Hvernig fáum við fleiri til að kenna?

Til að auka áhuga almennings á því að kenna í …
Til að auka áhuga almennings á því að kenna í skólum þarf að tala upp kennarastarfið og borga samkeppnishæf laun að mati aðila í KÍ. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Í Pallborði Skólavörðunnar, tímarits Kennarasambands Íslands, tjá formenn aðildarfélaga Kennarasambands Íslands sig um m.a. menntastefnu landsins og kennaraskort.

Guðríður Arnardóttir, formaður félags framhaldsskólakennara, segir menntastefnu landsins góða en mikilvægt sé að tala starfið upp og að laun kennara séu samkeppnishæf.

Haraldur F. Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, bendir á að laun þurfi að vera samkeppnishæf, að auka þurfi rými fyrir börn og fækka börnum á hvern starfsmann. 

Sigrún Grendal, formaður Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum, bendir á að tónlistarskólinn verði að vera hluti af heildstæðri menntastefnu þar sem horft er til lista og menningar sem einnar grunnstoðar sjálfbærrar þróunar. Einnig þurfa laun að standast samanburð við laun annarra sérfræðinga og stjórnenda á vinnumarkaði. 

Sigurður Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda leikskóla, er ánægður með menntastefnuna en segir að tryggja verði faglega og árangursríka innleiðingu á menntastefnu ráðherra. Hann bendir á að mikilvægt sé að hækka laun kennara og skólastjórnenda og gera kjör þessa hóps samkeppnishæf við sérfræðinga með sambærilega háskólamenntun. 

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara, telur að menntastefna eigi að stuðla að víðsýni og umburðalyndi. Að menntun sé fyrir alla. Hún telur viðurkenningu á mikilvægi starfsins mikilvæga til að fjölga fagfólki innan stéttarinnar, eins verði launakjör kennara og skólastjórnenda að vera í samræmi við ábyrgð. 

Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands, er jákvæður gagnvart mótun nýrrar menntastefnu og trúir því að ráðherra muni vinna í samvinnu við skólasamfélagið að mótun hennar. Hann bendir á að til að fjölga fagfólki í greininni þurfi laun í skólasamfélaginu að vera samkeppnishæf við sambærilegar stéttir og það kalli á viðhorfsbreytingar stjórnvalda til þeirra sem í skólunum starfa.

Í menntastefnu Íslands til ársins 2030 er talað um menntun fyrir alla sama á hvaða menntastigi einstaklingar eru. Menntastefnan mun ávarpa og setja í forgang þær áskoranir sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir í mennta- og velferðarmálum og hafa heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun til hliðsjónar. 

Ísland ásamt öllum löndum heims er statt í miðri fjórðu iðnbyltingu, sem byggir m.a. á menningu, listum og örum tæknibreytingum. Það verður áhugavert að fylgjast með þróun mála innan skólakerfisins á næstu misserum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert