Mikilvægt að börn með astma fái að æfa

Steinunn segir mikilvægt að fólk með astma og þá sér …
Steinunn segir mikilvægt að fólk með astma og þá sér í lagi börn fái öruggt umhverfi að æfa í.

Steinunn Þórðardóttir þjálfari og jógakennari hefur nýverið skilað lokaverkefni í sjúkraþjálfarafræði þar sem hún rannsakar þarfir barna með astma. Hún er að undirbúa sumarnámskeið fyrir 8 - 12 ára börn með astma og segir ástandið í dag vafalaust áskorun fyrir alla foreldra.  

„Ég er að sinna námi samhliða móðurhlutverkinu. Lokaverkefnið mitt var til að mynda kynnt á Zoom-fundi heiman úr stofu. En þessir tímar hafa líka gefið mér dásamlegan tíma með stelpunum mínum tveimur og kennt mér hvað raunverulega skiptir máli. Á svona tímum kemst maður líka fljótt að því hvað styrkur vina og fjölskyldu er mikilvægur. Ég á sem dæmi frábæra að sem hafa verið til staðar fyrir okkur.“

Allt hægt með réttum aðferðum

Hvað getur þú sagt mér um námskeiðið sem þú ert að fara af stað með fyrir börn með astma?

„Þetta er 10 vikna sumarnámskeið, kennt á Grandi-101 á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum kl. 14.30. Þetta verður fjölbreytt og skemmtileg hreyfing með góðri blöndu af þol- og þrekþjálfun ásamt sérstökum öndunaræfingum og fræðslu um astma. En það fylgir einmitt fræðslukvöld fyrir foreldra svo verður fræðsla til barnanna fléttuð inn í hreyfinguna á skemtilegan hátt.

Þetta er hugmynd sem ég hef haft í töluverðan tíma en ég er sjálf með astma og var með mjög mikinn astma sem barn. Upp úr tvítugu lærði ég að hreyfing er oft sterkasta meðalið, sérstaklega til langs tíma, en á sama tíma er alls ekki sama hvernig maður nálgast hreyfingu.

Hins vegar er allt hægt með réttum aðferðum og það er vel hægt að byggja upp gott þol hjá langflestum, hvort sem það er til að líða betur í daglegu lífi eða öðrum íþróttum. Svo ég hef mína eigin reynslu og þær tilraunir sem ég gerði á sjálfri mér, einnig hef ég verið að þjálfa og kenna jóga í 8 ár og þar með talið verið með styrktarþjálfun fyrir börn. Námið gefur svo góða innsýn í lífeðlisfræðilega ferla sem eiga sér stað við astma ásamt lungnasjúkraþjálfun. Mig langaði þess vegna að þróa námskeið sem hentaði börnum með astma þar sem ég nýtti alla þessa þekkingu og reynslu og gæti þannig vonandi hjálpað fleirum.

Svo rannsakaði ég enn betur hópþjálfun þessa hóps með BS-verkefni mínu og vinkonu minnar Söru Benediktsdóttur. Niðurstaðan okkar er meðal annars að börn vantar öruggt rými til að kanna mörkin sín og læra að upplifa mun á astmakasti og eðlilegri mæði við áreynslu. Einnig að astmaveikum börnum líður vel í umhverfi þar sem þau upplifa sig venjuleg og geta speglað sig í hvort öðru. Svo að leyfa þeim að æfa saman í sérstöku námskeiði ætti að uppfylla þessar kröfur.“

Eina barnið í bekknum með astma

Steinunn man sjálf hvernig var að vera eina astma veika barnið í bekknum.

„Íþróttakennarar og þjálfarar eru oft hræddir við mann af því þá skortir þekkinguna á hvernig eigi að bregðast við astmaveikum börnum. Leikfimi fannst mér leiðinleg þar sem ég kunni ekki að hreyfa mig og ég fann stöðugt fyrir vanlíðan. Það er nefnilega ekki nóg að heyra hvernig eigi að hreyfa sig, það þarf að fá að æfa það einhvers staðar í öruggu rými. Lokaverkefnið staðfesti það að þetta er lítið breytt þótt árin hafi liðið og íþróttaþjálfarar og kennarar ásamt foreldrum því miður oft hindrunin í að börnin þori að hreyfa sig. Auðvitað ekki viljandi, en það mögulega mætti vera meiri vitneskja um þetta í samfélaginu. Það er svo virkilega valdeflandi að upplifa að maður getur haft einhverja stjórn á líðan sinni og sjúkdómi eins og þessum. Ég sem barn upplifði einmitt öfugt, sjúkdómurinn hafði stjórn á mér og valdi svolítið fyrir mig tómstundir. En það á auðvitað ekki að vera þannig, það er vel hægt að taka svolitla stjórn sjálfur og finna leiðir til að gera það sem mann raunverulega langar til.“

Steinunn Þórðardóttir hefur þjálfað í Mjölni og verið jógakennari um …
Steinunn Þórðardóttir hefur þjálfað í Mjölni og verið jógakennari um árabil.

Skiptir hreyfing miklu máli fyrir heilbrigði barna og fullorðinna að þínu mati?

„Já öllu máli. Við erum gerð til að hreyfa okkur, það eru til þúsundir af rannsóknum sem staðfesta þetta. Það þýðir ekki að við þurfum öll að taka þátt í CrossFit-leikum eða Iron man, heldur finna hreyfingu sem okkur líður vel af og okkur þykir skemmtileg. Lífstílssjúkdómar og stoðkerfisverkir eru oft afleiðingar af kyrrsetu eða í það minnsta versna við mikla kyrrsetu. Sem börn mótum við venjur fyrir lífstíð, þessum venjum er hægt að breyta á fullorðinsárum en það er bara mun erfiðara. Við getum ímyndað okkur árfarveg sem í mörg ár hefur verið að mótast, það þarf mjög mikinn kraft til að breyta honum. Hins vegar er mun auðveldara að færa til litla nýmyndanalækjarsprænu.

Af þessari ástæðu tel ég mikilvægt fyrir öll börn að læra að hreyfing er partur af daglegu lífi sama í hvaða formi það er. Og enn mikilvægara með undirliggjandi sjúkdóma eins og astma.“

Mælir með að leyfa börnunum að koma með hugmyndir líka

Áttu gott ráð fyrir foreldra sem eru uppiskroppa með skemmtilega hluti að gera með börnum sínum í sumar?

„Ég mæli með að fá börnin sjálf til að koma með hugmyndir og ekki útiloka þær þótt þær þyki fráleitar við fyrstu sýn. Það er oft hægt að útfæra þær svo þær séu gerlegar. Í sóttkví t.d. Settum við mæðgur upp buslulaug á stofugólfinu og fórum í „sund“.

Að sama skapi þarf ekki alltaf að ofhugsa. Börn elska að fá að gera hversdagslega hluti með foreldrum sínum, oft þarf ekki annað en að leyfa þeim að vera með í eldhúsinu. Mín þriggja ára til dæmis elskar að fá að vaska upp með mér, það fer allt á flot við það að sjálfsögðu en þetta verða engu að síður oft okkar mestu gæðastundir.

Við, eins og svo margir aðrir, fórum í gegnum sóttkví í mars. Á hverjum morgni höfðum við aðeins meira fyrir morgunmat en venjulega, drukkum smoothie og áttum gæðastund. En í þessari stund gerðum við líka dagskipulag. Þær fengu að koma með sínar hugmyndir og ég kom mínum frá. Auðvitað komu dagar þar sem þetta gekk ekki eftir, og þá er mikilvægt að njóta þess líka. En þetta skipulag og að leyfa þeim að vera með held ég að hafi hjálpað okkur mjög mikið og ég kem til með að nýta mér í framtíðinni.“

mbl.is