Hvernig foreldrar eru Zara og Mike Tindall?

Zara Philips og Mike Tindall.
Zara Philips og Mike Tindall. AFP

Zara Tindall, dóttir Önnu prinsessu, og eiginmaður hennar Mike eiga von á sínu þriðja barni. Hello Magazine tók saman nokkur atriði sem hjónin leggja upp úr í uppeldi barna sinna.

Það er gaman að keppa

Zara og Mike eru bæði mikið keppnisfólk. Hann lék ruðning en hún var í ólympískri hestafimi. Þau leggja mikið upp úr því að börnin læri að keppa. Mike Tindall viðurkenndi í hlaðvarpsþætti á dögunum að hann legði hart að dóttur sinni Míu að sýna meira keppnisskap og neitar að leyfa henni að sigra. Þegar hann var að kenna henni á brimbretti fór hann í kapp við hana í átt að sjónum og vann hana. „Ég var að reyna að gera hana kappmeiri,“ sagði Tindall.

Gæludýr kenna manni á lífið

Bæði börn þeirra hafa sýnt áhuga á hestum og Mia á sinn eigin smáhest. En hjónin vilja að börnin ákveði sjálf hverju þau einbeiti sér að. „Ég elska að þau geti varið tíma sínum úti með dýr. Það fylgir því mikill lærdómur að vera úti og annast dýr,“ sagði Mike Tindall.

Fara sínar eigin leiðir í lífinu

Bæði Zara og Mike eru mjög jarðbundin og harðákveðin í því að börn þeirra fari eigin leiðir í lífinu þrátt fyrir konunglegan bakgrunn. Þá leyfa þau þeim að segja hvað þeim finnst og hafa sínar eigin skoðanir.

Leggja mikið upp úr samveru fjölskyldunnar

Hjónin tryggja að þau fjögur verji miklum tíma saman sem fjölskylda en rækti einnig vel sambandið við aðra ættingja úr fjölskyldunni. Þau búa nálægt bróður Zöru sem á börn á svipuðum aldri og eru þau mikið saman.

Skólinn er mikilvægur

Það reyndi á heimilislífið að vera með börnin í heimaskóla þegar kórónuveirufaraldurinn var í hámarki. Mike sagði það hafa verið indælan tíma en líka erfiðan. „Ég held að ekkert barn þrífist vel í heimaskóla. Þau hlusta alltaf betur á aðra en foreldra sína!“

Sýna gott fordæmi

Bæði hjónin vinna mikið og þurfa stundum að vera frá börnunum sínum. Þau reyna að tryggja að annað þeirra sé alltaf með þeim ef hitt þarf að vera í burtu. Þau vilja þó sýna að það sé vel hægt að vera í vinnu og eiga börn.

Zara Tindall er mikil hestakona og hefur keppt á Ólympíuleikum.
Zara Tindall er mikil hestakona og hefur keppt á Ólympíuleikum. Af Wikipedia
Mike Tindall var fyrirliði enska landsliðsins í ruðningi.
Mike Tindall var fyrirliði enska landsliðsins í ruðningi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert