Væri til í veislu á snekkju, reykvél, Pál Óskar og flugeldasýningu

Dreki Steinarsson er með ákveðnar hugmyndir fyrir eigin fermingu.
Dreki Steinarsson er með ákveðnar hugmyndir fyrir eigin fermingu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dreki Steinarsson er fjórtán ára Kársnesbúi og tískuáhugamaður sem ætlar að fermast borgaralega í næsta mánuði. Hann dreymir um að fá skellinöðru eða skó í fermingargjöf og innra með honum blunda blandaðar tilfinningar af tilhlökkun og því að spá lítið í þetta. 

Aðspurður hvers vegna hann hafi valið borgaralegu ferminguna fram yfir þá kristnu segir Dreki það fyrst og fremst stafa af því að hann trúi ekki á guð samkvæmt skilningi kristinnar trúar. „Svo nennti ég heldur ekki að lesa Biblíuna og hvað þá að fara í messu til að hlusta á gamalmenni tala í klukkutíma. Messa hjálpar manni ekkert í lífinu en það gerir námskeiðið hjá Siðmennt hins vegar. Þar lærðum við til dæmis um mannréttindi og dýraréttindi og við fengum einn kynfræðslutíma sem mér fannst mjög mikilvægt og gagnlegt því það er engin almennileg kynfræðsla í skólum. Hjá Siðmennt fengum við að vita það sem skipti máli og það var líka farið vel í þetta hvað það þýðir að vera unglingur. Hvað maður er að ganga í gegnum og svona.“
Þessir skór eru á óskalistanum.
Þessir skór eru á óskalistanum.

Mamma verður í gömlu fermingarfötunum sínum

Dreki segir að veislan sem nú er framundan verði glæsileg en um leið frekar hefðbundin fermingarveisla. „Það kemur matartrukkur svo allir fá eitthvað borða, pabbi mun segja eitthvað, mamma mun segja eitthvað, það verða sýndar myndir af mér þegar ég var minni og svo hitti ég einhverjar frænkur og frændur sem ég hef ekki séð í meira en tíu ár. Bara beisik,“ útskýrir Dreki og bætir um leið við að mamma hans, Sæunn Þórðardóttir hönnuður, ætli að vera í fermingarfötunum sem hún sjálf var í fyrir mörgum, mörgum árum. „Hún passar alveg ennþá í þau“.

Dreka dreymir um að fá Geo Basket-skó eða skellinöðru/vespu frá Tampco. „Þetta eru mjög góðar og flottar vespur og hámarkshraðinn er svipaður og á þessum hlaupahjólum held ég. Það væri frábært að geta skotist um á vespu ef ég þyrfti að fara í Hagkaup eða eitthvað. Svo eru þær töff líka.“

Dreki væri til í að fermast í þessari skyrtu.
Dreki væri til í að fermast í þessari skyrtu.

Ef það væri nóg til af peningum

Spurður að því hvernig hann myndi skipuleggja veisluna sína ef hann hefði tíu milljónir til ráðstöfunar og allt væri hægt þá stendur ekki á svörum hjá Dreka.

„Ég myndi í fyrsta lagi halda hana á stórri snekkju og á snekkjunni yrði stór og flottur fáni í stefni með mynd af mér á. Svo væri líka fullt af kökum með myndum af mér á og að sjálfsögðu svona fermingarterta með styttu af mér ofan á. Svo myndi ég fá Pál Óskar í spandexgalla til að skemmta og uppistandarann Pete Davidsen og auðvitað myndi ég hafa rosalega flugeldasýningu í lokin. Gestirnir yrðu bara þeir sömu og koma í veisluna mína,“ segir hann glúrinn og bætir við að hann gæti líka notað reykvél til að auka á stemninguna. „Ég myndi þá forrita hana þannig að það kæmi reykur í hvert sinn sem ég gengi um dyrnar í salinn.“

Fermingarfötin verða giftingarfötin af pabba

Eins og segir í inngangi er Dreki mikill áhugamaður um tísku og hönnun og er því búinn að hugsa vel út í fermingarfötin. Hann ætlar að vera í Nike-skóm sem heita Off White og jakkafötum frá merkinu Purple Label en svo skemmtilega vill til að pabbi hans, Steinar Valdimar Pálsson grafíker, var í fötunum þegar hann gifti sig. „En ef ég gæti valið dressið sjálfur, og það væri nóg til af peningum, þá myndi ég velja mér snákaskinnsstígvél frá Alyx, Rick Owens „fall-winter 2012 embroidered“-jakkafötum og Prada flame-skyrtu. Svo væri ég með Melted-úrið frá Cartier. Og hárgreiðslan? Hmmm ... ætli ég yrði ekki bara krúnurakaður,“ segir tilvonandi fatahönnuðurinn, og núverandi fermingardrengurinn, Dreki Steinarsson, að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert