Kim mun fara fram á fullt forræði

Hjónin Kim Kardashian og Kanye West eru sögð ætla að …
Hjónin Kim Kardashian og Kanye West eru sögð ætla að skilja. AFP

Kim Kardashian er sögð ætla að fara fram á fullt forræði yfir fjórum börnum þeirra Kanyes Wests. Þetta fullyrðir fjölmiðillinn The Sun en Kardashian er sögð ætla að fara fram á skilnað við West eftir nærri sjö ára hjónaband.

Heimildarmenn nærri Kardashian segja að skilnaðurinn virðist við fyrstu sýn vera á vinalegum nótum en meiri harka muni þó færast í leikana þegar þau fara að takast á um forræði barnanna.

„Hvorugt þeirra vill líta illa út í skilnaðarferlinu en ef West reynir að mótmæla tillögum hennar um fullt forræði verður hart barist á móti. Kardashian mun ekki gefa neitt eftir þegar börnin eru annars vegar.“

Kanye West sagður óútreiknanlegur

Bæði Kim og móðir hennar Kris Jenner eru sagðar hræddar um að missa stjórn á aðstæðum eftir því sem athygli fjölmiðla beinist í auknum mæli að skilnaðinum.

„Þær vita að þær geta ekki stjórnað Kanye, sérstaklega þar sem hann glímir við geðhvörf. Enginn veit hvað hann mun segja opinberlega en síðasta sumar sannaði hversu óútreiknanlegur hann getur verið,“ segir heimildamaður og vísar til atrennu Wests að forsetaframboði og yfirlýsingagleði hans í því samhengi.

„Kris getur ekki stjórnað þessu líkt og hún er almennt vön og hún gerir sér grein fyrir því. Þá getur Kim heldur ekki reitt sig á mömmu sína til þess að láta þetta hverfa því það er engin leið að sjá fyrir hvað Kanye mun gera. Hann veit svo mikið um fjölskylduna; hluti sem enginn vill upplýsa almenning um. Þau eru mjög áhyggjufull um hvað hann gerir við allar þessar upplýsingar,“ segir heimildarmaður The Sun.

Fengi að sjá börnin undir eftirliti

Fjölskyldulögfræðingur sem The Sun ræddi við taldi að andleg heilsa Wests gæti haft áhrif á umgengnismál hans við börnin.

„Ef hún getur sannað að hann glími við andlega erfiðleika getur hún fært rök fyrir því að þau fái ekki sameiginlegt forræði. Hún gæti farið fram á að hann hitti börnin undir eftirliti ef hann er í andlegu ójafnvægi. Þá myndi hún taka allar stærstu ákvarðanirnar um líf barnanna. Það er mjög líklegt að henni takist það.“

Undir þetta tekur stjörnulögfræðingurinn Rebecca Zung sem segir að andleg heilsa Wests verði stór þáttur í réttarhöldunum. „Hann glímir augljóslega við andlega erfiðleika og ef hann samþykkir ekki hennar kröfur verða þau að fara fyrir rétt, sem verður mikið fjölmiðlafár fyrir alla aðila.“

Falleg fjölskylda.
Falleg fjölskylda.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert