Það ólgaði í mér blóðið

„Ég er með sjóhraustustu mönnum,“ segir skipstjórinn Brynjólfur Oddsson, kallaður …
„Ég er með sjóhraustustu mönnum,“ segir skipstjórinn Brynjólfur Oddsson, kallaður Billó. mbl.is/Ásdís

Líklega eru fáir menn sem hafa stigið ölduna í fimmtíu ár. Brynjólfur Oddsson, alþjóðlegur skipstjóri hjá Samherja, er einn af þeim en hann hóf ferilinn sem strákpjakkur árið 1970. Hann er nýlega hættur sem fastráðinn skipstjóri en segist þó ekki hættur á sjó. Hann sér nú fram á fleiri gæðastundir með fjölskyldunni en barnabörnin eru orðin þrjú og verða fimm innan skamms.

Billó er með djúpa, hrjúfa rödd og talar hratt. Úr andliti hans má lesa einurð og festu skipstjórans sem unnið hefur hörðum höndum alla ævi og aldrei kvartað yfir vinnu. Billó hefur lifað tímana tvenna og rifjar upp lífið á sjó í hálfa öld en ótrúlega margt hefur breyst á þeim tíma, þótt markmiðið sé ávallt hið sama, að koma í land með nóg af fiski.

Hálfdrættingur og skítkokkur

Billó segist alltaf hafa haft gaman að því að vinna og þekkir ekkert annað. Hann er fæddur á Þykkvabæjarklaustri einn desemberdag árið 1955 en bjó lengst af í Kópavogi á uppvaxtarárunum. 

„Ég er alinn upp sem sveitastrákur og ég hélt lengi vel að ég yrði bóndi. Móður minni leist ekki á launin sem ég fékk í sveitinni og sagði þau varla duga fyrir buxnasliti þannig að hún ákvað að senda mig á sjó, en öll móðurættin er sjómenn og skipstjórar,“ segir Billó. 

„Ég fór þannig fjórtán ára á Snæfell EA 740, sem var mikið aflaskip, tréskip sem gerði út frá Akureyri,“ segir Billó.

„Ég stóð þá sex og tólf vaktir. Mér fannst það ofboðslega létt miðað við vinnuálagið í sveitinni,“ segir hann og útskýrir fyrir blaðamanni sem ekki hefur migið í saltan sjó að þá vinna menn í tólf tíma og fá sex tíma hvíld.

„Ég var fyrst hálfdrættingur og svo leysti ég af einn túr sem skítkokkur sumarið á eftir,“ segir hann og útskýrir að aðalkokkurinn hafi farið í siglingafrí.
„Kaupið var gott, sérstaklega miðað við kaupið í sveitinni en þar fékk ég aðallega lömb í laun.“

Var þetta ekki erfitt fyrir óharðnaðan unglinginn?

„Nei, ég hef örugglega fæðst gamall og svo man ég ekki eftir mér öðruvísi en vinnandi,“ segir hann og þvertekur fyrir að hafa grátið í kojunni.

„Mér fannst þetta rosalega gaman. Það ólgaði í mér blóðið.“

Varstu ekkert sjóveikur?

„Jú, rosalega. Alveg rosalega. Allt sumarið og næstu sumur á eftir. Þetta er einhver hræðilegasta veiki sem hægt er að upplifa. Það er ekkert sem linar hana. Maður lærir að lifa með henni hægt og rólega. Ég var sjóveikur meira og minna fyrstu árin. Ég man eftir einum jólatúr þar sem ég ældi galli inni í koju,“ segir Billó sem segir að þrátt fyrir sjóveiki fyrstu árin hafi hann ákveðið að gera sjómennskuna að ævistarfi.

Ertu ekki löngu hættur að vera sjóveikur?

„Jú, ég óx upp úr því á þriðja, fjórða ári. Ég er með sjóhraustustu mönnum.“
Uppdópaðir sjómenn

Sextán ára gamall var Billó orðinn pokamaður á síðutogaranum Jóni Þorlákssyni og var þá þriðji æðsti maður á dekki. 

„Þetta var mikill starfstitill og ég var með tvo aðstoðarmenn, fjórtán og fimmtán ára. Þetta var sérstök vakt því af ellefu manna vakt erum við fimm sem urðum skipstjórar síðar, en þarna vorum við svo ungir að ef það kom slæpa fórum við bara í feluleik og síðasta leik,“ segir hann.

„Á sjónum voru þá bæði svona strákar eins og ég og svo örlagafyllibyttur og heimilisleysingjar. Það var rosaleg dópneysla um borð. Ég man þegar ég fór minn fyrsta jólatúr fimmtán ára, og varð reyndar sextán ára í túrnum, þá tók viku að láta renna af mannskapnum. Þeir voru uppdópaðir og drukknir. Það var ekki um auðugan garð að gresja að fá mannskap. Það var stundum farið í fangelsi, Þórskaffi og Röðul og hreinsað út til að manna skipin. Á þessum tíma var amfetamín um borð í skipum bara eins og sælgæti,“ segir hann.

Billó sést hér á Andvara árið 1977, þá yfirvélstjóri.
Billó sést hér á Andvara árið 1977, þá yfirvélstjóri. Ljósmynd/Aðsend

Fann ástina í Lissabon

„Ég hef fyrst og fremst verið á togveiðum. Ég var fyrst fyrir norðan á Blikanum sem móðurbróðir minn átti. Þeir höfðu trú á mér og kannski þess vegna sem ég varð svona ungur skipstjóri. Svo fór ég til Grænhöfðaeyja á rannsóknarskipinu Feng. Í þeirri ferð kynntist ég konunni minni Söndru Barbosa í Lissabon. Ég hafði þá ekki tekið frí lengi og stoppaði í Lissabon. Ég átti líka að læra portúgölsku sem gekk frekar illa,“ segir hann og brosir.
Hann segir ástina hafa kviknað fljótlega eftir fyrstu kynni.

Ástin bankaði upp á í Portúgal. Kona Billós er Sandra …
Ástin bankaði upp á í Portúgal. Kona Billós er Sandra Barbosa. Ljósmynd/Aðsend

„Við höfðum þekkst í sex mánuði þegar við giftum okkur því ég sá að það gekk ekki að fara með kaþólska stúlku til Íslands án þess að við værum gift. Þannig að planið var að gifta okkur í Lissabon þegar við vorum þar í stoppi á heimleið eftir fyrri túrinn til Grænhöfðaeyja,“ segir Billó og útskýrir að það hafi reyndar verið erfiðleikum bundið að kvænast stúlkunni því til þess þurfti hann að vera með sérstaka fæðingarbók sem rakti ættartréð og væri einnig sakavottorð. Billó segir að slík „bók“ hafi ekki verið til á Íslandi og því hafi þeim verið meinað að ganga í hjónaband í Portúgal. 

„Þetta gekk mjög illa þannig að við snerum þessu á hvolf og héldum brúðkaupsveisluna í Portúgal en giftum okkur um leið og við komum til Íslands.“

Þau hjón eiga tvö uppkomin börn, Odd Jóhann, sem fetaði í fótspor föður síns og er einnig skipstjóri hjá Samherja, og Jöru Fatimu, flugmann hjá Icelandair.
„Við erum öll að stjórna stórum farartækjum.“

Billó og Sandra sjást hér í skírn barnabarnsins Bjarneyjar Veru …
Billó og Sandra sjást hér í skírn barnabarnsins Bjarneyjar Veru sem dóttir þeirra Jara Fatima á með manni sínum Sveini Bjarnari Faaberg, sem sjást hér lengst til hægri. Í miðju standa Andrea Diljá Ólafsdóttir og sonurinn Oddur Jóhann, sem heldur á frænku sinni. Börnin þeirra tvö eru Katrín Salka og Brynjolfur. Bæði pörin eiga von á börnum og stækkar því fjölskyldan brátt enn meir. Ljósmynd/Aðsend
Billó man tímana tvenna eftir hálfa öld á sjó.
Billó man tímana tvenna eftir hálfa öld á sjó. mbl.is/Ásdís

Meira en íslensk bræla

Þrátt fyrir að hafa starfað víða um heim hefur Billó alltaf búið á Íslandi, en þau hjón eiga einnig heimili í Portúgal þar sem þau verja fríum sínum.
Billó vandist fljótt að vera í löngum túrum og þá lengi í burtu frá konu og börnum.
„Í byrjun voru túrarnir oft fjörutíu daga túrar, stundum sextíu.“
Túrarnir hjá Billó áttu enn eftir að lengjast.
„Ég man alltaf eftir því þegar ég var eitt sinn beðinn um að fara yfir á skipið Kiel og hjálpa þeim með veiðarfærin en þeir höfðu verið í verulegum vandræðum með að veiða fisk árið á undan. Skipstjórinn fékk hjartaáfall og var settur í land og ég var beðinn um að hjálpa til. Ég vissi alveg að ég væri að fara þarna yfir til að taka við skipinu, þótt annað væri sagt. Ég var sóttur í annað skip og fluttur um borð í Kiel. Ég man það var logn og fullt tungl og ég hugsaði; mikið ofboðslega er guð góður við mig að leyfa mér að prófa þetta allt saman. Það var svo fyrsti 120 daga túrinn sem ég tók. Þá fór ég að heiman í byrjun janúar og kom heim í maí,“ segir hann en á Kiel réð hann ríkjum frá 2001 til 2014.

Hann segir það venjast vel að vera svo mánuðum skiptir á sjó.
„Þetta er ákveðin áskorun. Það er ýmislegt sem kemur upp á í svona túrum; veikindi, slys og annað, en sem betur fer hefur verið lítið um stærri slys. Ég hef verið gríðarlega lánsamur hvað það varðar; það hefur aldrei neinn dáið um borð hjá mér og mjög lítið um slys.“

Hvað er versta veður sem þú hefur lent í?

„Það er við Austur-Grænland, tvímælalaust. Ég var búinn að vera lengi skipstjóri á íslenskum skipum þegar ég kom þangað og trúði ekki að það gæti verið slík ölduhæð eða þvílíkur ofsi í veðrinu eins og þar. Þar eru sjófjöll. Veðrið getur verið með ólíkindum og mikill straumur. Þá krossar maður fingur og vonar að það komi ekkert fyrir. Ég hef þrívegis lent í svoleiðis veðrum sem maður kærir sig ekki um að sjá aftur. Þetta er miklu meira en venjuleg íslensk bræla.“

Lesa má viðtalið í heild sinni hér á mbl.is í vefútgáfu Morgunblaðsins:

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.3.24 558,73 kr/kg
Þorskur, slægður 18.3.24 503,96 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.3.24 332,79 kr/kg
Ýsa, slægð 18.3.24 217,26 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.3.24 221,12 kr/kg
Ufsi, slægður 18.3.24 222,80 kr/kg
Gullkarfi 18.3.24 234,34 kr/kg
Litli karfi 18.3.24 10,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg
Blálanga, slægð 18.3.24 208,37 kr/kg

Fleiri tegundir »

19.3.24 Finnur EA 245 Þorskfisknet
Þorskur 900 kg
Samtals 900 kg
19.3.24 Dagur ÞH 110 Línutrekt
Þorskur 4.116 kg
Steinbítur 603 kg
Ýsa 172 kg
Samtals 4.891 kg
19.3.24 Málmey SK 1 Botnvarpa
Þorskur 52.634 kg
Steinbítur 12.805 kg
Ýsa 5.541 kg
Þykkvalúra 816 kg
Skarkoli 805 kg
Karfi 490 kg
Grásleppa 447 kg
Langa 310 kg
Hlýri 134 kg
Ufsi 7 kg
Samtals 73.989 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.3.24 558,73 kr/kg
Þorskur, slægður 18.3.24 503,96 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.3.24 332,79 kr/kg
Ýsa, slægð 18.3.24 217,26 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.3.24 221,12 kr/kg
Ufsi, slægður 18.3.24 222,80 kr/kg
Gullkarfi 18.3.24 234,34 kr/kg
Litli karfi 18.3.24 10,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg
Blálanga, slægð 18.3.24 208,37 kr/kg

Fleiri tegundir »

19.3.24 Finnur EA 245 Þorskfisknet
Þorskur 900 kg
Samtals 900 kg
19.3.24 Dagur ÞH 110 Línutrekt
Þorskur 4.116 kg
Steinbítur 603 kg
Ýsa 172 kg
Samtals 4.891 kg
19.3.24 Málmey SK 1 Botnvarpa
Þorskur 52.634 kg
Steinbítur 12.805 kg
Ýsa 5.541 kg
Þykkvalúra 816 kg
Skarkoli 805 kg
Karfi 490 kg
Grásleppa 447 kg
Langa 310 kg
Hlýri 134 kg
Ufsi 7 kg
Samtals 73.989 kg

Skoða allar landanir »