Foreldrar mínir elska mig ekki!

Kona skrifar Polly þar sem hún veit ekki hvað hún …
Kona skrifar Polly þar sem hún veit ekki hvað hún á að gera. Sama hvað hún gerir virðist hún aldrei nógu góð fyrir foreldrana. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Ask Polly er vinsæll dálkur hjá The Cut á vegum New York Magazine. Þar geta lesendur blaðsins skrifað ráðgjafa og fengið greinargóð svör sem eru að mati margra laus við alla meðvirkni. 

Á dögunum skrifaði lesandi til Polly þar sem hann biður um ráð. Textinn er styttur frá upprunalegu útgáfunni.

„Ég þarf ráð frá þér þar sem enginn í mínu lífi getur tengt við það sem ég er að fara í gegnum, ekki einu sinni bróðir minn. Ég hef verið að kljást við þetta frá því ég var barn og nú fer að koma að tímamótum í lífi mínu, þar sem þessi upplifun mun hafa áhrif á mig. Vandamálið er að foreldrar mínir elska mig ekki. Það er erfitt að útskýra sársaukann sem fylgir þessu, en það er stórt tóm inni í mér vegna þessa og mér finnst eins og ég sé einskis virði og eigi ekki ást skilið. Þetta er sérstaklega sársaukafullt af því að þau koma öðruvísi fram við bróður minn.

Þegar ég ræði þetta við fólk fer það undan í flæmingi og segir að ég sé að misskilja hlutina. Að þau kunni ekki að sýna ást. En ég veit fyrir víst að ég er ekki einu sinni á topp 10 listanum hjá foreldrum mínum. 

Ég er búin að reyna allt sem ég get til að vinna ást þeirra. Mamma er óörugg manneskja, og pabbi gerir allt sem hann getur til að styðja við hana. Ég veit að margir hafa það verra en ég en ég átti erfiða æsku út af því hvernig þau komu fram við mig. 

Þegar ég var að alast upp snerist allt um einkunnirnar mínar. Ef ég fékk A- í einkunn var ég spurð af hverju ég hefði ekki fengið A og síðan báru þau einkunnir mínar saman við einkunnir bróður míns. Ég var 11 ára farin að vinna sjálfboðavinnu og var komin í launaða vinnu með skóla 14 ára. Ég hef alltaf verið með góðar einkunnir. Ég stóð mig vel í íþróttum og var mjög virk og er enn þá. 

Ef ég leyfði mér að setjast á sófann og horfa á sjónvarpið þá fékk ég að heyra að það væri leti og ég væri alltaf að horfa á sjónvarpið.

Ég fékk engan stuðning með nám mitt í háskóla og vann fulla vinnu með námi. Ég þurfti að flytja að heiman á sama tíma og bróðir minn fékk stuðning frá foreldrum mínum. Þau hafa aldrei gert sömu kröfur til hans.

Ég fékk starf hjá þekktri stofnun, var valin í stjórn fyrir landssamtök og fleira í þeim dúrnum. Þetta gerðist allt áður en ég varð 28 ára. Á þessum tíma töluðum við foreldrar mínir lítið sem ekkert saman, fyrir utan einstaka textaskilaboð á afmælum og jólum. Þegar ég fékk betri vinnu vildi ég láta foreldra mína vita. Þá varð mamma brjáluð út í mig, ég átti greinilega ekki að færa mig um set í vinnu. Ég ræddi við pabba um þetta, sem var ánægður fyrir mína hönd, en um leið og ég sagði honum frá vonbrigðum mínum tengdum viðbrögðum mömmu endaði hann samtalið við mig. 

Nú kvíði ég fyrir því að ég er að klára meistaranám mitt á sviði vísinda. Ég er að útskrifast með hæstu einkunn frá þekktum háskóla. Ég myndi óska þess að foreldrar mínir gætu verið viðstaddir, en ég hef boðið þeim tvisvar og þau virðast ekki hafa áhuga á að mæta. Eins erum við unnusti minn að undirbúa það að gifta okkur og ég kvíði því einnig. Ég er viss um að þau hafa lítinn sem engan áhuga á því heldur. 

Ég veit að ég er ótrúlega þrjósk með þetta, ég bara skil ekki hvað ég er að gera rangt. Þeim mun meira sem ég reyni að tengjast þeim, þeim mun meira særa þau mig. Hvað ætti ég að gera?

Kær kveðja, ein sem skortir ást.

Sæl, 

Þegar maður upplifir sársauka vegna foreldra manns, getur verið ótrúlega erfitt að útskýra slíkt fyrir öðrum. Fólk á erfitt með að meðtaka vonbrigði, ef maður getur ekki bent á það að hafa verið hlekkjaður við klósettið á jarðhæðinni þangað til maður varð 10 ára. 

Ef foreldrar þínir eru raunverulega að gera sitt besta, þá er þeirra besta fáránlegt. Þau eru að sýna hegðun sem minnir á forðun. Þau hafna þegar þau geta ekki stjórnað eða skilið aðra. 

Ég vil að þú vitir að ég skil hvaðan þú kemur og trúi þér. 

Kannski elska foreldrar þínir þig, kannski ekki. Það skiptir ekki öllu, því þau eru að koma illa fram við þig.

Ég myndi telja að mamma þín væri með í það minnsta eina persónuleikaröskun. Hún vill að þú standir þig, svo þegar þú gerir það, þá má það ekki vera of mikið. 

Þú virðist koma af stað óöryggi innra með henni, af hverju veit ég ekki. Eins og þú lýsir henni þá hljómar hún eins og narsasisti eða jaðarpersónuleiki. 

Þú ert með tengslaröskun tengda henni, en það er ekki þér að kenna. 

Þú skiptir máli. Þú átt ekki skilið að vera særð aftur og aftur. Svo nú þarftu að passa upp á þig. 

Mamma þín er ekki í lagi, en það er ekki þitt hlutverk að laga hana. Hún er eins og heit hella. Þú verður að hætta að setja höndina yfir helluna og brenna þig. Þú getur ekki breytt henni, en þú getur hætt að brenna þig á henni. 

Ég trúi að þú viljir halda í sambandið við foreldra þína. Þú getur gert það ef þú passar mörkin þín. 

Þú passar þig á að brenna þig ekki með því að hætta að leita eftir viðurkenningu frá þeim. Þú hættir að biðja um meiri ást frá þeim. Þú hættir að bíða eftir því að mamma þín verði hin fullkomna mamma. Þú verður að láta af þessari þráhyggju.

Nú þarftu að finna þér góðan ráðgjafa og sætta þig við að mamma þín mun ekki breytast. Þú þarft að læra að umgangast hana af virðingu en úr fjarlægð. Þú getur boðið þeim í brúðkaupið, í útskriftina og undirbúið þig fyrir hið versta. En sagt þeim hvað þú vilt án þess að reyna að stjórna þeim. 

Þú verður að læra að fá ást frá þér og treysta eigin innsæi. Þá upplifir þú frelsi frá þessu mynstri sem þú ert í. Þú átt gott líf í dag og það ætti að vera þinn fókus. Þú komst þér á þann stað sem þú ert á í dag. Berðu virðingu fyrir þér. Þú getur elskað þau, það er í lagi að elska fólk sem er svona, úr fjarlægð. 

Nú ertu frjáls, ekki gleyma að fagna.

Polly

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert