5 uppeldisráð Einars Bárðarsonar

Einar Bárðar og sonur hans Einar Birgir Einarsson sonur í ...
Einar Bárðar og sonur hans Einar Birgir Einarsson sonur í körfubolta á ljúfu vorkvöldi í Hafnarfirði.

„Ég vil nú taka það fram í upphafi að ég er enginn uppeldissérfræðingur og mér líður jafn kjánalega að skrifa þessi ráð og ef einhver myndi vilja fá mig sem einkaþjálfara með það að leiðarljósi að léttast um 50 kíló! En ég skal reyna að miðla því litla sem ég hef reynt að leggja mig eftir í föðurhlutverkinu,“ segir Einar Bárðarson, stundum þekktur sem umboðsmaður Íslands og núverandi samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar.

„Við erum öll að takast á við að ala börnin okkar upp í einhverjum raunveruleika sem við ólumst sjálf ekki upp í. Hætturnar eru ekki þær sömu og foreldrar okkar voru að takast á við. Mamma og pabbi voru kannski helst að passa að það væri eitthvað til í ísskápnum og helsta „mannréttindabarátta“ manns sem krakka var VHS-tæki og Sodastream. Til að forðast einelti var látið undan kröfum um kaup á Millet-úlpu svo maður yrði ekki hafður að athlægi eða hreinlega bara laminn! Reykingar og áfengisneysla voru það sem foreldrar og forráðamenn predikuðu gegn og sem barn eða unglingur átti ég aldrei hjálm. Börnin mín eiga hjólahjálm, skíðahjálm, brettahjálm og fengju sjálfsagt hestahjálm ef þeim dytti í hug að fara út í hestamennsku. Þannig að muna eftir mikilvægi næringar, skjátíma, lærdóms, fordóma, eineltis, hegðunar á samfélagsmiðlum, hreyfingar og hvíldar getur verið ansi yfirþyrmandi stundum samhliða heimilisrekstri og fullri vinnu beggja foreldra sem eiga stundum bara þá einu og veiku von að komast í gegnum eina bíómynd í mánuði saman! Það sem ég hef fram að færa verður líklega skotið í kaf af fimm mismunandi eftirlitsstofnunum og 18 mismunandi sérfræðingum á innan við sólarhring, en það verður bara að hafa það!“ segir Einar og skellihlær.

1. Ég gef frelsi til athafna og gjörða og hvet krakkana til að prófa en reyni að opna skilning á því að því frelsi fylgir ábyrgð. Ef þau koma seint heim miðað við gefinn tíma þýðir það ákveðin viðurlög og þannig vonast ég til þess að börnin læri að umgangast reglur í því samhengi að frelsi fylgi ábyrgð. Þetta snýst ekki bara um hvenær krakkarnir koma heim í kvöld heldur vona ég að þessi gildi fylgi þeim áfram.

2. Þegar kemur að tónlist þá er það mitt viðhorf að ég banna krökkunum ekki að hlusta á neitt. En ég fer hinsvegar yfir það í þaula með bæði syni mínum og dóttur að stundum eru þau að hlusta á kvenfyrirlitningu, hatur í ýmiskonar mynd svo ekki sé minnst á subbulegt orðaval. Kvenfyrirlitninguna hef ég tekið nokkuð vel fyrir því við erum að ganga í gegnum massa rapptímabil. Ég útskýri það að Notorious BIG sé ferlega flottur rappari og flest lögin frábær en hann kalli konurnar í lífi sínu mellur og hann tali um það sem svalt stöðutákn að vera melludólgur. Eftir að ég hef útskýrt þessa hluti reyni ég að kenna þeim hvað þau eru að hlusta á og hvað þýðingu þetta hefur allt saman. Þetta geri ég einfaldlega vegna þess að aðgengi krakkanna að allri músík og öllu efni er svo stórkostlegt að foreldri sem ætlar að fara að reyna að ritskoða hlustun barnanna sinna kemur engu öðru í verk og missir fljótlega vitið. Og kosturinn við aðgengið er líka að krakkarnir „festast“ ekki í stíl eða tímabili heldur rúlla eins og engisprettur í gegnum heilu áratugina og listamennina og geta valið sér allt það besta til að elska til lengri tíma. Dóttir mín er búin með Bítlana, Led Zeppelin, Doors. Allt rapp 90‘s tímabilsins „east coast og west coast“ og kann þetta allt utan að og af því er ég stoltur. Nú er hún í Nirvana og Guns‘ and Roses. Hvernig get ég bannað henni að hlusta á það sem ég fíla sjálfur, það væri fullkomin hræsni.

3. Í daglega lífinu getur maður ekkert að því gert þó að maður verði stundum pirraður og hvessi sig; ég er bara mannlegur. Sér í lagi þegar maður er að koma flotanum fram úr á morgnana og í skólann. Ég reyni hinsvegar að mæta þeim breyskleika með því að sýna börnunum mínum það alla daga að ég elska þau bæði í orði og á borði. En ég elska það hinsvegar ekki hvað þau eru lengi að koma sér á fætur.

4. Ég segi börnunum mínum að ég verði ekki reiður sama hvað þau hafi gert rangt svo lengi sem þau segi satt. Þó eitthvað brotni, bili eða týnist þá er það aukaatriði. Ég verð kannski óhress, en aldrei reiður ef mér er bara sagt satt um málið. Ég hampa sannleikanum.

5. Ég er að reyna að innleiða grænu gildin bæði hjá sjálfum mér og þeim í leiðinni. Einnig umburðarlyndi og virðingu fyrir skoðunum annarra. Þessi atriði skipta mig máli og ég vil að börnin sjái pabba sinn vera samkvæman sjálfum sér og læri þau þannig.