Skóli biður foreldra um leyfi fyrir rassskellingum

Grunnskóli í Georgíufylki í Bandaríkjunum, The Georgia School for Innovation …
Grunnskóli í Georgíufylki í Bandaríkjunum, The Georgia School for Innovation and the Classics, hefur beðið foreldra að gefa skriflegt leyfi fyrir rassskellingum í agaskyni. Ljósmynd/skjáskot

Skóli í Georgíuríki í Bandaríkjunum hefur sent bréf til foreldra og óskað eftir leyfi til að fá að rassskella börnin þegar þarf að aga þau. Fyrirbærið heitir „paddling“ á ensku en þá er notaður sérstakur tréspaði við verknaðinn, ekki hönd eins og við hefðbundnar flengingar (spanking).

Skólinn, sem heitir The Georgia School for Innovation and the Classics, er staðsettur í Hephzibah um 30 km sunnan við borgina Augusta í Georgíufylki. Börnin í skólanum eru á aldrinum fimm til 15 ára. Skólastjóri skólans sendi foreldrunum bréfið nýlega með ósk um að fá leyfi til að beita þessari refsingu þegar um þriðja agabrot barns er að ræða. Þar kom fram að þeim börnum sem hafa ekki skriflegt leyfi frá foreldrum verði vikið úr skóla í allt að fimm daga í staðinn.

Eitt verkfæri af mörgum í verkfærakistu agans

Georgíuríki er eitt 20 ríkja í Bandaríkjunum þar sem líkamlegar refsingar eru leyfðar í skólum. „Við tökum agabrot mjög alvarlega í þessum skóla,“ sagði Jody Boulineau, aðstoðarskólastjóri skólans, við fjölmiðla í gær. Hann sagði ennfremur að refsingu af þessu tagi væri ætlað að vera fyrirbyggjandi og yrði ekki notuð oft. „Það er ekki svo langt síðan að líkamlegar refsingar þóttu sjálfsagðar í skólum og þá sátum við ekki uppi með þau agavandamál sem við glímum við í dag. Þetta er bara eitt verkfæri af mörgum í aga-verkfærakistu skólans,“ sagði Boulineau.

Skilgreining líkamlegrar refsingar skólabarna er ólík eftir ríkjum í Bandaríkjunum en almennt er hún skilgreind sem notkun hóflegs líkamlegs styrks til að halda uppi reglum og aga meðal nemenda. Í sumum ríkjum er það ásættanlegt að börnin sitji uppi með mar af völdum refsinga innan skólans.

Í bréfinu kemur fram að nemendur verði teknir inn í lokað rými og látnir setja hendur á hné eða tiltækt húsgagn og verði slegið á rasskinnarnar með viðarspaða. Barnið verður þó aldrei slegið oftar en þrisvar sinnum. Foreldrarnir voru beðnir um að skila bréfinu undirrituðu til baka og merkja við hvort þeir væru samþykkir eða ekki. Í gær höfðu um 100 foreldrar skilað bréfinu en aðeins þriðjungur hafði samþykkt stefnu skólans um rassskellingar við agabrotum nemenda.

Líkamlegar refsingar leyfðar í 20 ríkjum í Bandaríkjunum

Þessi aðgerð skólans hefur vakið töluverða umræðu á samfélagsmiðlum enda þykja rassskellingar gamaldags uppeldis- og agaaðferð, auk þess sem hún þykir óhugsandi víða.

Tuttugu ríki í Bandaríkjunum leyfa líkamlegar refsingar í skólum af einhverju tagi, þar með talið Mississippi, Texas, Alabama, Arkansas, Georgía, Oklahoma og  Louisiana  en reglur innan ríkjanna eru ólíkar með tilliti til hvernig spaði er notaður, hversu fast  má slá nemendur og hvort áverkar megi koma fram á barninu. Líkamlegar refsingar eru bannaðar í 31 ríki en Nýja Mexíkó var síðasta ríkið til að bannað slíkar refsingar árið 2011. Einu tölurnar sem eru til um rassskellinga í bandarískum skólum eru frá 2009-2010 en þá er talið að yfir 200.000 nemendur hafi verið rassskelltir þann veturinn samkvæmt www.vox.com.

Heimild: BBC og Action News

mbl.is
Ragnhildur Birna Hauksdóttir

Ragnhildur Birna Hauksdóttir sérfræðingur í fjölskyldumeðferð svarar spurningum lesenda um sálfræðileg og félagsleg efni sem tengjast ýmsum vandamálum innan fjölskyldu

Ragnhildur Birna Hauksdóttir

Ragnhildur Birna Hauksdóttir sérfræðingur í fjölskyldumeðferð svarar spurningum lesenda um sálfræðileg og félagsleg efni sem tengjast ýmsum vandamálum innan fjölskyldu