Hugsanalestur á götum borgarinnar

Tesla Model y er lipur en sterklegur á sama tíma.
Tesla Model y er lipur en sterklegur á sama tíma. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bílar eru ávöxtur áratugalangrar samhæfingar tækni, verkfræði, hugvits, listrænnar sköpunar, langana og drauma. Framþróun á þeim markaði er hverfist um bíla, akstur og innviði þar að lútandi hefur ætíð verið samofin allri samfélagsþróun vestrænna ríkja. Flugvélar gerðu okkur kleift að ferðast á milli landa og menningarheima, en bíllinn gerði okkur kleift að upplifa ferðalagið á milli landa og menningarheima.

Bílar hafa lengi verið flaggskip þjóða á alþjóðavettvangi og merki um tækniþróun, hugvit og menningarástand þeirra landa sem þeir koma frá. Fyrir nokkrum áratugum sagði það mikið um þjóðir hvernig bíla þær framleiddu – hverjar voru áherslurnar, hvert er innblástur sóttur?

Tesla er án efa eitt stærsta skrefið í framþróun bílsins og markaðarins í kringum hann á síðustu áratugum. Tesla hefur gjörbylt því hvernig við hugsum um bíla, hvernig við hugsum um hönnun og markaðssetningu bíla, áferðina á þeim og áferðina á orðræðunni í kringum bíla.

Flestir hafa án efa sterkari skoðun á Tesla – bæði framleiðandanum sjálfum, forstjóra og bílunum sjálfum – en þeir hafa á Lexus, Toyota eða Volvo. Tesla hefur tekist að smeygja sér inn í heilabú okkar og breyta hugsunarhættinum. Allt varð öðruvísi eftir að Tesla kom á markað.

Fluggáfaður bíll

Ný Tesla Model Y er fyrsta Teslan sem ég prófa nokkurn tímann. Og ég fagna því að geta sagt að ég hugsa öðruvísi um bíla nú þegar ég hef setið undir stýri á Teslu. Tesla opnaði augu mín og nú sé ég lengra. Ég ætla ekki að eyða of mörgum orðum í að dásama bílinn: þetta er sportjeppi á viðráðanlegu verði – bíllinn er fínn.

Það sem stendur upp úr er upplifunin, fílingurinn, og það sem kom mér á óvart var hvað upplifunin var lífræn. Ég fann mig inni í búri úr gleri og stáli, eins og segir í dægurlagi Pálma Gunnarssonar, og ég gat ekki annað en búist við að þessi hreini rafmagnsbíll yrði ópersónulegur og þurr. Aldeilis ekki.

Mér leið eins og Teslan læsi hugsanir mínar – tilfinningin var eins og þegar maður stendur í ströngu við að útskýra fyrir góðum vini hvernig maður finni til einhverra sterkra tilfinninga, á meðan hann bara kinkar kolli og segir í einlægni að hann skilji mann. Bíllinn skildi mig, vissi hvað ég vildi og framkvæmdi hlutina nánast áður en ég vissi að ég vildi að hann framkvæmdi þá. Fólk sem hefur keyrt Teslu og upplifir ekki þessa sömu hluti og ég leyfir sér er einfaldlega ekki að upplifa nóg!

Öll hönnun og allur frágangur er til fyrirmyndar.
Öll hönnun og allur frágangur er til fyrirmyndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Inngjöfin var allt

Það sem mér fannst markverðast við akstur Model Y var inngjöfin. Inngjöf bílsins leikur lykilhlutverk í akstrinum, meira en í venjulegum bílum, og ég fékk ekki nóg af því þegar ég hafði vanist því. Í raun notaði ég varla bremsu bílsins nema í neyðartilvikum og í stað hennar gerði ég allt með inngjöfinni; allt frá því að keyra Teslu frá 0 km/klst. og upp í 90 km/klst. og þaðan aftur niður í 0 km/klst. til þess að stoppa á ljósum.

Ég stöðvaði bílinn með inngjöfinni og ók af stað með inngjöfinni. Þegar þetta hefur vanist líður manni eins og stjórnin sé meiri, skilvirkari. Það er víst alkunna að bremsur í Teslu eru endingarbetri en í öðrum bílum, ekki af því að þær séu betri, þær eru bara sjaldnar notaðar. Ef ég mætti taka eitthvað úr Teslunni og setja í minn bíl þá væri það inngjöfin.

Rýmið í Model Y er gott og vel fer um …
Rýmið í Model Y er gott og vel fer um alla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þægindi og notagildi

Það sem einnig heillar er allt plássið. Plássið í Tesla Model Y er rétt tæplega tvö þúsund lítrar. Það er farangurshólf að framan, að aftan og svo er meira að segja farangurshólf undir farangurshólfinu að aftan. Þrátt fyrir það er plássið í sætunum mikið. Alls staðar fer vel um mann og væsir ekki um neinn.

Model Y er hægt að fá sem sjö sæta og miðað við plássið aftur í bílnum get ég ekki ímyndað mér að það sé mikið vandamál að ferja heilt NBA-lið og tvo menn til þess að skipta inn á. Mikið pláss og mikil þægindi fara ekki alltaf saman, en gera það í þessum bíl. Sætin eru einstaklega vel hönnuð og stinga ekki í stúf út frá fagurfræðilegum sjónarmiðum.

Það sem stóð sömuleiðis upp úr var skjárinn, sem framleiðandinn er þekktur fyrir. Skjárinn þekur innvols bílsins milli framsætanna tveggja – ipad á hjólum. Það eru eiginlega engir takkar í Teslu, nema tveir látlausir skruntakkar á stýrinu sjálfu og á enda rúðuþurrkurofanna. Það gerir hönnun bílsins einstaklega stílhreina, raunar stílhreinni en í nokkrum öðrum bíl sem ég hef setið í. Það sem það hefur þó einnig í för með sér er að ýmis stillingaratriði eru ekki eins innan handar og í flestum öðrum bílum.

Maður þarf að venjast því hvar hlutina er að finna, en eftir nokkurra daga akstur er maður orðinn þaulvanur þessu tæknivædda viðmóti. Valmöguleikarnir sem boðið er upp á eru svimandi. Í 15“ skjánum má meðal annars stilla loftræstinguna, hlusta á útvarpið, opna leiðsögukerfi, spila tölvuleiki, horfa á Netflix, vafra um á netinu og búa til lagalista á Spotify. Ég get ímyndað mér að með stöðugum uppfærslum á stýrikerfi töluvbúnaðarins megi bæta endalaust af „fídusum“ við.

Farangurshólfin sem finnast um bílinn þveran og endilangan koma á …
Farangurshólfin sem finnast um bílinn þveran og endilangan koma á óvart, sama hversu mikil klisja það nú er. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Miskunnarfullur Musk

Það sem Tesla gerir svo vel er að framleiða bíla sem eru sveipaðir ákveðinni dulúð og áru og verðleggja þá þannig að flesta getur ekki nema dreymt um að eiga nokkurn tíma fyrir þeim. Það sem Tesla gerir svo næst er að gefa út nánast sömu bíla (útlitslega séð) og setja á þá mun viðráðanlegri verðmiða, þannig að enginn getur látið tilboðið fram hjá sér fara. Elon Musk er að leika sér að okkur! Það sem áður var flestum forboðið stendur nú langflestum til boða.

Tesla Model Y er fjölskyldubíll á viðráðanlegu verði, sem lítur nánast alveg eins út og lúxus-sportjeppinn frá sama framleiðanda, sem kostar tvöfalt meira. Það kann að hljóma eins og hr. Musk sé að bjóða okkur pöplinum aðeins nasasjón af því sem alvöru Teslurnar, sem fyrst komu á markað, eru – bara Benidorm-fölsun á „the real thing“.

En það er aldeilis ekki þannig: Tesla Model Y er meira en bara fjölskyldubíll á viðráðanlegu verði. Þessi nýi og hreini rafbíll er sveipaður áru, hann er stöðutákn, sexí og öðruvísi. Bílar eru ekki bara búr úr gleri og stáli, þeir eru hugmyndir, listaverk og undur og við verðum að tala um þá þannig. Model Y er fínn bíll, en hann er líka svo miklu, miklu meira en bara bíll.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: