„Ef þú bara vissir“

Ljósmynd/skjáskot

Hin bandaríska Kelly Dirkes á ættleidda stúlku með þroskahömlun en hún skrifaði opið bréf til konu sem hélt yfir henni ræðu í verslun vegna þess að hún hélt á dóttur sinni Grace í burðaról í verslunarferð frekar en að láta hana sitja í kerru. Hún vildi meina að Dirkes væri að ofdekra barnið og að Grace yrði aldrei sjálfstæður einstaklingur með þess konar uppeldi.

Dirkes birti því færslu á Facebook til konunnar sem í lausri þýðingu hljómar svo: 


„Kæra kona í Target (nafn verslunar)

Ég hef svo sem heyrt það áður, að ég sé að ofdekra barnið. Þú varst sannfærð um að hún myndi aldrei læra að verða sjálfstæð. Ég bara brosti og kyssti hana á höfuðið og hélt áfram að versla.

Ef bara þú vissir það sem ég veit.

Ljósmynd/skjáskot


Ef þú bara vissir að fyrstu tíu mánuðum lífs síns eyddi hún í dauðhreinsuðu stálbarnarúmi og það var ekkert í kringum hana sem gat huggað hana nema fingurinn sem hún saug af ákafa.

Ef þú bara vissir hvernig andlit hennar lýsti æðruleysi í bland við skelfingu þegar ég fékk hana í fangið í fyrsta sinn. Enginn hafði áður haldið á henni með þessum hætti áður og hún hafði enga hugmynd hvernig hún ætti að bregðast við.

Ef þú bara vissir að hún var vön að liggja í stálrúminu sínu eftir að hún vaknaði án þess að gráta, vegna þess að hún hafði lært að enginn brást við grátinum. Hann hafði enga þýðingu.

Ef þú bara vissir að kvíði var hversdaglegur hluti allra daga hjá henni, ásamt því að skalla höfðinu í rúmið og rugga sjálfri sér fram og til baka til að fá örlitla ró í litla kroppinn – og hvernig við höfum eytt mínútum, klukkustundum, dögum, vikum, mánuðum og árum til að forrita yfir þann hluta heilans hennar sem öskrar „áfall“ og „ekki öruggt“.

Ef bara þú vissir það sem ég veit.

Ef þú bara vissir að barnið kjökrar núna þegar við leggjum hana frá okkur en ekki þegar við tökum hana upp.

Ef þú bara vissir að hún syngur glaðvær á morgnana eftir nætursvefninn því hún veit að nú þýða hljóðin frá henni að einhver kemur til að sækja hana og skipta á henni.

Ljósmynd/skjáskot


Ef þú bara vissir að barninu er núna ruggað í svefn í fangi foreldra sinna í stað þess að hún sinni því ein.

Ef þú bara vissir að allir í kringum hana komust við daginn sem hún bað ótilkvödd um ástúð og faðmlag.

Ef bara þú vissir það sem ég veit.

Að „ofdekra“ þetta barn ef mikilvægasta hlutverkið sem ég hef fengið í hendurnar og um leið alger forréttindi. Ég mun bera hana svolítið lengur, eða eins lengi og hún leyfir mér það af því að hún er að læra að hún sé örugg. Að hún tilheyri hópi og að hún sé elskuð.

Ef bara þú vissir.“

mbl.is