Sokki troðið í kjaftinn á ofdekruðum ökumanni

Nýr Ford Kuga PHEV kemur skemmtilega á óvart.
Nýr Ford Kuga PHEV kemur skemmtilega á óvart. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um leið og ég settist upp í nýjan Ford Kuga PHEV leið mér eins og ég væri kominn inn í eins konar „ömmubíl“. Það er ekki beint eins og bíllinn gæfi neitt sérstaklega undir fótinn, það var fátt spennandi um að vera einhvern veginn. Leðrið í sætunum var ekki tíglasaumað, viðmótið í snertiskjánum var eins og úr lúxusjeppa frá árinu 2013, innréttingin var ekki fáguð og stílhrein.

Það kann að hljóma eins og ég hafi ekki þolað nýju Kuguna, en það var bara alls ekki svoleiðis. Eftir því sem ég keyrði bílinn lengur vann hann á. Og djöfull sem hann vann á!

Ford, sögufrægur bílaframleiðandi. Það kemur því ekki á óvart að …
Ford, sögufrægur bílaframleiðandi. Það kemur því ekki á óvart að bíll úr þeim ranni sé vel heppnaður, skemmtilegur og notendavænn. Bíll verður að gæludýri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrst um sinn keyrði ég bara um í bænum og ég tók eftir að bíllinn var einstaklega hljóðlátur. Þá keyrði ég um á rafmagninu einu og fann hvað Kuga var fljótur af stað og þýður í akstri. Þegar rafmagnið svo kláraðist á leið minni út úr bænum og austur fyrir heiði, tók ég strax eftir því hvað hann var fljótur að hlaða inn á rafhlöðuna þegar ég bremsaði, sló af eða keyrði niður brekkur. Ég hef keyrt marga tengiltvinnbíla og enginn þeirra hefur verið jafnæstur í að hlaða inn á sig og þessi.

Innrétting bílsins ljómar ekki af glæsileika, en hún er einföld, …
Innrétting bílsins ljómar ekki af glæsileika, en hún er einföld, þægileg og allir takkar eru notendavænir og skilvirkir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar út á þjóðveg 1 var komið gat ég sett í sport-stillingu og gefið bílnum aðeins inn. Öðrum eins sokki hefur ekki verið stungið upp í mig á ævinni. „Ömmubíllinn“ rauk úr 80 km/klst. upp í 130 km/klst. áður en ég gat sagt enn einn Kuga-brandarann. Hann spændi af stað og æddi áfram eins og hann væri að flýta sér heim til Detroit-borgar til þess að færa hana aftur til fyrri dýrðar. Hallelúja! Mér leið eins og ég væri að keyra 280 hestafla lúxusjeppa, án gríns.

Ég þurfti ekki að gera neitt

Svo hef ég ekki fyrr kynnst fullkomnara „cruise-control“ kerfi en í nýju Kugunni. Þetta er það næsta sem ég hef komist því að sitja inni í sjálfkeyrandi bíl. Ég keyrði fram hjá Gullfossi, Geysi, í gegnum Laugarvatn og Þingvelli. Oft og tíðum hefði ég þurft að lækka hraðann niður í 50 km/klst. en bíllinn sá um það alveg fyrir mig og passaði að ég keyrði ekki niður ævintýragjarna og oumph-étandi Þjóðverja með dread-locks (þótt ég hefði gjarnan viljað það). Þar að auki var akreinavarinn virkilega góður og ég þurfti rétt að tylla höndunum á stýrið til þess að litli jepplingurinn gerði rest og fleytti mér á áfangastað.

Hefði ég búist við þessari snerpu og þessu fullkomna „cruise-control“ væri ég ekki svona yfir mig hrifinn, en mér varð bara svo skemmtilega brugðið við öll þessi gæði, að bíllinn allur er baðaður einhverjum dýrðarljóma.

Ekki gallalaus

Hann er þó ekki gallalaus, eins og ég útlistaði sumpart áðan. Gallarnir eru þó fleiri. Í fyrsta lagi er skottið lítið. Raunar kom á óvart hversu lítið það var.

Þar að auki var viðmótið í snertiskjánum ekki alltaf sérstaklega skemmtilegt. Skjárinn var einhvern veginn ekki nægilega hraður, án þess að hann væri þó eitthvað sérstaklega hægur. Maður er orðinn vanur því að snertiskjár hlýði undireins þegar honum eru gefnar skipanir, en skjárinn í Fordinum var hálfsvifaseinn að mér fannst. Þó tek ég fram að snertiskjárinn var einfaldur í notkun og allir valmöguleikar auðskiljanlegir.

Svo er útlit bílsins ekki beint framúrskarandi. Hann er ekki ljótur, alls ekki, en heldur ekki neitt sérstaklega sexý. Það er kannski í takti við uppruna bílsins. Elegans hefur aldrei einkennt það sem framleitt er í Bandaríkjunum, a.m.k. ekki í samanburði við það sem er franskt eða ítalskt.

Snertiskjárinn var ekkert til að hrópa húrra fyrir. Viðmótið var …
Snertiskjárinn var ekkert til að hrópa húrra fyrir. Viðmótið var ekkert sérstaklega framúrstefnulegt og svartíminn hels til of hægur. Allt virkaði þó eins og skyldi, sem er vel. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sanngjarnt verð

Á sama tíma og ég er meðvitaður um þá galla sem nýr Ford Kuga PHEV er búinn veit ég að þeir skipta ósköp litlu máli þegar upp er staðið. Verð bílsins er á bilinu 5-6 milljónir króna og því verður að taka tillit til þess þegar bíllinn er metinn. Annað er ósanngjart.

Og þegar maður tekur mið af þessu ágæta verði stenst þessi nýi tengiltvinnbíll alveg samanburð. Hann er lipur í akstri, þægilegur, sparneytinn, heiðarlegur. Hann gerir það sem honum er ætlað að gera og oft gott betur en það. Hann svíkur þig ekki.

Þeir sem eru í leit að áreiðanlegum, heiðarlegum, þægilegum, sparneytnum og skemmtilegum tengiltvinnbíl þurfa ekki að leita lengra.

Ford Kuga PHEV kemur skemmtilega á óvart.

Það er auðvelt að finna bíla með meira farangursrými en …
Það er auðvelt að finna bíla með meira farangursrými en í nýjum Ford Kuga. Þá þyrfti maður hins vegar að punga út nokkrum hundrað þúsund köllum í viðbóta, enda er ný Kuga á sanngjörnu verði. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: