„Matvendni getur orðið fjöl­skyldu­vanda­mál“

Sigrún eldar matinn á heimilinu frá grunni og notar hann …
Sigrún eldar matinn á heimilinu frá grunni og notar hann að jafnaði daginn eftir í nesti fyrir börnin og fleira áhugavert.

Sigrún Þorsteinsdóttir, barna- og heilsusálfræðingur við Barnaspítala Hringsins, er með sex háskólagráður. Hún er einnig áhugakokkur sem brennur fyrir að koma upplýsingum til almennings um mat og matarvenjur. Hún hefur gefið út metsölubókina Café Sigrún og haldið úti CafeSigrun-vefnum frá árinu 2003. Þar deilir hún uppskriftum og allskonar fróðleik um mat. Áhugi hennar á mat tengist vinnunni hennar en börn með taugaþroskaraskanir á borð við ADHD og einhverfu eru matvandari en önnur börn. Allt að 70-80% barna með einhverfu eiga erfiðara með að borða alla fæðu en önnur börn. Vegna þessa geta þau farið að sýna hegðun sem foreldrarnir ekki skilja í tengslum við matmálstíma og þá getur verið gott að leita í smiðju Sigrúnar með ráð sem virka. 

Sigrún er með glóðvolga doktorsgráðu í heilsueflingu frá Háskóla Íslands. Hún er þó hvergi nærri hætt rannsóknum og heldur áfram að sinna rannsóknum á matvendni barna ásamt Önnu Sigríði Ólafsdóttur prófessor í næringarfræði sem jafnframt var leiðbeinandi hennar í náminu.

„Á Barnaspítala Hringsins er ég sálfræðingur í offituteymi barna. Ég er einnig í Heilsuskólanum og sinni stundakennslu við Háskóla Íslands. Það má því segja að líf mitt snúist um mat, heilbrigði, börn og vellíðan,“ segir Sigrún og útskýrir hvað veldur áhuga hennar á þessum málaflokkum. „Í langan tíma hef ég haft áhuga á þessum þremur mikilvægu stoðum lífsins. Okkur er auðvitað nauðsynlegt að nærast, en sífellt er að koma betur í ljós að það er ekki nóg að borða bara „eitthvað“. Við getum nefnilega borðað okkur til betri heilsu en við getum líka farið í hina áttina, borðað okkur til slæmrar heilsu. Það er allt of auðvelt í nútíma samfélagi. Vellíðan kemur svo af sjálfu sér ef við náum þessu jafnvægi, að sinna líkama og sál. Ég hef líka mikinn áhuga á hvernig streita truflar matarvenjur og við sjáum allt of oft að fólk undir álagi kýs að leita í skjótfengna orku sem aftur getur haft slæm áhrif á heilsuna og þannig valdið meira álagi og vítahring,“ segir hún. 

 Hrikalega sorglegt að fylgjast með innkaupum ungmenna

Sjálf borðar hún nánast allt nema kjöt, þorramat, skyndibita, sælgæti og geitaost. 

„Ég hef verið grænmetisæta í yfir 20 ár og hef ekki borðað sælgæti í 36 ár. Matinn elda ég sem oftast frá grunni, úr alvöru hráefnum og ég kaupi gríðarlegt magn af ávöxtum og grænmeti í viku hverri. Ég baka súrdeigsbrauðið mitt sjálf og útbý nesti og hádegismat fyrir börnin í skólann. Það tekur tíma, en er alveg þess virði og skilar sér í bættri líðan og heilsu.“

Hvaða skoðun ertu með á matarvenjum og hvað getum við gert til að skoða það hjá okkur?

„Mínar matarvenjur hafa verið eins í alveg ofboðslega mörg ár og ég aðhyllist ekki skyndilausnir, kúra, átak eða föstur. Það er bara ekki minn stíll þó svo að fólk hafi oft beðið mig um ráð á þessum nótum. En það er eitt svona gegnum gangandi sem hefur verið að trufla mig mikið síðustu árin. Við borðum of mikið af því sem myndi flokkast sem „ekki-matur”. Þegar maður gengur inn í margar verslanir, hér á landi og víða annars staðar, blasir við urmull af vörum sem flokkast ekki undir mat í sjálfu sér. Þetta eru mikið unnin matvæli (e ultra-processed food) og er ég í miklum mótþróa gagnvart öllu framboðinu sem blasir við börnunum og sérstaklega unglingunum. Þetta er erfitt fyrir þá sem eru að taka ákvarðanir um mat og verða beinlínis áttavilltir, því markaðssetningin er mjög öflug. Það er hrikalega sorglegt að fylgjast með innkaupum ungmenna í hádeginu sem oftar en ekki eru orkudrykkir eða gosdrykkir, tilbúnar samlokur og orku- eða prótínstykki sem er allt ofboðslega mikið unnin vara og í raun enginn uppruni í þeim mat, ólíkt því þegar maður horfir ofan í pott af heimatilbúnum pottrétti þar sem afgangurinn getur vel farið í nestisboxið daginn eftir. Ég trúi því staðfastlega að maður eigi ekki að þurfa að kunna efnafræði til að skilja hvað við erum að setja ofan í okkur,“ segir Sigrún. 

Hvað með matvendni?

„Ég gæti gefið út sértakt sérstakt aukablað til að fjalla um þetta hugðarefni sem ég hef verið með á heilanum síðustu árin! Öll börn eru dyntótt eða matvönd frá um 2-6 ára. Um fjórðungur barna heldur áfram með einhvers konar tiktúrur, þannig að það truflar fjölskyldulífið jafnvel, en hjá börnum með taugaþroskaraskanir eins og sem dæmi ADHD og eða raskanir á einhverfurófi þá er hlutfallið langtum hærra. Allt að 70-80% hjá börnum með einhverfu svo dæmi séu tekin. Hjá þeim börnum dregur síður úr matvendni og af ýmsum ástæðum eiga þau erfiðara með að borða alla fæðu. Sérstaklega ávexti, grænmeti, og trefjaríka fæðu eins og heilkorn. Mikið matvönd börn eru þau sem vilja helst bara hvítt brauð, kex, hvítt pasta, hvít grjón og það sem einfalt og fyrirhafnarlaust er að tyggja. Nokkur hluti barna vill auðvitað frekar þessar matvörur, en börnin sem eiga hvað erfiðast eru börn með matvendni og þessar raskanir. Þau verða miklu fastari í viðjum erfiðra matarvenja.“

Börn geta átt erfitt með að kyngja mat

Sigrún segir börn stundum með erfiða hegðun vegna þess að þau eru að forðast matinn sem þau vilja ekki borða. 

„Þau eru jafnvel mjög kvíðin ef samskiptin í kringum mat eru orðin erfið á heimilinu og mikil pressa á að smakka og borða. Það getur farið alveg í hina áttina og þau borða jafnvel enn færri matartegundir. Matvendni er nefnilega nokkuð mikið fjölskylduvandamál þegar hún er orðin alvarleg. Ég segi alltaf að sálfræði og næringarfræði séu nátengd því ef börnin borða ekki, eða nærast illa,hvort sem það er kvíði eða samskiptavandi þá er oft sem dæmi leitað til sálfræðinga. Svo getur það líka verið að börnin eigi erfitt með að kyngja mat og verða þess vegna hrædd og þá er sem dæmi gott að leita til lækna eða talmeinafræðinga og finna út hvort vandinn liggi á því svæði. Það er gott að geta leitað til ólíkra aðila sem hafa sínar lausnir til að aðstoða. Þannig krefst matvendni þverfaglegrar nálgunar, ekkert ósvipað og offita barna gerir það líka, enda stundum nátengd fyrirbæri.“

Heldur úti einum elsta matarvef landsins

Hvaða hráefni ertu mest fyrir sjálf og hvernig tengir þú vellíðan við mat?

„Ég er með grænt og gróft fyrst og fremst en er líka mikið fyrir fisk og geri til dæmis sjálf mitt eigið sushi sem ég útbý eins og meðalstórt mötuneyti mjög reglulega. Ég geri aldrei minna en 200 bita í einu fyrir fjölskyldu og vini. Vellíðan í tengslum við mat er að borða hæfilega mikið, í góðum félagsskap og forðast skyndibita. Svo er auðvitað ekkert betra en að ferðast á fjarlægar slóðir og borða nýjan mat. Við höfum ferðast töluvert til Austur-Afríku og maturinn þar hentar okkur vel, þar sem mikið er af grænmeti, baunum og hráefnum sem fara beint úr jörðinni á diskinn.“

Allir sem hafa áhuga á hollu mataræði og heilsusamlegum lífsháttum …
Allir sem hafa áhuga á hollu mataræði og heilsusamlegum lífsháttum kannast við CafeSigrun-vefinn, þar sem Sigrún Þorsteinsdóttir hefur lengi skrifað um heilsu og matargerð og birt uppskriftir undir kjörorðinu Hollustan hefst heima. Í bókinni hennar sem gefin var út árið 2015 má finna fjölda girnilegra uppskrifta að góðgæti fyrir fjölskylduna. Allar eru þær lausar við hvítan sykur, hveiti og ger og þeim fylgja merkingar þar sem fram kemur hvort rétturinn er glútenlaus, vegan eða hentar þeim sem vilja forðast egg, mjólkurvörur, fræ eða hnetur.

Árið 2015 gaf Sigrún út uppskriftabók sem varð metsölubók. Café Sigrún bókina sem margir muna eflaust eftir.  

„Ég gaf út uppskriftabókina mína árið 2015 sem varð metsölubók svo það er aldrei að vita hvað maður gerir svona þegar maður er búinn með doktorsritgerðina. Ef mig vantar áskoranir er reyndar kominn tími á að uppfæra CafeSigrun vefinn minn. Ég opnaði hann árið 2003 svo hann er að verða 20 ára gamall á næsta ári, einn elsti matarvefur landsins. Ég hef verið nokkuð dugleg að setja inn efni á Instagram og Facebook en þar er ég með yfir 16 þúsund fylgjendur. Þetta er auðvitað stórkostlega dýrt áhugamál því ég er ekki í samstarfi við neinn nema manninn minn sem forritar vefinn og fær greitt í kökum og öðru góðgæti! Það er áhugavert að fylgjast með þróun matarvefja síðustu ára því ég hef engan áhuga á að létta fólk þó ég hafi verið beðin um slík ráð og ég hef engan áhuga á skyndilausnum. Ég er sem sé afleitur áhrifavaldur.“

Var að klára sjöttu háskólagráðuna sína

Um hvað snérist doktorsverkefnið þitt?

„Um matvendni barna fyrst og fremst. Við gerðum rannsókn á börnum þar sem foreldrar tóku þátt líka og sáum að það má draga úr matvendni með þeim aðferðum sem við beittum og meðal annars hjá hjá börnum með taugaþroskaraskanir. Inn í verkefnið fléttaðist svo næringarfræðin með Önnu Siggu, sálfræðin sem er minn grunnur en einnig var Urður Njarðvík prófessor í sálfræði meðleiðbeinandi, og í doktorsnefndinni minni var einnig Ragnar Bjarnason prófessor í læknisfræði. Þetta var ótrúlega flott teymi sem sameinar það sem í rauninni þarf fyrir börn með matvendni.“

Mælir þú með námi af þessum toga fyrir fleiri?

„Mér finnst alltaf gaman að læra eitthvað nýtt og kannski ekki skrýtið að þetta sé núna sjötta háskólagráðan mín. Ég er líka með BA-gráðu í grafík, MA-gráðu í hönnun fyrir gagnvirka miðla og svo BSc í sálfræði, MSc í heilsusálfræði, Cand Psych í klínískri sálfræði og svo PhD í heilsueflingu.

Það var Anna Sigga sem tosaði mig í námið en við höfum unnið saman lengi á Barna-spítalanum. Ég þurfti að hugsa mig aðeins um, svona fjölskyldunnar vegna, en er með frábæran stuðning í börnum og maka og gat að lokum ekki annað en sagt já. Það er mjög áhugavert og gefandi að klára svona nám en líka hellings vinna. Ég las einhvern tímann að maður þyrfti að vera nógu einfaldur til að hefja doktorsnám, en nægilega þrjóskur til að klára það. Ég hugsa að það gildi um allar áskoranir auðvitað en það var ljúft að klára.“

Sigrún er einstakur fagmaður en líka mjög fyndin og skemmtileg …
Sigrún er einstakur fagmaður en líka mjög fyndin og skemmtileg kona.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert