samþykktum ÍSP er það hlutverk stjórnar að setja gjaldskrár. Enginn hefur gengist við því að hafa tekið ákvörðun um lækkun gjaldskrár pakka og hafa menn bent hver á annan í þeim efnum. Fyrir liggur hins vegar að sú ákvörðun var ekki tekin fyrir og samþykkt af stjórn.

Augljóst brot á lögum

Forsagan er sú að þegar ný lög um póstþjónustu tóku gildi í upphafi árs 2020 tók ÍSP ákvörðun um að lækka gjaldskrá pakka umtalsvert, allt að 40%. Var það gert með vísan til ákvæðis laganna sem kvað á um að gjaldskrá fyrir alþjónustu skyldi vera sú sama um land allt.

Í minnisblaði FA segir þar augljóslega hafa verið brotið gegn ákvæði laganna um að gjaldskrá alþjónustu skuli taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði. „Árið áður en gjaldskráin var lækkuð var um hálfur milljarður í tap af henni. Það var því viðbúið að tapið myndi aukast enn frekar,“ segir í minnisblaðinu.

Ekki benda á mig segir forstjórinn

Snemma í desember 2020 samþykkti stjórn bókun í fundargerð þar sem segir að Birgir Jónsson, sem þá hafði nýverið látið af störfum sem forstjóri, hafi einn borið ábyrgð á gjaldskrárlækkuninni. Hann mótmælti þessu á sínum tíma og gögn sem Morgunblaðið hefur undir höndum renna stoðum undir að hluti stjórnar í það minnsta hafi átt hlut að máli.

FA segir gögn málsins gefa sterka vísbendingu um hverjir tóku ákvörðunina, að aðilar innan stjórnsýslunnar hafi haft beina aðkomu að henni, og að loforð hafi verið gefin um að ríkissjóður „myndi standa undir ólögmætri undirverðlagningu á samkeppnismarkaði undir því yfirskini að um væri að ræða alþjónustubyrði“.

Þannig bendi gögn til þess að Bjarni Jónsson, þáverandi stjórnarformaður og núverandi alþingismaður Vinstri grænna, og Auður Björk Guðmundsdóttir, þáverandi varaformaður stjórnar, ásamt Birgi Jónssyni, þáverandi forstjóra, og Þórhildi Ólöfu Helgadóttur, þáverandi framkvæmdastjóra fjármálasviðs og núverandi forstjóra, hafi farið framhjá stjórn og tekið ákvörðun um að lækka gjaldskrána langt undir raunkostnað.

ÍSP réði lögfræðing PFS

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS), sem áður fór með eftirlit með póstþjónustu, gerði til að byrja með ítrekaðar athugasemdir við lækkunina en dró síðar í land.

FA bendir á að starfsmaður PFS, Friðrik Pétursson, sem undirritaði ákvörðun um hundraða milljóna króna greiðslu til ÍSP á grundvelli „óvirkni laga“, hafi tekið við starfi lögfræðings Íslandspósts í beinu framhaldi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK