c

Pistlar:

21. mars 2022 kl. 14:33

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hin grimma raunsæispólitík

Lýðræði er enn brothætt hugmynd í stórum hluta heimsins og Evrópubúar fá nú harða kennslustund í afleiðingum þess sem getur gerst þegar öryggiskerfi alþjóðastjórnmála hrynur og stríð brýst út. Það má hafa margar skýringar á orsökum stríðsins í Úkraínu en Rússar verða aldrei hreinsaðir af ábyrgð þess að hefja þetta stríð. Hér hefur margoft í pistlum verið vikið að ábyrgð Vladimirs Putins, forseta Rússlands, á þeim hörmungum sem nú ganga yfir úkraínska alþýðu.

En geópólitískur veruleiki er ekki alltaf fyrir draumórafólk og stríði í Úkraínu er staðfesting þess að það hefur mistekist að byggja upp öryggisjafnvægi í Evrópu sem í senn tryggir frið og kemur til móts við óskir hinna einstöku ríkja. Fyrrverandi forseta okkar, Ólafi Ragnari Grímssyni, varð tíðrætt um átta ára gamla hugmynd Henry Kissinger í Silfrinu á sunndaginn um það hvernig unnt væri að tryggja stöðu Úkraínu. Hugmynd hans byggði á raunsæispólitík (hagsýnispólitík) eða realpólitík eins Kissinger og hans kynslóð var þekkt fyrir. Séra Geir Waage rekur þessa útfærslu Kissingers ágætlega í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.org

Hin grimma raunsæispólitík

Kissinger, eins og reyndar Ólafur Ragnar, störfuðu stærstan hluta sinnar ævi í umhverfi Kalda stríðsins sem kom ekki í veg fyrir staðbundin átök en afstýrði hugsanlega heimstyrjöld. Á þeim tíma leyfðu stórveldin sér grimma raunsæispólitík sem byggðist á fornu grísku spakmæli, þeir sterku taka það sem þeir vilja og þeir veikari sætta sig við það. Með tímanum myndaðist ákveðið valdajafnvægi sem stórveldin lærðu inná og þrátt fyrir allt tókst að afstýra beinum átökum milli þeirra sem hugsanlega hefði getað leytt til kjarnorkustyrjaldar. Enn í dag finnast sérfræðingar um öryggismál sem þakka kjarnorkuvopnum þann frið sem þó hélst. Þrátt fyrir væntingar um að sagan myndi breytast eða einhvern veginn veðrast í burtu (samanber bókina Endalok sögunnar, The End of History) þá á gríska máltækið enn við. Ógeðfeldasti hluti Kalda stríðsins birtist í staðgöngustríðum (e. proxy war), einnig kallað leppstríð. Þeim lauk ekki með endalokum Kalda stríðsins eins og íbúar Sýrlands og Jemen hafa fengið að kynnast.kiss

Raunsæispólitík Henry Kissingers gerði það að verkum að hann var á móti stækkun Nató til austurs og það hefur í raun verið stefna Bandaríkjanna síðan Kalda stríðinu lauk. Bæði Kissinger og sagnfræðingurinn og stjórnarerindrekinn George F. Kennan (1904-2005) töldu stefnu Vesturlanda gagnvart Rússlandi skapa óvissu og Ólafur Ragnar tók undir það í Silfrinu þar sem hann teygði sig ansi langt til að útskýra framferði Pútins. Þekktastur þessara raunsæismanna í dag er John Joseph Mearsheimer, stjórnmálafræðiprófessor við Chicago-háskóla, en til hans er vitnað í tíma og ótíma enda hafði honum verið tíðrætt um þann öryggisbrest sem vofði yfir Úkraínu. Mearsheimer telur að ekki hafi verið gætt nóg að öryggishagsmunum Rússa í kjölfar þess að Sovétríkin liðuðust í sundur og Austur-Evrópulöndin þyrptust inn í Nató, ekki ósvipuð skoðun og sú sem Ólafur Ragnar varpaði fram. Raunsæismennirnir telja að þetta hina raunverulegu ástæðu fyrir stríðinu í Úkraínu. Aðrir gætu bent á að það skapist aldrei raunverulegur friður fyrr en geópólitískum þörfum stórvelda er vikið til hliðar og sjálfsákvörðunarréttur þjóða sé virtur.

Vantar nýtt valdajafnvægi?

Allt sýnir þetta að það er erfitt að stilla upp nýju valdajafnvægi því eðlilega skilgreina herveldi áhrifasvæði sín með mismunandi hætti. En skilgreining á herveldi getur líka verið óljós. Nú horfa margir til þess að Evrópusambandið geti á einhvern hátt leyst öryggishagsmuni Evrópu þó að það hafi ekki verið hluti stofnsáttmála þess. Það væri þá nýtt hlutverk fyrir Evrópusambandið en löngum hafa málsmetandi menn gert grín að hugmyndinni um sameiginlegan evrópskan her. Það eru þá þeir sem geta rifjað upp að það hefur verið hlutverk Bandaríkjanna í gegnum Nató að tryggja öryggi Evrópu eftir að höfuðríki hennar hleyptu öllu í bál og brand með tveimur heimsstyrjöldum. (Sumir vilja reyndar líta svo á að Napóleon-stríðin séu fyrsta heimsstyrjöldin.) Í framhaldi heimsstyrjaldarinnar síðari var reynt að byggja upp öryggi Evrópu með því í raun að útvista ábyrgðinni til Bandaríkjamanna sem tóku á sig gríðarlegan kostnað vegna þessa og voru með ríflega 90.000 hermenn í Evrópu þegar Úkraínu-stríðið hófst og hafa bætt í síðan. Þau ríki sem eiga landamæri að Rússlandi telja einu vörnina að hafa bandaríska hermenn eins nálægt þessum landamærum og unnt er. Það sé eina fælingin sem dugi gegn yfirgangi Rússa.fleugar

Bandaríkjamenn horfa til Kína

En öryggishagsmunir Bandaríkjanna breytast eins og við urðum rækilega varir við árið 2006 þegar bandaríski herinn fór frá Íslandi. Utanríkispólitík Donalds Trump dró dám af einangrunarhyggju sem hefur ávallt verið sterkur þáttur í innanlandspólitík Bandaríkjamanna. Þeir horfa nú framan í nýjan andstæðing og hugsanlega þann erfiðasta sem þeir hafa átt við, nefnilega Kínverja sem eru að ná Bandaríkjunum í efnahagslegu tilliti og hafa stundað umtalsverða vígvæðingu undanfarna áratugi. Í þeirra bakgarði í Asíu er nóg af átakaflötum sem geta hleypt öllu í bál og brand.

Fyrir þremur árum velti sagnfræðinginn Odd Arne Westad því fyrir sér í fyrirlestri við LSE háskólann hvort Kínverjar hefðu verið hinir raunverulegu sigurvegarar Kalda stríðsins? Á þetta var bent hér í pistli á þeim tíma. Westad er prófessor við Harvard og sérhæfir sig í samskiptum Bandaríkjanna og Asíu en hann hafði þá nýlega gefið út bókina The Cold War: A World History. Westad hefur komið með nýja sýn á Kalda stríðið sem felur í sér að í stað þess að líta á það sem baráttu tveggja heimsvelda þá verði að líta á það sem miklu víðtækari hugmyndabaráttu sem nái allt aftur til iðnbyltingarinnar. Slík nálgun beinir augum heimsins núna að Kína.