„Sveigjanlegasta hlutverk sem ég hef tekið að mér“

Ljósmynd/Aðsend

Athafnakonan Sylvía Briem Friðjónsdóttir og maðurinn hennar, Emil Þór Jóhannsson, eiga tvo stráka. Strákarnir eru sjö og þriggja ára. Sylvía er annar þáttastjórnandi hlaðvarpsins Normsins ásamt Evu Maríu Mattadóttur. Sylvía er þúsundþjalasmiður og hefur í mörgu að snúast alla daga. Hún passar að fjölskyldan og strákarnir hennar séu þó alltaf í forgangi. 

Hvernig breyttist lífið eftir að þú varðst mamma?

„Þetta hlutverk breytti mér á allan hátt og ekkert sem að hefur breytt lífi mínu á jafn góðan hátt. Þetta er að sjálfsögðu mjög krefjandi hlutverk líka. Mér fannst ég fá sterkari tilgang, meiri drifkraft og innilegri hamingju eftir að ég fékk strákana mína á bringuna. Ég lærði að forgangsraða og njóta einfaldleikans sem lífið hefur boðið mér svo fallega upp á.“

Sylvía með öllum strákunum sínum.
Sylvía með öllum strákunum sínum. Ljósmynd/Aðsend

Hvað kom þér mest á óvart?

„Það sem kom mér mest á óvart er hvað þetta hlutverk gaf mér mikið sjálfstraust og drifkraft til þess að afkasta stærri verkefnum. Það er öðruvísi að vinna að einhverju þegar maður er að gera það fyrir börnin sín. Það kom mér líka á óvart hversu krefjandi þetta getur verið. Hvað maður getur fundið fyrir miklu mömmusamviskubiti og komist upp með lítinn svefn. Það kom skemmtilega á óvart hvað ég á innihaldsrík augnablik í hversdagsleikanum eins og þegar maður kíkir í sund eða bara les bækur á kvöldin eftir bað. Hversdagsleikinn hefur svo miklu meiri tilgang.“

Ljósmynd/Aðsend

Hvernig voru meðgöngurnar ?

„Meðgöngurnar gengu misvel, á báðum meðgögnunum fékk ég „allan daginn ógleði“ fram á 16. til 20. viku. Það getur tekið svakalega á. Ég fór í mikla rannsóknarvinnu til að reyna að koma í veg fyrir að upplifa þetta á seinni meðgöngunni en öll þau töfraráð sem ég hafði sankað að mér virkuðu ekki neitt. Þess vegna var ég bókstaflega rúmföst í langan tíma. Þegar ég komst yfir þetta tímabil leið mér mjög vel, ég held mér líði aldrei eins vel. Það kemur ákveðin ró yfir mig og ég kannast ekki við neitt óléttudrama. Ég upplifði reyndar meðgöngueitrun með eldri strákinn minn. Ég gerði margt á seinni meðgöngunni til þess að koma í veg fyrir að það myndi gerast aftur. Ég náði að hreyfa mig reglulega á seinni meðgöngunni fram á síðasta dag og leið almennt ótrúlega vel.“

Var öðruvísi að verða mamma í annað sinn?

„Já það er öðruvísi, í seinna skiptið vissi ég nokkurn veginn í hvað stefndi. Ég var öruggari og rólegri í þessu hlutverki. Mér fannst þægilegt bil á milli strákanna og það vann fallega með okkur. Mér fannst gott að geta talað við eldri strákinn minn og getað útskýrt fyrir honum hvað væri í gangi og leyft honum að taka virkan þátt í því að fá lítið systkini á heimilið. Þessi vinna skilaði sér í ótrúlega fallegu bræðrasambandi sem mér þykir vænt um að fylgjast með.“

Ljósmynd/Aðsend

Varð mikil breyting á heimilislífinu þegar fjölskyldan stækkaði?

„Við vorum komin með frekar þægilega og góða rútínu með eldri strákinn og litli bróðir flæddi skemmtilega inn í þann góða ramma. Ég var alin upp við frekar skýran og mikinn ramma, fannst það alltaf virka frekar vel og reyni að gera það sama á mínu heimili. Sú breyting sem ég finn einna helst fyrir er að maður þarf að muna töluvert fleiri hluti eins og viðburði í leikskóla, skóla, bangsadaga og íþróttaviðburði. Svo er mikið meira áreiti af póstum og upplýsingum sem að maður þarf að setja sig inn í.“

Hvernig gengur að stilla saman vinnu og fjölskyldu? 

„Það er eilífðarvinna að samstilla þetta allt saman. Maður er yfirleitt að vinna einn dag í einu eða viku fyrir viku. Ég held að það sé ekki hægt að vera fullkominn í þessu, ég þurfti bara að horfa öðruvísi á hlutina. Stundum er ég undir meira álagi og næ þá minna að vera heima fyrir eða vera með hausinn 100% hjá strákunum. Mér finnst mikilvægt að koma úr erfiðum álagstörnum með skemmtilegum fjölskyldudögum og samverustundum sem fylla á tankinn hjá öllum. Ég þurfti að leggja svipuna niður og fatta að stundum get ég ekki verið 100% alstaðar. Ég er heppin að strákarnir mínir eiga ótrúlega góðan pabba sem að tekur þá við af mér og þeir njóta sín vel saman. Við pössum alltaf upp á fasta punkta eins og að borða kvöldmat saman. Ég tek yfirleitt kvöldin eins og bað, kvöldlestur og það allra mikilvægasta, koddaspjallið. Ég elska koddaspjallið og að létta aðeins á heilanum hjá strákunum, stundum er hlegið og stundum er grátið. Það þarf bara stundum að fá að losa allt það sem maður er búinn að upplifa yfir daginn. Maður verður bara að reyna að finna einhvern takt sem að virkar og stundum gengur það upp og stundum ekki. Þetta er sveigjanlegasta hlutverk sem ég hef tekið að mér, þetta blessaða móðurhlutverk.“

Ljósmynd/Aðsend

Hvað leggur þú áherslu á í uppeldinu?

„Mér finnst ótrúlega mikilvægt að strákarnir upplifi að það sé tekið eftir þeim og að eiga stund á hverjum degi þar sem við horfum í augun á hvort öðru þegar við spjöllum. Mér finnst mikilvægt að virða tilfinningarnar hjá þeim og að þeir geti tjáð sig um það sem þeir þurfa, þekki tilfinningar sínar og geti þá sagt hvernig þeim líður. Við erum oft með stærri fjölskyldudaga eða helgar þar sem við gerum eitthvað skemmtilegt öll saman. Eitt af því var að prófa allar sundlaugar landsins. Þar getur maður ekki verið með síma og þetta eru oft bestu stundirnar okkar. Við leggjum mikla áherslu á að við erum öll saman í liði og stöndum þétt saman. Strákarnir fá sín hlutverk eftir aldri til að hjálpa til á heimilinu. Við hvetjum strákana líka alltaf til þess að panta matinn sinn sjálfir eða spyrja fyrir sjálfan sig svo þeir geti lært að nota röddina sína. Við höfum líka vanið okkur á að segja fyrirgefðu, ef við Emmi erum ekki upp á okkar besta og finnst óþarfa pirringur bitna á strákunum og eitthvað mætti betur fara. Ég sá líka einhvern tímann að Will og Jada Smith voru með ákveðið svæði þar sem mátti tjá sig um allt án þess að vera gagnrýndur, við höfum verið að vinna með það. Ég hef sérstaklega unnið með það í koddaspjallinu, ég vil að strákarnir mínir geti alltaf leitað til mín og fundið að ég muni standa með þeim.“

Ljósmynd/Aðsend

Hvernig mamma ertu? 

„Ég er mamma sem hvetur til sjálfstæðis, sýni þeim að lífið sé leikur, ég elska óendanlega mikið og fast, hvet strákana í að gera mistök og læra af þeim, reyni að skapa öryggi fyrir mistök sem gengur misvel. Umfram allt er ég besti liðsmaður og ég vil að liðið mitt finni það alltaf. Við erum öll saman í liði!“

Ertu með ráð fyrir nýbakaðar mæður?

„Ég myndi vilja segja: ekki leyfa mömmusamviskubitinu að drepa ykkur alveg, ég fann það sjálf að það getur verið vont að elska svona heitt og mikið. Maður getur dottið ofan í holur og fundist maður alveg ómögulegur. Ég mæli með að dvelja ekki of lengi þar, það er vont og hefur ekkert gott í för með sér. Verið duglegar að biðja um hjálp, ég er ennþá að læra það. Maður fer inn í þetta hlutverk og vill það allra besta fyrir börnin sín og á það til að taka ofurábyrgð á öllu. Ef eitthvað gengur ekki upp eins og maður hafði séð fyrir sér getur maður orðið svekktari út í sjálfan sig. Við munum gera mörg mistök í þessu hlutverki því það er engin ein rétt leið, við missum stundum kúlið og sýnum af okkur leiðinlegar hliðar. Þá er lykill til að leiðrétta skekkjuna, biðjast afsökunar og sjá hvað mætti betur fara.“

Ljósmynd/Aðsend

„Við tókum viðtal við Sæunni Kjartansdóttur og hún sagði að meirihluti samskipta við börn væri að leiðrétta misskilning og eitthvað sem að betur hefði mátt fara. Ég nota koddahjalið í það, ef ég hefði getað verið betri mamma út af þreytu eða tætingi þá segi ég fyrirgefðu og þeir eiga ekkert af því og ég knúsa þá innilega. Svo finnst mér líka mikilvægt að fyrirgefa sjálfri sér, við erum allar að gera okkar besta!“

mbl.is