Ashley Graham á von á dreng

Ashley Graham á von á strák.
Ashley Graham á von á strák. AFP

Bandaríska fyrirsætan Ashley Graham greindi frá því í spjallþætti Ellen DeGeneres að hún ætti von á syni. Graham gengur nú með sitt fyrsta barn, en hún og eiginmaður hennar til 9 ára, Justin Ervin, tilkynntu um óléttuna í ágúst síðastliðinn.

Graham var gestur Ellen í þætti vikunnar og spiluðu þær spurningaleik sem Graham heldur úti í hlaðvarpsþáttunum Pretty Big Deal. Í þetta skiptið sat þó Graham fyrir svörum og spurði Ellen hana spjörunum út. Ein af hraðaspurningunum var hvort hún ætti von á dreng eða stúlku og svaraði Graham himinlifandi að hún ætti von á dreng.

Fyrirsætan greindi einnig frá því hvenær von er á drengnum í heiminn. Hún sagði að hún ætti von á sér í janúar. Graham á sjálf afmæli 26. janúar og spurði Ellen hvort það væri von á honum fyrir eða eftir þann dag. Graham sagði að hún væri skrifuð stuttu fyrir þann dag, en að læknar höfðu sagt henni að hann gæti komið fyrir tímann eða hún gengið framyfir.

mbl.is