Var ekki tilbúin til að verða mamma

Alyssa Milano var ekki tilbúin til að verða mamma þegar …
Alyssa Milano var ekki tilbúin til að verða mamma þegar hún var 21 árs. AFP

Leikkonan Alyssa Milano segir að hún hafi ekki verið tilbúin til að verða mamma þegar hún var 21 árs gömul. Því hafi hún farið tvisvar sinnum í þungunarrof á skömmum tíma á tíunda áratug síðustu aldar.

Í dag er hún gift umboðsmanninum David Bugliari, en þau giftu sig árið 2009. Þau eiga son fæddan 2011 og dóttur fædda 2014.

„Ég vissi það þá, að ég var ekki tilbúin til að verða móðir, svo ég valdi að fara í þungunarrof. Ég valdi það. Það var mitt val. Og það var algerlega rétt ákvörðun fyrir mig. Þetta var ekki auðvelt. Þetta var ekki eitthvað sem ég vildi, en þetta var eitthvað sem ég þurfti, líkt og flest önnur heilbrigðisþjónusta,“ sagði Milano í nýjasta hlaðvarpsþætti sínum.

Í þættinum segir hún að hún hafi verið í sambandi með manni og að hún hafi verið á getnaðarvarnarpillunni á þeim tíma. Hún hafi hins vegar alls ekki verið tilbúin til þess að verða mamma og því hafi þetta verið rétt ákvörðun. Hún var einnig á lyfinu Accutane til að vinna gegn bólóttri húð, en lyfið getur valdið fæðingargöllum sé það tekið á meðgöngu.

Ákvörðunin stríddi þó gegn kristilegu uppeldi Milano. „Það var skelfilegt. Ég var alin upp í kaþólskri trú og þurfti að taka ákvörðun sem stríddi gegn trú minni. Ég áttaði mig þó á því að trúin mín gaf aðeins karlmönnum leyfi til að taka ákvarðanir um hvað mátti og hvað mátti ekki,“ sagði Milano.

Hún hélt áfram að njóta kynlífs með maka sínum eftir þungunarrofið. „Ég neita því að leyfa kjaftæðis-siðferði annarra að neyða mig í kynlífslaust líf þar til ég gifti mig. Ég neita að lifa í heimi þar sem kynlíf er aðeins fyrir karla og konur séu til þess að veita þeim það. Líkaminn minn veitir mér unað,“ sagði Milano.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert