Eliza Reid ræsti lestrarkeppni grunnskólanna

Eliza Reid ásamt Emilíu Guðnýju Magnúsdóttur og Lúkas-Matei Danko nemendum …
Eliza Reid ásamt Emilíu Guðnýju Magnúsdóttur og Lúkas-Matei Danko nemendum Smáraskóla. Ljósmynd/Mummi Lú

Eliza Reid, forsetafrú Íslands, ræsti Lestrakeppni grunnskólanna í gær í Smáraskóla. Þetta er í þriðja skipti sem keppnin sem fer fram en það er Almannarómur sem stendur fyrir keppninni ásamt Háskólanum í Reykjavík. 

Keppnin stendur yfir í viku. Sem fyrr gengur keppnin út á að lesa setningar inn í gagnasafn, í gegnum vefinn samrómur.is. Upptökurnar verða svo notaðar til að þróa máltæknilausnir sem kenna tölvum og tækjum að skilja íslensku.

„Nemendur, foreldrar og starfsfólk skóla geta lesið inn fyrir sinn skóla. Samrómur hvetur alla til að taka þátt því miklu skiptir að fá framlög frá breiðum hópi og tryggja þannig að tæknin skilji raddir og framburð allra.

Nemendur, foreldrar og starfsfólk eru hvattir til þess að lesa …
Nemendur, foreldrar og starfsfólk eru hvattir til þess að lesa inn setningar á Samromur.is. Ljósmynd/Mummi Lú

Viðtökur við síðustu lestrarkeppni Samróms fóru fram úr björtustu vonum. Alls tóku um 6.000 einstaklingar þátt fyrir hönd 136 skóla og lásu rúmlega 776 þúsund setningar. Smáraskóli las allra skóla mest í síðustu keppni eða rúmlega 131 þúsund setningar. Við erum því afar spennt fyrir komandi keppni og vonumst eftir þátttöku sem flestra skóla.

Samrómur er raddgagnasafn á vegum Almannaróms - Miðstöðvar máltækni og Háskólans í Reykjavík. Tilgangurinn með söfnum Samróms er að safna raddgögnum sem máltæknilausnir verða byggðar á. Þannig tryggjum við að tölvur og tæki sem við tölum við muni skilja íslenskt talmál,“ segir í fréttatilkynningu. 

Keppnin var sett formlega í Smáraskóla í gær. Hér sést …
Keppnin var sett formlega í Smáraskóla í gær. Hér sést Eliza Reid forsetafrú ásamt Jóhönnu Vigdísi Guðmundsdóttur framkvæmdastjóri Almannaróms og Berki Vígþórssyni skólastjóra Smáraskóla. Ljósmynd/Mummi Lú
mbl.is