Vann úr fortíðinni á fjórðu meðgöngu

Varaþingmaður Pírata spjallaði við mbl.is um uppeldi og meðgöngu
Varaþingmaður Pírata spjallaði við mbl.is um uppeldi og meðgöngu Ljósmynd/Sara Elísa Þórðardóttir

Blaðamaður sló á þráðinn til Söru Elísu Þórðardóttur og fékk að forvitnast um móðurhlutverkið hjá þessari öflugu og brosmildu konu sem starfar sem varaþingmaður Pírata. Sara er ein af okkar frambærilegustu listamönnum en ferill hennar spannar 18 ár. Sara býr í Vesturbænum með börnunum sínum fjórum, Þórði Harry 20 ára, Daníellu 12 ára, Dóru 10 ára og Ísól 7 ára, ásamt draumamanninum sínum, Andra Thor Birgissyni, en þau trúlofuðu sig í apríl.

Sara fæddist í Reykjavík árið 1981 en flutti búferlum til Skotlands þegar hún var fjögurra. Faðir hennar stundaði sérfræðinám í læknisfræði og flutti fjölskyldan aftur heim í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar. Eftir að Sara lýkur gagnfræðinámi í Reykjavík finnur hún fyrir aukinni þrá eftir að komast aftur út og flytur út 17 ára þar sem hún lýkur stúdentsprófi 19 ára gömul á sama tíma og hún eignast frumburðinn sinn, Þórð Harry. Hún segir að fyrsta meðgangan hafi gengið mjög vel líkamlega.

„Ég fann fyrir kvíða á fyrstu meðgöngu gagnvart móðurhlutverkinu sjálfu. Þetta var allt saman svo óskrifað blað og gríðarleg ábyrgð og ég óttaðist að bregðast á einhvern hátt. Á sama tíma var ég samt svo spennt og full tilhlökkunar líka. Það var því ákveðin togstreita í gangi en fjótlega eftir að barnið fæddist minnkaði óttinn til muna.“

Gat varla gengið á tímabili

Sara segir að allar meðgöngurnar hafi verið mjög ólíkar en gengu þó allar vel líkamlega þótt vissulega hafi það verið mjög ólík upplifun að ganga með barn 19 ára og svo nú síðast 33 ára. „Á meðgöngum tvö og fjögur fékk ég slæma grindargliðnun sem var sársaukafull og þá var erfitt að fúnkera almennilega. Ég gat varla gengið á tímabili og þegar maður er með önnur börn líka sem þarfnast athygli og umönnunar getur það tekið á. Þetta gekk samt allt til baka mjög snögglega eftir fæðingu. Fjórða meðgangan var erfið andlega en það voru ýmsar ástæður fyrir því sem tengdust ekki meðgöngunni beint. Þá urðu ákveðin kaflaskil sem tengdust fortíðinni sem bönkuðu upp á og ég neyddist til að vinna úr, sem betur fer.“

Sara með frumburðinn
Sara með frumburðinn Ljósmynd/Sara Elísa Þórðardóttir

Var öðruvísi að eignast fyrsta barnið en yngri börnin?

„Eitt sem ekkert, tvö sem tíu, sagði einhver! Já það er gríðarlegur munur á því að vera með eitt meðfærilegt barn eða vera kominn með tvö, þrjú eða fjögur sem eru öll á mismunandi aldursstigum og þar af leiðandi með ólíkar þarfir. Aftur á móti er líka svo yndislegt að bæta í hópinn því þá fá þau eldri lítið systkini og eru jafnspennt og foreldrarnir fyrir nýja fjölskyldumeðlimnum.

Sara og Þórður Harry 2001 og svo 20 árum síðar
Sara og Þórður Harry 2001 og svo 20 árum síðar Ljósmynd/Sara Elísa Þórðardóttir

Það er stutt á milli stelpnanna og auðvitað tók það gríðarlega á að eignast þrjú börn á fimm árum en í dag eru þær perluvinkonur og alltaf í einum hnapp og ég gleðst daglega yfir því að við skyldum leggja þetta á okkur á sínum tíma. Það er svo óendanlega sætt hvernig systurnar kveðja alltaf hvor aðra og bróður sinn með orðunum „bæ, ég elska þig“.“

Maður finnur ekki hamingjuna, maður skapar hana

Sara Elísa leggur mikla áherslu á skilyrðislausa ást í uppeldinu og vitnar í Astrid Lindgren þegar hún er spurð um uppeldið og segir: „Give children love, more love and still more love – and the common sense will come by itself.“ Hún segist vera sammála þessu þó að vissulega þurfi hún líka að taka ýmsa slagi sem foreldri en sér finnist mikilvægt að treysta börnunum til að þroska sína eigin dómgreind.

Ljósmynd/Sara Elísa Þórðardóttir

Hvernig mamma vilt þú vera?

„Ég vil vera skemmtileg, það má alveg vera gaman og spontant! Ég vil sýna þeim hversu fjölbreytt lífið og tilveran geta verið. Ég vil vera þannig fyrirmynd að þau sjái að það er í lagi að fylgja hjartanu og láta drauma sína rætast. Að það þurfi ekki að lifa rúðustrikuðu lífi eða troða sér í einhvern kassa sem aðrir bjuggu til eða ætlast til að maður passi í.

Ég vil að þau viti að þau geta allt sem þau þrá að gera ef þau vinna staðfastlega að því og að enginn draumur er of stór eða langsóttur. En þau verði að taka ábyrgð á hlutunum sjálf, það gerir það enginn fyrir mann. Maður finnur ekki hamingjuna, maður skapar hana. Ég vil vera sterk fyrirmynd og að þau sjái að konur geti allt sem þær ætla sér.

Ljósmynd/Sara Elísa Þórðardóttir

En ég vil líka að þau skilji að enginn er fullkominn og við erum öll að læra helst alla ævi. Mér finnst mikilvægt að þau átti sig á því að foreldrar geti líka gert mistök og verið að þroskast og vinna að því að bæta sig í lífinu og í foreldrahlutverkinu. Ég tala mikið við þau um alla hluti og hika ekki við að biðja þau afsökunar ef ég sé eftir einhverju.

Það er ekki hægt að vernda börn fyrir öllum sársauka í lífinu, og það ætti heldur ekki að vera eitthvert sérstakt takmark. En það er hægt að hjálpa þeim að takast á við sársauka, erfiðar upplifanir og tilfinningar. Það er mikilvægur hluti lífsins og þroskaferlisins.“

Ljósmynd/Sara Elísa Þórðardóttir

Hvernig er morgunrútínan þín?

Þegar börnin eru hjá okkur vöknum við saman og þær fara í skólann. Stundum í strætó en stundum keyrum við þær. Ég reyni svo að fara út að skokka, í röska göngu eða sund. Bý mér svo til hafragraut og sest niður til að vinna, annaðhvort í tölvunni eða að mála.“

Föðuramma barnanna minna fyrirmynd mín

Sara útskrifaðist með BA-gráðu (Hons) með ágætiseinkunn frá einum virtasta listháskóla heims, Edinburgh College of Art í Skotlandi, og hefur haldið fjölmargar einkasýningar. Fjallað hefur verið um verk Söru í Telegraph í Bretlandi og Arte í Frakklandi, Þýskalandi og svo framvegis. Verk hennar hafa selst til listaverkasafnara um allan heim og var verk hennar tilnefnt til Art Gemini-verðlaunanna í Bretlandi 2013.

Börnin fjögur viðstödd opnun á málverkasýningu Söru
Börnin fjögur viðstödd opnun á málverkasýningu Söru Ljósmynd/Sara Elísa Þórðardóttir

Við spurðum Söru hvaðan hún fengi innblástur fyrir list sína. „Íslensk náttúra hefur alltaf veitt mér dýrmætan innblástur í málverkin og einnig í handritaskrif mín. Eldgosið er eins og himnasending fyrir mig og ég er byrjuð á stórri málverkaseríu innblásinni af fallega eldgosinu okkar.“

Tónlist veitir henni líka gríðarlegan innblástur en hún er alltaf með einhverja tónlist í kringum sig: „Bob Dylan, Björk og Bach eru best.“

Hver er þín helsta fyrirmynd í lífinu?

„Það er ekki einver ein persóna. Fólk hefur svo ólíka styrki og kosti og ég sæki fyrirmyndir fyrir eitt hjá einum og annað hjá einhverjum öðrum. Föðuramma barnanna minna er að mörgu leyti fyrirmynd mín hvað börnin varðar. Hún er svo margt sem ég myndi vilja vera sem mamma og síðar amma. Systir mín er fyrirmynd á margan hátt, hún er læknir, frábær móðir og ein heiðarlegasta manneskja sem ég þekki. Börnin min eru líka fyrirmyndir mínar og koma mér sífellt á óvart með visku sinni og styrk. Móðurbetrungar öll sem eitt!“

Ljósmynd/Sara Elísa Þórðardóttir

Að lokum, ef þú mættir gera gamaldags símaat, í hvern myndir þú hringja og hvað myndirðu segja í símann?

„Við erum að fara að gifta okkur á næsta ári þannig að ég myndi hringja í unnusta minn Andra Thor og segja að presturinn hafi verið að hringja vegna þess að kirkjubækur sýni að hann sé nú þegar giftur einhverri konu fyrir norðan,“ segir Sara skellihlæjandi og veltir því fyrir sér hvort hún ætti ekki að hendast í þetta símaat eftir þetta viðtal.

Ljósmynd/Sara Elísa Þórðardóttirmbl.is