Lækkuðu dánartíðni barna hér á landi um 65%

Herdís Storgaard hjúkrunarfræðingur sérhæfir sig í öryggi barna.
Herdís Storgaard hjúkrunarfræðingur sérhæfir sig í öryggi barna. mbl.is/Sebastian Storgaard

Herdís Storgaard hjúkrunarfræðingur sérhæfir sig í öryggi barna. Hún vann fyrir hið opinbera þar sem hún ásamt öðrum sérfræðingum náði að lækka dánartíðni barna um 65%. Hún vonar að öryggi barna verði sett í forgang í komandi kosningum. 

Hún sérhæfir sig í öryggi barna og hefur starfað sem ráðgjafi í sex ár, meðal annars fyrir ýmsar deildir í höfuðstöðvum Ikea í Svíþjóð.

„Auk Ikea er ég er líka að starfa fyrir stofnun sem heitir ANEC en þeir eru með sérfræðinga á sínum vegum í nefndum sem eru að skrifa staðla um öryggi vöru. Vegna þess að ég er hjúkrunarfræðingur og hef vit á öryggi barna var ég beðin að vinna í nýrri nefnd sem fór af stað í fyrra en hlutverk hennar er að skrifa staðal fyrir fjölnota grímur. Það hljómar mjög einfalt – tuska með teygjum – en er mun flóknara en það. Ég er einnig að vinna sjálfboðaliðastarf hjá Miðstöð Slysavarna barna en þar er ég að bjóða upp á sérstök námskeið fyrir verðandi foreldra í samvinnu við heilsugæslustöðina. Það hefur ekki verið til fé til að borga mér fyrir vinnuna en ég hef reynt að leggja mitt af mörkum að halda úti gagnlegri fræðslu og ráðgjöf sem er ókeypis fyrir foreldra.“

Herdís starfaði áður fyrir hið opinbera.

„Ég vann í fjölmörg ár fyrir ríkið og á þeim árum vann ég mikilvægt starf þar sem mér og hópi fólks tókst að lækka dánartíðni barna hér á landi um 65%. Þetta vakti athygli víðsvegar um heiminn.“

Man eftir gullárum öryggis barna í landinu

Hún segir þessi ár hafa verið gullár öryggis barna í landinu.

„Síðan voru fjármunir teknir úr málaflokknum og nú er ég ekki lengur í fullu starfi að sinna þessu mikilvæga máli enda farið að flæða undan þeim árangri sem náðst hafði. Það þarf nauðsynlega að taka upp þráðinn aftur því það hafa komið margar nýjar hættur sem ekkert hefur verið unnið í.“

Herdís fékk fyrst áhuga á slysavörnum eftir að hún fór á fyrstu heimsráðstefnuna sína sem haldin var um slysavarnir.

„Ég var að vinna á gömlu slysadeildinni í Fossvogi og var alla daga að taka á móti börnum sem höfðu slasað sig og þetta er alltaf sárt að horfa á. Á ráðstefnunni hitti ég fólk sem hafði unnið lengi við að fækka slysum og þá áttaði ég mig á að það var hægt með því að nota aðferðir sem höfðu gefist vel. Skömmu eftir þessa ráðstefnu bauðst mér að leiða landsátak í slysavörnum barna og ég tók áskoruninni þó ég hafi lítið kunnað þá.“

Hún segir ungu kynslóðina sem er að eignast börn núna alin upp við forvarnir.

„Það er því sjálfsagður undirbúningur á meðgöngu að læra að tryggja öryggi barnsins.

Það sem ég er líka mjög ánægð með er hversu opið unga fólkið er og segir bara hlutina hreint út og þorir að spyrja krefjandi spurninga. Það gerir kennsluna svo skemmtilega. Afar og ömmur eru alltaf velkomin á þessi námskeið og þau mæta oft og tíðum líka. Viðbrögð þeirra eru vanalega að þau vildu hafa öðlast þessa þekkingu fyrr. Þegar þau voru að ala sín börn upp.“

Ungir foreldrar eru fúsir til að kynna sér forvarnir að …
Ungir foreldrar eru fúsir til að kynna sér forvarnir að mati Herdísar. mbl.is/Colourbox

Notast við gerviheimili á námskeiðunum

Hvernig eru námskeiðin með verðandi foreldrum?

„Þetta er fræðsla um hættur á heimilum og miðast mest við viðkvæmasta hópinn sem eru börn undir fjögurra ára. Ég afhendi foreldrum gátlista og fer yfir af hverju hann er nauðsynlegur og hvenær eigi að gera öryggisúttekt á heimilinu og hvenær þarf að vera búið að laga það sem út af stendur. Það er vanalega um 6 mánaða aldurinn eða áður en barnið er farið af stað.

Ég fer vel yfir þroska og getu barns til að foreldrar átti sig á samhenginu því skortur á þroska er aðalorsök slysa hjá börnum. Ég er með frábæra aðstöðu sem er gerviheimili með öllu. Þetta gerir það að verkum að ég fer með foreldrana í gegnum heimilið og við stoppum við hlutina og það er þekkt að meira situr í slíkri fræðslu þar sem allt sem verið er að fjalla um er til staðar. Ég legg mikið upp úr fræðslu um öryggi ungbarna í þeirra svefnumhverfi. Það er verið að selja allskonar búnað sem uppfyllir ekki öryggiskröfur. Börn eru viðkvæm fyrsta árið og lítið þarf út af að bera ef þau sofa uppi í hjá foreldrum sínum eða vaggan eða rúmið er ekki öruggt. Að lokum fer ég yfir öryggi barna í bílum en þar eru margar nýjungar. Þessi námskeið eru alltaf í boði og hægt er að skrá sig á heimsíðunni www.msb.is undir „Vertu skrefi á undan“. Námskeiðin eru vel sótt og foreldrar kunna mjög vel að meta fræðsluna. Ég er líka með facebooksíðuna Árvekni – Slysavarnir barna. Þar set ég inn stuttar leiðbeiningar, oft að beiðni foreldranna.“

Hvar gerast slys á börnum helst?

„Börn yngri en sex ára verða í flestum tilfellum fyrir slysum á heimilinu. Þegar þau byrja í skóla fækkar þeim en þau færast út fyrir heimilið. Helstu slysastaðirnir eru í frítímanum þar sem börnin eyða mestum tíma. Síðan í skólanum og svo í íþróttum.“

Á hvaða aldri þurfum við sérstaklega að passa börnin okkar?

„Yngstu börnin eru í mestri hættu eða börn upp að 4 ára aldri. Síðan verða ákveðin kaflaskil þegar þau eru átta ára. Þá fyrst geta þau farið að skilja hætturnar en líkaminn er enn að þroskast og vitsmunir einnig. Þannig að um 12 ára aldurinn er óhætt að segja að þau séu nokkuð vel varin en þá taka unglingsárin við. Þá er þekking á hættum til staðar en tilfinningar ráða ferðinni oft með slæmum afleiðingum.“

Lengi býr að fyrstu gerð

Hún segir þekkingu besta vopnið við ótta foreldra um öryggi þeirra.

„Ef foreldrar hafa þekkingu á þroska barna sinna og hvenær þau fara smám saman að ráða við hlutina þá getur maður verið rólegri. Eftirlitið þarf að vera í takt við það – ekki spurning. Það er líka mikilvægt hvernig boð og bönn eru kennd. Sem dæmi er ekki bannað að klifra upp í hátt tré heldur að leyfa þeim það þegar þau hafa getu til þess. Mikilvægt er að kenna þeim að meta hætturnar og að þau læri að koma niður úr trénu á öruggan hátt. Það þarf að kenna börnum öryggi, einnig úti í náttúrunni.“

Fimm ráð fyrir foreldra

• Ef þú átt von á barni nýttu þér námskeiðið til að skilja skort á þroska barna til að geta varið sig sjálf upp að vissum aldri því þá er eftirlitið með barninu betra.

• Farðu eftir leiðbeiningum sem fram koma á námskeiðinu um öruggt svefnumhverfi barna.

• Tryggðu að heimilið sé öruggur staður fyrir alla.

• Kynntu þér alltaf hvar barnið þitt er að leika sér í hverfinu. Það geta verið mjög hættulegir staðir, sérstaklega þegar þau fara lengra frá heimilinu en áður.

• Virðið það að láta ekki barn yngra en 15 ára gæta lítils barns fyrir ykkur, því það hefur ekki þroska til þess.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »