c

Pistlar:

10. desember 2020 kl. 20:59

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Íslenskar ævisögur og félagslegur hreyfanleiki

Hugsanlega hafa lesendur tekið eftir dálæti höfundar á ævisögum en hér í pistlum birtast af og til umsagnir um þær sem rekur á fjörur höfundar. Eðli málsins samkvæmt fjalla þær um fólk sem komið er á fullorðinsaldur, nú eða hefur safnast til feðra sinna og er þar af leiðandi orðið viðfangsefni sagnfræðinga eða ævisagnahöfunda. Er þá ekki verið að tala um skáldævisögur en Guðbergur Bergsson mun hafa gefið ákveðnum ritum þetta nafn og póstmódernisminn tók því opnum örmum. Allt skyldi vera afstætt. En látum það liggja milli hluta.

Kjarni hverrar ævisögu er hvernig viðkomandi hefur farnast. Hvað fólki tókst að gera úr sjálfu sér við oft misjafnar aðstæður og með mismikinn farareyri úr föðurgarði. Sú saga segir okkur meira en flest annað um það sem fræði dagsins í dag kalla félagslegan hreyfanleika. Tilraunir hafa verið gerðar til þess að færa hann í tölulegar samantektir og fyrir ári síðan setti forsætisráðuneytið af stað sérstakan vef til að halda utan um slíkar upplýsingar. Þar mátti sjá að félagslegur hreyfanleiki er mikill á Íslandi. Sem dæmi má nefna að 73% einstaklinga á aldrinum 25-29 ára sem voru í fyrstu þremur tekjutíundum árið 1991 voru komnir í hærri tíund árið 2017. Ekki verður farið dýpra í þessa tölfræði hér enda er það nú svo að stundum finna menn það sem þeir leita að í slíkum samanburði.stétt

Hvað felst í félagslegum hreyfanleika?

En hvað stuðlar að félagslegum hreyfanleika? Óhætt er að segja að uppbygging velferðarkerfisins frá upphafi hafi miðast að því að styðja við fólk, óháð aðstæðum og uppruna. Þannig eru okkar helstu kerfi byggð upp að allir geti sótt þangað þjónustu óháð efnahag, svo sem mennta- og heilbrigðiskerfið sem eiga að þjónusta alla landsmenn. Það er auðvitað mikilvægt að stuðla að því að börn og ungmenni hafi eins og jöfn tækifæri og unnt er til að komast til þroska. Eitt mikilvægasta tækið til þess er námslánakerfi sem styður við framfærslu námsmanna. Ekki verður séð annað en að í öllum þessum tilvikum hafi þokkalega tekist til og Íslendingar hafa lengst af talið sig hafa þokkalega tækifæri til að vera sinn eigin gæfusmiður. En er það að breytast? Finnst ungu fólki í dag að það fái ekki tækifæri? Mér vitanlega eru engar rannsóknir sem renna stoðum undir slíkt þó einstaka kannanir hafi verið gerðar sem benda í þá átt. En augljóslega er það skoðun þeirra hjá Afli og birtist í grein Sverris.

Stéttskipt Íslands af fullu Afli

„Sem betur fer er þó félagslegur hreyfanleiki mikill á Íslandi miðað við mörg önnur nágrannalönd og fólki er gefinn kostur á að ná vopnum sínum og bæta lífskjör sín. Því miður nýta ekki allir þann möguleika,“ skrifar Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri Afls starfsmannafélags, í síðasta blað félagsins. Blaðið er helgað stéttskiptu Íslandi. Þar má lesa greinar undir heitunum: Eru börnin okkar fædd til fátæktar? Við fæðumst ekki jöfn. Ertu þræll eða þjónn? Stéttskipting á Íslandi í áranna rás og auðvitað: Hverjir eiga allt? Allt er þetta skrifað af talsverðri sannfæringu enda líklega hluti af málefnaumræðu verkalýðshreyfingarinnar núna. En er þetta sagnfræðilega nákvæmt?

Þó að Sverrir játi að félagslegur hreyfanleiki sé mikill þá virðist hann setja mikla fyrirvara við fullyrðinguna í grein sinni, suma má skilja en aðrir virðast langsóttir. En kjarninn í því sem hann er að segja birtist í þessum orðum hans: „Auðmenn geta risið upp frá alþýðufólki og öll þekkjum við sögur um harðduglegt fólk sem braust til efna með dugnaði og útsjónarsemi en hélt alltaf „alþýðleika“ sínum og jafnvel nægjusemi. En börn þeirra sem erfðu svo auðæfin eru yfirleitt hreint ekki af „alþýðustétt“ í eigin augum. Þegar þriðja kynslóðin kemur svo til sögunnar erum við komin með hreinræktaða yfirstétt sem telur sig hafna yfir lög og reglur.“

Má vera að þarna birtist átakapunktur stéttabaráttunnar í dag. Hann birtist ekki í svo ólíkri aðstöðu þeirra sem eru á vinnumarkaði enda sýna aðrar tölur að launamunur er ekki sláandi hér á landi. Hins vegar hefur stéttasamsetningin breyst, meðal annars vegna mikillar fjölgunar öryrkja, aðflutts fólks sem þarf á stuðningi að halda um lengri eða skemmri tíma og innflutts vinnuafls. Það fólk býr við lökustu kjörin í dag, ekki endilega hinar vinnandi stéttir. Auðvitað er sérkennilegt ef við förum að sjá aðra eða þriðju kynslóð öryrkja samfara því að við fáum loksins fólk sem erfir eitthvað eins og Sverrir Mar bendir á. Ef það er þá þannig.

Þeir sem brutust út úr fátækt

Ég nefndi í upphafi heimildagildi ævisagna. Að baki því býr engin vísindaleg rannsókn heldur skýrist hún af þeim bókum sem ég hef gripið til og hefur verið vísað til hér í pistlum. Þar má nefna ævisögu Óskars Jóhannssonar kaupmanns sem kom úr sárri fátækt að vestan eins og var rakið í bernskuminningabók hans (Bernskudagar, sem kom út 2013) og náði með ótrúlegum dugnaði og elju að koma undir sig fótunum eins og fjallað var um hér á sínum tíma. Gunnar Birgisson, verkfræðingur, alþingismaður og bæjarstjóri, bjó einnig við kröpp kjör öfugt við til dæmis Jóhönnu Sigurðardóttur og Jón Baldvin Hannibalsson sem komu af efnuðum heimilum. Gunnar ólst upp við lítil efni og var hálfgerður einstæðingur; átti fjölda hálfsystkina og uppeldissystkina en var meira og minna á eigin vegum frá unglingsaldri. Auðmaðurinn Birkir Baldvinsson ólst upp við mikla fátækt og Jón Gunnarsson stórforstjóri ólst upp við kröpp kjör, meðal bændafólks í Húnavatnssýslu. Nýleg bók um flugrekstrarmanninn Jóhannes Einarsson sýnir að ekki var mulið undir hann frekar en flesta hans samtímamenn. Já, Guðjón Helgi Helgason (faðir HKL) var hin mesti atorkumaður, maður sem gerir allt úr engu og kom þó úr engu. Hann fær vinnu við vegagerð en nýtir um leið öll tækifæri sem gefast til að mennta sig þó honum sé ófært að ganga hina viðurkenndu menntabraut sem á þeim tíma bjó fyrst og fremst til embættismenn landsins. Allir þessir menn sýndu félagslegan hreyfanleika í verki sem skilaði sér til afkomenda þeirra.