Flutti úr borginni til að verja meiri tíma með syni sínum

Sabína Steinunn Halldórsdóttir leggur mikla áherslu á útiveru í uppeldinu.
Sabína Steinunn Halldórsdóttir leggur mikla áherslu á útiveru í uppeldinu. Ljósmynd/Aðsend

Sabína Steinunn Halldórsdóttir er með meistaragráðu í íþrótta- og heilsufræðum og hefur mikinn áhuga á hreyfifærni og þroska barna. Áhuginn margfaldaðist bara þegar hún eignaðist son sinn en draumurinn um barn varð að veruleika fyrir þremur árum þegar Sabína eignaðist son ein. Litla fjölskyldan veitt fátt betra en að verja tíma úti í náttúrunni. 

„Ég hef alla tíð verið mjög mikill barnavinur og draumurinn var alltaf að eignast mína eigin fjölskyldu. Draumurinn rættist loks árið 2019 eftir langan tíma þegar ég eignaðist son minn ein. Ég er svokölluð einstök móðir,“ segir Sabína en hún eignaðist drenginn sinn ein með aðstoð Livio. „Hann er mín stærsta gjöf og hinn besti ferðafélagi í lífinu.“

Sabína segir að lífið hafi breyst til hins betra þegar hún öðlaðist loksins það hlutverk sem hana hafði dreymt um, að verða móðir. „Að heyra litla mannveru segja „mamma“ í fyrsta skiptið er dásamleg upplifun. Ég varð meyrari og einhvern veginn fóru litlu hlutirnir að skipta meira máli enda ekkert skemmtilegra en að verja tíma úti í náttúrunni með litla manninum mínum.“

Sonurinn er stærsta gjöf Sabínu.
Sonurinn er stærsta gjöf Sabínu. Ljósmynd/Aðsend

„Takk fyrir að leika við mömmu úti“

Sabína leggur einmitt mikla áherslu á tíma í náttúrunni í uppeldinu. „Ég legg ríka áherslu á tíma, tækifæri og umhverfi. Ég vil verja eins miklum tíma með honum og ég get, vel tíma með honum fram yfir flest annað. Við veljum náttúruna helst alla daga í einhverju formi hvort sem ég er að kynna hann fyrir vetrasporti, sundi eða leyfum ævintýrunum að koma til okkar í frjálsum leik úti í náttúrunni. Á sama tíma vel ég orðin mín vel og er dugleg að rækta hjá honum þakklæti. Mér sýnist að mér hafi tekist það nokkuð vel því honum er hrósað fyrir að vera kurteis. Eftir ljúfa samveru úti segi ég oft „takk fyrir að leika við mömmu úti“. Ég tala um veðrið og hversu gott það sé að vera úti í fersku lofti. Það sem þú elskar hlúir þú betur að og mig langar að honum þyki jafn vænt um náttúruna og mér þykir. Hann er athugull á umhverfi sitt og ég er markvisst að kynna hann fyrir því sem verður á vegi okkar.“

Hafðir þú alltaf áhuga á þroska barna eða kom það með móðurhlutverkinu?

„Áhuginn hefur alltaf verið til staðar og allt mitt nám litast af þessu áhugamáli. Ég er þyrst í fróðleik sem snýr að börnum og uppeldi. Að fylgjast síðan með eigin barni vaxa og takast á við þroska áfanga er dásamlegt ferðalag. Að upplifa með drengnum hvað hann er að upplifa, sjá, kanna, máta sig í aðstæður og skilja er eitt stórt ferðalag. Sjá fræ sem ég hef sáð hjá honum blómstra og verða að einhverskonar töfrum. Hverjum þykir sinn fugl fagur er sagt en öllum mæðrum þykir sinn sá dásamlegasti ekki satt?“

Mæðginin gera margt skemmtilegt saman úti.
Mæðginin gera margt skemmtilegt saman úti. Ljósmynd/Aðsend

Forgangsraðaði upp á nýtt

Það getur verið erfitt að koma gæðastundum með barninu fyrir í þéttbókaðri dagskrá hversdagsins. Sabína þekkir þetta af eigin raun og forgangsraðaði hún upp á nýtt þegar hún varð móðir. 

„Ég ákvað þegar drengurinn var rúmlega árs gamall að breyta um takt í lífinu og flytja út á land. Selfoss varð fyrir valinu þar sem ég er nær hluta af stórfjölskyldunni og vinnan mín gefur mér svigrúm til að mæta þörfum okkar fjölskyldunnar betur. Ég vildi ekki eyða jafn miklum tíma og raun bar vitni á umferðarljósum í Reykjavík. Hér get ég tekið ákvarðanir með stuttum fyrirvara og til dæmis á fimm mínútum verið komin í sund að leika okkar, farið í fjöruferð eða sótt falleg skóglendi hér í grennd.

Vissulega er ekki alltaf tími en ég legg mig fram við að tíminn milli leikskóla og nætursvefns er hans og auðvitað um helgar. Í mínu tilviki reyni ég að forgangsraða og gríp frekar í vinnu á kvöldin þegar hann er farinn að sofa. Ég virkja hann líka í heimilisstörfum engin kvöð en bjóði hann fram aðstoð sína þigg ég hana með þökkum.“

Forréttindi að fjalla um ástríðu sína

Sabína heldur úti síðunni Færni til framtíðar þar sem hún deilir skemmtilegum hugmyndum sem tengjast þroska barna. Hún segir verkefnið hafa byrjað í meistaranáminu sínum en auk sýnileika á samfélagsmiðlum hefur hún gefið út bækur og heldur fyrirlestra. 

„Um árabil vann ég í grunnskóla í Reykjavík þar sem ég fékk tækifæri til að þróa hugmyndafræði mína enn frekar. Ég legg áherslu á einfaldleikann með Færni til framtíðar, sjá fegurðina í litlu hlutunum og örva þannig hreyfifærni, heilsu og allan þroska barna. Ég fjalla ítarlega um skynþroska barna og áhrif hreyfingar og skynfæranna á alla þroska þætti. Ég hef gefið út þrjár bækur sem allar hafa það að markmiði að örva hreyfifærni barna úti í nánasta umhverfi. Ein bókanna hefur verið þýdd yfir á norsku og notuð í leikskólum í Noregi. Ég fæ allskonar skemmtileg verkefni í gegnum Færni til framtíðar en aðal viðfangsefnið er fræðsla og kennsla. Held fyrirlestra vítt og breytt um landið og aðallega fyrir starfsfólk leik- og grunnskóla, foreldrafélög og verið fengin til að halda fyrirlestra almennt um lýðheilsu hér og þar, ólíklegustu stöðum. Alltaf jafn gaman – enda forréttindi að fá að tala kannski í tvo, þrjá tíma um ástríðu sína.“

Sabína fer oft í skógarferðir með syni sínum.
Sabína fer oft í skógarferðir með syni sínum. Ljósmynd/Aðsend


Af hverju er mikilvægt að þjálfa hreyfifærni í náttúrunni? 

„Að búa við góða hreyfifærni er færni til framtíðar. Við erum að byggja grunninn fyrstu æviárin og reisuleg og góð hús standa af sér meiri vind ekki satt. Góð hreyfifærni leiðir af sér meiri virkni, börn hreyfa sig meira og virkni á yngri árum hefur forspárgildi um virkni á efri árum. Að vera virk gerir það að verkum að börn verða forvitnari um umhverfi sitt, það er fátt sem stoppar þau og aðgerðarleysi er minna. Hreyfifærni hefur áhrif á félagsleg tengsl og almenna vellíðan. Það að takan virkan þátt í umhverfi sínu leiðir af sér meira áreiti og meiri reynslu. Miðtaugakerfið okkar er að safna hvað mestum upplýsingum snemma á ævinni – safnar upplýsingum í gegnum skynfærin og hreyfingu.

Náttúran er mér afar hugleikin í öllu þessu ferli því þar fáum við öll jákvæða orku, jákvæð áreiti á öll skynfærin okkar og oftar en ekki öll á sama tíma. Ég geng út frá átta skynfærum flestir þekkja þessi hefðbundnu fimm það er sjónskyn, heyrnarskyn, lyktarskyn, bragðskyn og snertiskyn. Við þessi fimm bætast svo rýmisskyn, jafnvægisskyn og vöðva- og liðamótskyn. Grunnhreyfingar okkar eru fjórtán sem ég geng út frá og í bland við skynfærin þá öðlast barn meiri reynslu og betri grunn sem hefur áhrif á allar íþróttagreinar velji barn að feta þá leið.“

Það þarf ekki alltaf flugeldasýningu til þess að hafa gaman.
Það þarf ekki alltaf flugeldasýningu til þess að hafa gaman. Ljósmynd/Aðsend

Frjáls leikur er mikilvægur

Sabína segir frjálsan leik mjög mikilvægan og hefur ásamt öðrum mæðrum sem eru hluti af Leiksamfélaginu á Instagram lagt áherslu á það. Hún segir frjálsan leik mjög mikilvægan fyrir börn. 

„Ég hef verið lánsöm að hitta foreldrafélög og halda fyrirlestra um Færni til framtíðar og mikilvægi samverunnar. Við í Leiksamfélaginu höfum lagt okkur fram við að halda miðlum okkar á jákvæðum nótum og koma með allskonar fróðleik og hugmyndir til forráðamanna barna. Tilfellið er að auðvitað að fróðleikurinn nær til þeirra sem vilja fræðast. Það er erfiðara að ná til þeirra sem eru kannski ekki að verja tíma úti í náttúrunni svo dæmi sé tekið.

Því miður er frjáls leikur barna á undanhaldi og börn eyða sífellt orðið minni tíma í slíkan leik. Frjáls leikur á ekki að vera einhver lokaafurð hann á að hafa meira vægi í lífi barna. Dagskrá barna í dag er mun þéttari en áður fyrr. Ég er mjög hlynnt skipulögðu íþróttastarfi hafandi starfað í íþróttahreyfingunni síðustu tíu ár. Hinsvegar er líkamleg virkni hvað mest þegar þau fá að leika sér frjálst án stjórnunnar. Leikurinn er þeirra og þau ráða för. Að sitja löngum stundum við skjá er ekki frjáls leikur.

Á sama tíma eru til foreldar sem eru mjög uppteknir af eigin áhugamálum og virkja kannski börnin ekki nógu mikið með sér. Vitanlega er þá farsælast að fara á forsendum barnanna en ekki hraða foreldrann og börn þjálfum við aldrei eins og litla fullorðna. Við getum alveg fengið útrás fyrir okkar hreyfingu úti með börnum okkar. Þau eru bara einu sinni lítil – stækka furðu hratt.“

Mæðginin hafa verið að prófa sig áfram í vetrarírþóttum í …
Mæðginin hafa verið að prófa sig áfram í vetrarírþóttum í vetur. Það þarf ekki að vera sól og sumar til þess að fara út að leika. Ljósmynd/Aðsend

Dagskráin þarf ekki að vera flókin

Sabína segir alls ekki of leiðinlegt veður á Íslandi til þess að vera mikið úti, það skiptir bara máli að hafa heilbrigða skynsemi í huga. „Að græja sig út í úrhellisrigningu er líka reynsla og hefur áhrif á til að mynda seiglu. Að takast á við náttúruna eins og hún mætir okkar hefur áhrif á hugrekki. Ég legg það í vana minn að tala veður aldrei niður þó það sé misgott. Forsenda þess að njóta úti í misjöfnu veðri er að vera klæddur og skóaður eftir veðri. Sléttbotna skór og ökklasokkar duga skammt í mjúkum púðursnjó.“

Hvernig er uppskriftin að góðri helgi í mars hjá fjölskyldunni?

„Hvað viljum við mörg innihaldaefni? Ég mæli með því að stilla væntingum í hóf, börn þurfa ekki flugeldasýningu alla daga eins og ég segi svo oft. Opna dyrnar og fara í gönguferð með gott nesti í farteskinu getur orðið að risastóru ævintýri áður en þú veist af. Að taka þátt í hugarheimi barna og leyfa þeim að vera leiðangursstjórar er frábær uppskrift. Gæðastundir skipta máli, vera til staðar í núinu. Við sækjum allskonar skóglendi í nágrenni okkar og eigum heiti yfir hvern skóg Litla apaskóg, Stóra apaskóg, Bátabrúarleiðin og Fuglafjara. Sund er líka alltaf frábær kostur, þar erum við í algjörri núvitund og laus við áreiti.

Fjölskylduáhugamál eru allskonar en ég hvet fólk til að skapa sínar hefðir og auðvitað eitthvað sem felur í sér hreyfingu og útiveru. Enda hafa ungmenni sagt sjálf í rannsóknum hjá Rannsóknum og greiningu að besta forvörnin gegn áhættuhegðun sé samvera fjölskyldunnar.“

mbl.is