„Dreymir um að gera bók um fermingarundirbúninginn“

Haraldur O Leonhardsson, Anna Kapitola Engilbertsdóttir, Þórdís Amalía Haraldsdóttir og …
Haraldur O Leonhardsson, Anna Kapitola Engilbertsdóttir, Þórdís Amalía Haraldsdóttir og Guðbjörg Anna Haraldsdóttir.

Anna Kapitola Engilbertsdóttir er áhugamanneskja um fermingarveislur. Hún gerir einstakar veitingar og fær mikla gleði út úr því að gefa þekkingu sína áfram. 

Anna segir að ennþá sé talað um þegar hún skipulagði þrítugsafmælið sitt, rúmu hálfu ári fyrir herlegheitin.

„Það er enn hlegið að því að ég byrjaði að skipuleggja þrítugsafmælið mitt rúmu hálfu ári áður en það var haldið. Ég pantaði veisluskraut á netinu en á þeim tíma var úrvalið mjög lítið. Ég man enn að síðan hét Partysupplies.

Mér finnst líka mjög gaman að baka og skreyta tertur fallega og hef fengið útrás fyrir það í afmælum hjá dætrum mínum, vinum og ættingjum. Ég byrjaði t.d. að gera rósakökur löngu áður en þær urðu svona vinsælar. Ég sá myndir af gullfallegri rósaköku sem kunningjakona mín gerði og ákvað að reyna mig við það. Fyrsta rósakakan sem ég gerði var fyrir skírnarveislu yngri dóttur minnar og vakti mikla hrifningu – það héldu allir að bakarameistari hefði búið hana til. Síðan þá hef ég gert margar rósakökur í hinum ýmsu litum í stíl við þema afmæla og ferminga og meira að segja gerði ég eina fyrir brúðkaup.“

Alltaf lagt mikið í veislur

Anna segir að hún hafi verið alin upp við þá hugsun að maður skyldi leggja mikið upp úr veislum.

„Þá var smurbrauð, tertur og fleira góðgæti borið fallega fram. Mér hefur alltaf fundist gaman að baka og sérstaklega að skreyta tertur og setja á brauðtertur sem varð fljótt til þess að vinir og ættingjar fóru að spyrja mig hvort ég gæti gert einhverjar slíkar fyrir veislur. Óskin er alltaf sú að ég noti sömu uppskriftina og svo er óskað eftir einhverjum ákveðnum lit – punkturinn yfir i-ið finnst mér síðan vera að hafa þessar tertur háar og setja þær á tertudisk á fæti. Mér finnst mjög gaman að halda flottar veislur og margir hafa haft á orði við mig í afmælum að þetta væri bara eins og fermingarveisla og hvernig ég ætlaði eiginlega að hafa fermingarveisluna fyrst afmælisveislur væru svona flottar. Ég er líka alin upp við hjálpsemi og ef ég get aðstoðað og glatt aðra þá er það yndislegt.“

Anna er í stórum saumaklúbb sem hjálpast að.

„Við erum tíu í hópnum, þar af búa tvær af okkur úti á landi. Þegar börnin okkar fermast, þá hefur myndast sú hefð að við útbúum allar eitthvað sem við komum með á fermingarborðið. Þá er horft til þess hvar styrkleikar hverrar og einnar liggja – ein gerir alltaf perutertur, önnur gerir bestu rækjubrauðtertur sem um getur, ein bakar pönnukökur í stóru upplagi, ein gerir svakalega góðan heitan rétt og svo mætti lengi áfram telja. Ég er næstum alltaf beðin um rósakökur eða hangikjötsbrauðtertur. Stundum er ég líka beðin um gamaldags hnallþóru eða rjómatertu, eða marensköku. En það segir sig sjálft að þegar komin er slík hefð um samvinnu þá léttir það heilmikið á foreldrum fermingarbarnsins.“

Mikilvægt að æfa sig fyrir veisluna sjálfa

Anna segir það góða reglu að æfa sig fyrir ferminguna.

„Ástæðan fyrir því að ég mæli með að fólk byrji að æfa sig í bakstri fyrir ferminguna er sú að það getur verið mjög stressvaldandi að ætla sér að prófa eitthvað í fyrsta skipti fyrir svona stóran dag. Ég hef oft prófað nýjar uppskriftir í afmælum en þegar haldin er svona fín veisla sem er eina sinnar tegundar fyrir viðkomandi einstakling þá er ekki rétti tíminn fyrir tilraunir. Auk þess er miklu tímafrekara að gera eitthvað í fyrsta sinn heldur en þegar maður hefur prófað nokkrum sinnum – æfingin skapar meistarann. Ég mæli því með því að nota tækifærið þegar eru afmæli og prófa sig áfram fyrir þau og jafnvel bjóðast til að koma með köku í afmæli eða aðrar veislur sem þið eruð boðin í af því að ykkur langi til að prófa nýja aðferð við að skreyta tertu.“

Hver er listin á bak við kökuskreytingar?

„Listin á bak við kökuskreytingar eru stútarnir og gott krem. Ég skoða oft fallegar kökur á Pinterest og ef ég sé eitthvað sem mér líst vel á þá athuga ég hvort það eru upplýsingar um sprautustútana og hvort það séu myndbönd á youtube. Rósakakan t.d. er alveg ótrúlega einföld í framkvæmd. Aðalatriðið er að eiga rétta stútinn og vera með gott krem – þá geta allir gert svona köku. Ef þú kannt ekkert að baka eða ert í tímaþröng þá er meira að segja lítið mál að kaupa ódýra súkkulaðiköku í Bónus, skreyta hana fallega og engum dettur annað í hug en að þú hafir verið á fullu að baka. Þær eru hins vegar ekki eins bragðgóðar og heimabakaðar. Ég hef meira að segja gert rjómatertu með þessari aðferð.“

Systurnar Þórdís Amalía og Guðbjörg Anna.
Systurnar Þórdís Amalía og Guðbjörg Anna.

Gefur þekkinguna áfram

Anna segir að kökupinnar geti verið mjög fallegir og skemmtilegir á borði.

„En þeir eru ótrúlega tímafrekir þannig að það er alveg spurning hvort þeir eigi ekki frekar heima í afmælisveislum heldur en fermingarveislum. Ég er hins vegar svakalega hrifin af hugmyndinni um nammibari og súkkulaðigosbrunn með ferskum ávöxtum og við vorum með hvorutveggja í fermingarveislunni.“

Anna er með síðuna Fermingarhandbókin á Facebook, þar sem

hægt er að finna allt milli himins og jarðar fyrir ferminguna.

„Ég gerði þessa síðu þar sem mig langaði að koma þessu öllu á einn stað; undirbúningnum, skipulaginu og grunnuppskriftum. Síðan stefni ég að því að gefa út bók með þessu efni. Bókin færi í öll helstu grunnatriðin og Facebook-síðan væri síðan ítarlegri.“

Anna segir bókina í raun að mestu tilbúna.

„Mig vantar bara kjarkinn til að prenta hana út.“

Rósa- og stafakökur
Rósa- og stafakökur
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »