„Ég segi frekar af hverju ekki ég?“

Bjarney Bjarnadóttir átti von barni í byrjun árs en er …
Bjarney Bjarnadóttir átti von barni í byrjun árs en er nú í framboði fyrir Viðreisn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í byrjun árs sá Bjarney Bjarnadóttir, móðir og kennari, fyrir sér að vera í fæðingarorlofi í september en ekki framboði til Alþingis fyrir Viðreisn. Hún og eiginmaður hennar, Sigurkarl Gústavsson, áttu von á sínu fyrsta barni saman í ágúst. En í 18 vikna sónar í mars breyttist allt og Bjarney þurfi að fæða dóttur þeirra andvana eftir 18 vikna meðgöngu.

„Ég skráði mig í flokkinn í maí þegar ég var í fæðingarorlofi og tveimur dögum seinna fékk ég símtal frá uppstillingarnefnd þar sem mér var boðið að taka sæti á lista í Norðvesturkjördæmi,” segir Bjarney sem býr í Borgarnesi. Hún segir það hafi verið mjög gott að hella sér út í kosningabaráttuna af fullum krafti og hafa eitthvað annað að hugsa um.

Ekki fyrsta áfallið

Bjarney fékk tveggja mánaða fæðingarorlof eftir fæðingu dótturinnar Sifjar. „Planið var að vera í fæðingaorlofi í september. Ég var sett 11. ágúst og ég var farin að leggja drög að því að vera heima þetta skólaár með litla barnið. Framtíðarplönin voru ekki önnur,” segir Bjarney sem á fyrir einn níu ára strák og þrjá stjúpsyni. „Þetta hefði verið fyrsta barn okkar saman og stelpa. Hann á þrjá stráka og ég á einn strák.“

Bjarney á auðvelt með að tala um missinn enda ekki fyrstu erfiðleikarnir sem hún hefur þurft að takast á við. Hún á einn dreng fyrir sem hún ól upp sem einstæð móðir. „Ég komst að því að ég væri ólétt mánuði eftir að ég hætti með barnsföður mínum. Það var alveg ljóst frá upphafi að hann ætlaði ekki að taka þátt í lífi barnsins þannig að ég flutti heim frá Englandi til að verða einstæð móðir hérna á Íslandi. Svo deyr mamma eftir frekar sorglega sögu, svo greindist ég með BRCA-genið og fer í brjóstnám. Þetta er ekki fyrsta áfallið,” segir Bjarney og segir mikið lagt á fjölskyldu sína. 

„Ég segi frekar af hverju ekki ég? Það geta allir lent í allskonar,“ segir Bjarney þegar blaðamaður spyr hvort henni finnist missirinn ósanngjarn. „Stundum hugsa ég líka af því að ég er frekar hörð af mér þá finnst mér ágætt að ég sé að taka út hluti heldur en einhver annar sem myndi höndla þá verr en að sama skapi þá höndlar fólk það verr af því það hefur ekki lent í mótlæti.“

Hálsmen með mynd af fótspori Sifjar.
Hálsmen með mynd af fótspori Sifjar.

Fæðingin var heilandi 

Það munaði einungis einum degi á því að Bjarney fengi ekkert fæðingarorlof en eftir 18 vikna meðgöngu á fólk rétt á tveggja mánaða löngu fæðingarorlofi. Bjarney segir kerfið ósanngjarnt þar sem sorgin og þjáningin sé sú sama fyrir fólk sem þarf að fæða börn eftir 16 og 18 vikur.

„Þetta er pínu drifkraftur inn í stjórnmálin hjá mér, þessir litlu hlutir sem hafa kannski ekki áhrif á alla landsmenn en hafa mikil áhrif á fólkið sem í þessu stendur hverju sinni. Ég var sett af stað, maður fer í útvíkkun, maður fær hríðir. Ég missti mjög mikið blóð, það var verið að undirbúa mig fyrir aðgerð og svo tveimur mánuðum eftir fæðinguna þurfti ég að fara í aðgerð af því það var fastur fylgjubiti. Þetta var erfið fæðing með öllu sem fylgir eðlilegum fæðingum og kannski erfiðari að mörgu leyti af því að ég vissi að ég væri að fæða dáið barn en maður fann líka alla líkamlegu kvillana. Það hefði ekkert verið öðruvísi ef ég hefði átt hana deginum áður. En þá hefði ég ekki átt rétt á neinu fæðingarorlofi eða fæðingarstyrki,” segir Bjarney. Hún skilur að það þurfi að sitja mörk einhversstaðar en að það mætti miða frekar við að allir sem þurfi að fæða barn sitt fái fæðingarorlof.

Bjarney segir að fósturlátið hafi uppgötvast á miðvikudegi en hún fæddi ekki barnið fyrr en á föstudegi. Hún segir að dagurinn fyrir fæðinguna hafi verið skrítnasti dagur sem hún hafi upplifað. Ömurleg sé að hugsa til þess að það séu konur sem þurfi að ganga með dáið barn í maganum í nokkra daga áður en þær geti fætt það. „Mér fannst einn dagur meira en nóg. Þetta var mjög súrrealískt. Það hlýtur að vera hægt að setja konur af stað í fæðingu um helgar í þessu eins og öðru.“

Þrátt fyrir að fæðingin hafi tekið á hefði Bjarney ekki viljað missa af því að fá að fæða hana. „Fyrirfram hefði mér þótt það brútal að láta fólk fæða andvana barnið sitt en eftir á þá var ég mjög þakklát fyrir að hafa fengið það. Það var mjög mikilvægur og heilandi partur af ferlinu, jafn skrýtið og það hljómar. Þegar ég var búin að fæða hana kom ótrúleg ró yfir mig. Ég settist upp vildi fá að taka hana í fangið. Í staðinn fyrir að algjörlega að brotna kom ákveðin sátt.“

Sif var jarðsett hjá móður Bjarneyjar sem lést árið 2015.
Sif var jarðsett hjá móður Bjarneyjar sem lést árið 2015.

Ekki raunhæfar kröfur gerðar til kennara

Bjarney vonast til þess að verða að minnsta kosti varaþingmaður en hún er í 2. sæti fyrir Viðreisn í Norðvesturkjördæmi. Auk heilbrigðimála þá eru það ekki síst menntamálin sem eru henni kær sem kennara. Hún segir margt mætti betur fara í skólamálum, til að mynda hafi skóli án aðgreiningar ekki virkað sem skildi.

„Það er ákveðinn hópur barna sem skólakerfið er ekki að ná að mæta. Það eru börnin sem eru út fyrir að kassann. Þú ert kannski einn kennari með 20 börn í stofu og átt að geta mætt þeim öllum á þeirra forsendum. Þetta er fjölbreyttur nemendahópur með margþætt vandamál,“ segir Bjarney. Kennarar geti ekki líka geta gengt hlutverki sálfræðinga, þroskaþjálfa, talmeinafræðinga, félagráðgjafa og annarra fagaðila sem börnin þurfa á að halda. „Þetta eru ekki raunhæfar kröfur á kennara, enda eru kennarar að brenna út á ljóshraða og börnin að þjást. Mér finnst líka skrítið hvað margir kennarar útskrifast og hætta eftir ár í kennslu. Það er áhyggjuefni. Þá er eitthvað að í starfsumhverfi,“ segir Bjarney að lokum staðráðin í því nýta sína reynslu til þess að hjálpa öðrum á Alþingi.

Reynsla Bjarneyjar af heilbrigðskerfinu og úr skólakerfinu er meðal þess …
Reynsla Bjarneyjar af heilbrigðskerfinu og úr skólakerfinu er meðal þess sem ýtti henni út í stjórnmálin. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is