Fer að gráta þegar hann á að hlýða

Í kærleiksríku umhverfi mega börnin sýna hvernig þeim líður. Það ...
Í kærleiksríku umhverfi mega börnin sýna hvernig þeim líður. Það eru skýr mörk og reglur að fara eftir. En alls konar hlutir geta komið upp á yfirborðið í lífi barnanna okkar. Öruggt skjól heima fyrir er gott veganesti. Ljósmynd/Thinkstockphotos

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér spyr maður sem á þrjú börn hvað hann eigi að gera þar sem hann tekur eftir breytingum hjá miðjubarninu sínu. Það byrjar að gráta þegar það á að hlýða og bregst illa við þegar foreldrar hans bjóða honum faðminn.      

Sæl

Mig vantar ráðgjöf varðandi miðjustrákinn minn. Þeir eru þrír bræðurnir og ég hef tekið eftir breytingum í hegðun og atferli hjá honum. Hann fer gjarnan í grátinn þegar við erum að reyna að fá hann til að hlýða og hann bregst illa við þegar við komum til hans og bjóðum honum faðminn. Það hefur reynst best að leyfa honum að vera í friði og ganga í gegnum tilfinningaskalann. Við mæðginin eigum okkar tíma saman reglulega og stundum þá dettur hann í þessa hegðun þegar búið er að vera mjög gaman hjá okkur.

Veit hreinlega ekki hvað skal gera.

Bestu kveðjur

El­ín­rós Lín­dal er NLP-ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi með grunn­próf í sál­fræði ...
El­ín­rós Lín­dal er NLP-ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi með grunn­próf í sál­fræði og fjöl­miðla­fræði. MBA frá Há­skól­an­um í Reykja­vík. Hún sér­hæf­ir sig í meðvirkni og fíkni­sjúk­dóm­um. mbl.is/Eggert

Sæl og takk fyrir bréfið. 

Börnin eru okkar stærstu gjafir og þú ert greinilega að fá fallegt verkefni með miðjudrengnum þínum. Það geta fjölmargar ástæður legið á bak við breytta hegðun barnsins. Ég myndi finna mér góðan sálfræðing og hitta hann í nokkur skipti til að ræða breytingarnar. Eins getur góður ráðgjafi hjálpað þér að skilja samspil umhverfis og uppeldis á börnin okkar. 

Ég get mælt með dr. Gunnari Hrafni Birgissyni sem er mikill fagmaður þegar kemur að börnum. Þú getur skoðað meira um hann hér. Eins finnst mér Kjartan Pálmason hjá Lausninni mjög góður þegar kemur að uppeldisaðferðum eftir módeli Pia Mellody. Þú getur fundið hann hér.

Fyrstu átta árin í lífi barnanna okkar skipta miklu máli þegar kemur að geðtengslum. Við sem eigum nokkur börn getum sammælst um hversu ólík þau eru. Mér sýnist sem svo að barnið þitt þurfi stuðning. Eitt form af þeim stuðning er að þú haldir áfram að tengja við það eins vel og þú getur. Eruð þið foreldrarnir í góðri þjálfun með að tala um tilfinningar? Börnin læra það sem fyrir þeim er haft. Verkefni barnanna okkar eru fjölmörg á hverjum degi. Það að setjast með þeim niður eftir daginn og heyra hvernig þau höfðu það. Láta þau finna að þau eiga skjól í mömmu og pabba og ekkert sé þannig að það sé ekki hægt að finna lausn á því ef fjölskyldan stendur saman er gjöf sem barnið mun búa að alla sína ævi. 

Eitt af því sem ég vinn mikið með hjá fullorðnu fólki í dag er að aðstoða þá við að tengja í tilfinningar þar sem það var bannað að t.d. gráta á heimilinu í æsku. Ef barnið þitt þarf að gráta, leyfðu því að gráta. Ef þú hefur grátið sjálf finnur þú hvað tilfinningarnar styrkjast og það færist einskonar kyrrð yfir sál og líkamana. Það er ekkert að óttast, tárin hætta að koma þegar sársaukinn er farinn.

Í kærleiksríku afslöppuðu umhverfi mega allir hlutir koma upp á yfirborðið. Sorg, gleði, sársauki og hamingja. Allt er eru þetta tilfinningar sem okkur er gefið til að takast á við lífið.

Gangi þér vel.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós póst HÉR

mbl.is