Sér ekki eftir þungunarrofinu

Stevie Nicks er ein aðalsögnkvenna Fleetwood Mac.
Stevie Nicks er ein aðalsögnkvenna Fleetwood Mac. AFP

Tónlistarkonan Stevie Nicks segist ekki sjá eftir því að hafa farið í þungunarrof. Ef hún hefði ákveðið að eiga barnið hefði hljómsveitin Fletwood Mac aldrei orðið. 

Nicks opnaði sig um baráttu kynslóðar sinnar fyrir réttinum til þungunarrofs í viðtali við The Guardian á dögunum. „Ef ég hefði ekki farið í þungunarrof, þá er ég nokkuð viss um að Fleetwood Mac hefði aldrei orðið. Það er ekki fræðilegur möguleiki að ég hefði getað átt barn þá og lagt jafn hart að mér eins og ég gerði þá. Og það var mikið af fíkniefni, ég var í mikilli neyslu. Ég hefði þurft að ganga í burtu frá því,“ sagði Nicks.

Nicks fór í þungunarrof árið 1979 þegar Fleetwood Mac var á hátindi ferilsins. Hún var þá í sambandi með liðsmanni Eagles, Don Henley. 

Hún segir að það hafi verið henni mikilvægt að vera hluti af hljómsveitinni ekki bara til að deila tónlistinni sem gerði fólk hamingjusamt heldur líka af því tvær söngkonur og lagahöfundar voru í sveitinni. 

„Ég hugsaði „Veistu hvað? Það er mjög mikilvægt Það er ekki annað band í heiminum sem er með tvær aðalsöngkonur og tvær kvenkyns aðallagahöfunda“. Það var mitt heimsmarkmið,“ sagði Nicks. 

Nicks ræddi einnig um yfirvofandi forsetakosningar í Bandaríkjunum og skipun Amy Coney Barrett í hæstarétt Bandaríkjanna. Hún segir að ef Coney Barrett taki sæti í hæstarétt muni dómnum Roe gegn Wade snúið við. 

„Réttur til þungunarrofs, það var hin raunverulega barátta minnar kynslóðar. Ef Trump vinnur kosningarnar og setur inn þann dómara sem hann vill, þá mun hún án efa snúa þessum dómi við og ýta konum aftur yfir í þungunarrof í hliðargötum,“ sagði Nicks. 

Dómurinn Roe gegn Wade frá árinu 1973 er sögufrægur í Bandaríkjunum en hann tryggði rétt kvenna til þungunarrofs.

mbl.is