Grín í áramótaskaupinu 2017 raungerist

Hér má sjá leikarana Sögu Garðarsdóttur og Jörund Ragnarsson í …
Hér má sjá leikarana Sögu Garðarsdóttur og Jörund Ragnarsson í hlutverkum sínum í Áramótaskaupinu 2017. Skjáskot/Youtube

Bandaríska smábarnið Luca Yupanqui er að gefa út sína fyrstu plötu. Platan var tekin upp þegar Yupanqui var enn í móðurkviði. Platan er fysta sinnar tegundar í heiminum að því er fram kemur á vef The Guardian. Gjörningurinn minnir Íslendinga kannski einna helst á brot úr áramótskaupinu 2017. 

Foreldrar stúlkunnar eru tónlistarfólk. Móðirin Elizabeth Hart er í hljómsveitinni Psychic Ills en faðirinn, tónlistarmaðurinn Iván Diaz Mathé, hefur meðal annars unnið með hinum virta Lee „Scratch“ Perry frá Jamaíku. Platan var tekin upp í fimm klukkustunda langri hugleiðslu. Foreldrarnir unnu plötuna úr hljóðum dóttur sinnar en breyttu eins litlu og þau gátu til þess að leyfa rödd dótturinnar að heyrast. Platan heitir því viðeigandi nafni Sounds of the Unborn. 

Áramótaskaupið

Saga Yupanqui og foreldra minnir marga á grín í áramótaskaupinu frá árinu 2017. Þar var gert góðlátlegt grín að því að rapparar væru alltaf að verða yngri og yngri. Í atriðinu í skaupinu mátti sjá ljósmóður tilkynna verðandi foreldrum að þau ættu von á rappara. Hún bauðst auk þess til þess að búa til youtuberás fyrir barnið og að útgáfutónleikar væru á sjöunda mánuði. 

Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá brotið úr Áramótaskaupinu 2017. 

Tengdi strax við hljóð sín

Hér að neðan má hlusta á tónlist Yupanqui. Hún ku vera aðdáandi sköpunar sinnar og þegar verið var að hljóðblanda tónlistina þegar hún var ungbarn áttaði hún sig á að hljóðin kæmu frá henni. „Hún galopnaði augun og starði á foreldra sína, eins og hún þekkti hljóðin úr leginu,“ sagði í tilkynningu frá plötuútgáfunni Sacred Bones. 

mbl.is