Eru frönsku börnin betur upp alin?

Frönsku börnin eru prúð og stillt.
Frönsku börnin eru prúð og stillt. Unsplash.com/Mael Balland

Margir hafa veitt því athygli hversu mikill munur er á uppeldisaðferðum ólíkra menningarheima. Pamela Druckerman skrifaði bók um muninn á frönskum og bandarískum uppeldisaðferðum. Frakkar virðast vera strangir en afslappaðir á sama tíma en bandarískir foreldrar eiga það til að ganga fulllangt í að taka þátt í lífi barna sinna.

Frönsku börnin fá aldrei barnamatseðil

Frakkar eru miklir matgæðingar og vilja að börnin læri að upplifa það besta í franskri matargerð. Það er ekki í boði á frönskum heimilum að börnin borði eitthvað allt annað en hinir fullorðnu. Aldrei tíðkast það að bjóða þeim pítsur og franskar þegar aðrir eru að borða kjöt og fisk. Þeim er alltaf boðið það sama.

Gefa sér meiri tíma

Franskir foreldrar gefa sér meiri tíma um helgar til þess að slaka á og njóta lífsins. Þeir eru ekki á fleygiferð með börnin að sækja hvers kyns íþróttaviðburði eða námskeið. 

Börnin læra að dunda sér

Franskir foreldrar leggja sig fram um að búa til tíma fyrir sjálfa sig. Þeir eru meira en bara foreldrar. Þeir taka því börnin með á kaffihús og veitingastaði til þess að glata ekki félagslífinu. Börnin sitja hljóð hjá og hlusta og átta sig á að þau eru ekki miðja alls.

Frönsku börnin eru frjálsari

Frönsku börnin eru almennt talin frjálsari en til dæmis bandarísk börn. Þeim er gjarna treyst til þess að fara í strætó eða ganga ein í skólann frá sjö ára aldri. Til viðmiðunar geta bandarískir foreldrar lent í miklum vandræðum ef þeir senda börn ein út á róló.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert