Erfiðast að vita ekki hvað var að

Ljósmynd/Ingimar Þór Friðriksson

Matarbloggarinn Hildur Rut Ingimarsdóttir eignaðist sitt annað barn, Eddu Vilhelmínu, í fyrra með unnusta sínum Birni Inga. Áður átti Hildur soninn Unnar Aðalstein sjö ára. Hildur segir fæðingu Eddu hafa gengið vel en Hildur kveið fyrir henni vegna erfiðleika sem komu upp í fæðingunni nokkrum árum áður. Hildur á að vísu nokkur aukabörn en hún opnaði nýja heimasíðu, Hildurrut.is, í október og kemur að nýrri bók matarbloggara. 

„Það er margt sem ég vil tileinka mér sem móðir. Ég vil alltaf vera til staðar fyrir börnin mín, veita þeim öryggi, ást og tíma, vera þeim góð fyrirmynd og hvetja þau áfram,“ sagði Hildur Rut þegar hún er spurð hvernig móðir hún vill vera. 

Hvað legg­ur þú áherslu á í upp­eld­inu?

„Mér finnst mjög mikilvægt að gefa mér tíma með börnunum mínum og hlusta á þau. Veita þeim ást og umhyggju.“

Hvernig breytt­ist lífið eft­ir að þú varðst mamma?

„Lífið gjörbreyttist eftir að ég varð mamma. Allt í einu var kominn lítill einstaklingur í líf mitt sem ég elska meira en ég hefði getað ímyndað mér. Hjartað stækkar um mörg númer en auðvitað fylgja líka áhyggjurnar með. Það er mikil ábyrgð að ala upp barn.“

Hildur Rut í eldhúsinu ásamt dóttur sinni og syni.
Hildur Rut í eldhúsinu ásamt dóttur sinni og syni. Ljósmynd/Ingimar Þór Friðriksson

Hvað kom þér á óvart varðandi móður­hlut­verkið?

„Það kom mér á óvart hvað móðureðlið er sterkt og hvað ég varð fljótt örugg í hlutverkinu.“ 

Hvernig gengu meðgöngurnar? 

„Ég átti tvær frekar erfiðar meðgöngur en þó svo ólíkar. Á fyrri meðgöngunni var ég með of háan blóðþrýsting allan tímann og endaði með að fá meðgöngueitrun sem leiddi til þess að ég var sett af stað í fæðingu. Á þeirri seinni fékk ég meðgöngusykursýki á 30. viku sem kom mér og öðrum mjög á óvart þar sem ég var alls ekki í neinum áhættuhópi að fá slíkt. En sem betur fer gat ég haldið blóðsykrinum lágum með því að borða rétt og allt fór vel. Einnig var ég fremur illa haldin af ógleði fyrri hlutann af báðum meðgöngum.“

Hvernig eru þínar fæðingarsögur?

„Ég átti tvær mjög ólíkar fæðingar. Fyrri fæðingin mín gekk mjög illa. Ég var sett af stað og hríðarnar byrjuðu harkalega sem er ekki góð upplifun. Ég fékk mænudeyfingu fljótlega eftir að hríðirnar byrjuðu sem hjálpuðu mér töluvert. Strákurinn minn kom svo í heiminn með hjálp sogklukku og fór strax á vökudeildina. Fylgjan festist og ég beið í klukkustund eftir að fæðingarlæknir kæmi til þess að hjálpa. Barnsfaðir minn fór með drengnum okkar á vökudeildina og varð ég því ein eftir og varla búin að sjá son minn. En erfiðast fannst mér að vita ekkert hvað væri að stráknum mínum og var vægast sagt mjög áhyggjufull. Sem betur fer gat mamma mín komið og hjálpað mér í gegnum þetta. Fæðingarlæknirinn náði svo að toga fylgjuna út en ég missti 2,7 lítra af blóði. Sem betur fer endaði þetta allt saman vel og ég á hraustan og flottan strák í dag. Þessi upplifun gerði það að verkum að ég kveið mjög fyrir næstu fæðingu en sem betur fer gekk hún vel og hratt fyrir sig. Ég byrjaði að fá hríðir klukkan tvö um nótt og stelpan mín fæddist heilbrigð klukkan níu um morguninn. Það var magnað að fá að upplifa fæðingu sem gekk vel og fá barnið strax í hendurnar.“ 

Matur er ástríða Hildar og að fá börnin til að …
Matur er ástríða Hildar og að fá börnin til að taka þátt. Ljósmynd/Ingimar Þór Friðriksson

Hvernig voru fyrstu mánuðirn­ir með ung­barn?

„Það má segja að fyrstu vikurnar með börnin mín hafi verið ólíkar vegna erfiðleika í fæðingu sonar míns. Ég var lengi að ná mér eftir fæðinguna og hann var um tíma á vökudeildinni. Í kjölfarið vorum við foreldrarnir kvíðin og með áhyggjur en þegar frá leið áttum við auðvitað yndislegan tíma saman. Það gekk mjög vel hjá mér að tengjast báðum börnunum mínum og brjóstagjöfin gekk líka vel. Þegar ég lít til baka þá upplifði ég fyrstu mánuðina sem mjög notalegan og yndislegan tími heima að kynnast börnunum mínum þrátt fyrir talsvert svefnleysi eins og fylgir þessu oft.“

mbl.is