Augnablikin eru kraftmeiri

„Það sem mér er efst í huga er þakklæti. Ég …
„Það sem mér er efst í huga er þakklæti. Ég er mjög þakklátur einstaklingur í dag,“ segir Arnar Már Ólafsson sem var vart hugað líf eftir hjólreiðaslys. Ljósmynd/Ásdís Ásgeirsdóttir

Varla líður sá dagur að hann hugsi ekki um slysið en í dag er þakklæti honum efst í huga. Hann segist njóta betur hverrar stundar og upplifir lífið sterkar en áður.

Sautjándi september 2015 var dagurinn sem breytti lífi Arnars Más Ólafssonar, ferðamálafrömuðar hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum. Þennan sólríka septemberdag var hann á leið til vinnu á hjóli sínu þegar bifreið var ekið í veg fyrir hann. Tilviljunin ein réði því að hann lifði slysið af en mölbrotinn lá hann á gjörgæslu í mánuð þar sem líf hans hékk á bláþræði.

Nú eru liðin rúm þrjú ár frá slysinu og Arnar Már er á góðum batavegi. Við komum okkur fyrir á rólegu kaffihúsi og tölum um hið örlagaríka slys, lífið og tilveruna. Arnar Már hefur þægilega nærveru og röddin er þýð og mjúk. Það ríkir yfir honum einhver ró og hann segir yfirvegaður frá lífsreynslunni sem breytti sýn hans á lífið til frambúðar.

Féll fyrir hjólreiðum

Arnar Már er Vesturbæingur og gekk hinn dæmigerða menntaveg Vesturbæingsins; nam fræðin í Melaskóla, Hagaskóla og Menntaskólanum í Reykjavík. Þaðan lá leiðin til Frakklands í ferðamálafræði. Eftir sjö ár kom hann heim sprenglærður í faginu og reynslunni ríkari. Fljótlega kynntist hann konu sinni, Steinunni Hildi Hauksdóttur, en saman eiga þau þrjár dætur; tvær nánast fullorðnar og eina ellefu ára.

Um tíma bjó fjölskyldan á Akureyri þar sem hann setti á fót ferðamálafræði í Háskólanum á Akureyri og eftir það starfaði hann mikið sem leiðsögumaður um landið. Í dag er hann einn eigenda Íslenskra fjallaleiðsögumanna og starfar þar sem markaðsstjóri.

Arnar Már hefur alltaf verið mikill útivistarmaður og ávallt stundað hreyfingu af ýmsu tagi. „Ég hef alltaf verið mikið í íþróttum og var mest í badminton sem krakki. En það var bara á veturna og mig vantaði eitthvað til að halda mér í formi á sumrin. Þannig ég byrjaði að hjóla og fór fljótlega að stunda keppnishjólreiðar. Ég fann að þetta átti vel við mig; ég var léttur og úthaldsgóður og með sterka fætur. Þetta stundaði ég í menntaskóla en það fjaraði alveg út þegar ég fór í háskóla úti,“ segir hann.

„Síðan löngu seinna, um 2014, var WOW-hjólreiðakeppnin að festa sig í sessi. Ég hugsaði að þetta gæti verið sniðugt, að búa til lið úr þessum spræku strákum sem voru að vinna með mér. Sumir voru sterkir hjólreiðamenn en aðrir ekki. Þannig að við bjuggum til lið og mönnum sagt að æfa sig. Við hjóluðum nokkrum sinnum saman og svo var bara lagt af stað,“ segir hann og brosir.

„Það kom í ljós að við vorum bara ansi sterkir. Við lentum í sjötta sæti og það kom okkur skemmtilega á óvart. Þetta var ofboðslega gaman og þarna varð ekki aftur snúið. Ég féll alveg fyrir þessu,“ segir Arnar Már.

Upp frá því fór Arnar Már að stunda hjólreiðar af fullu kappi, taka þátt í keppnum og hjóla í vinnuna úr Hafnarfirði og upp á Höfða. „Ég hjólaði þessa svokölluðu flóttamannaleið, fram hjá Vífilsstaðavatni og niður Vatnsenda,“ segir hann og naut sín vel á hjólinu. En einn góðan veðurdag syrti í álinn.

Arnar Már man fyrst eftir sér á gjörgæslu en hann …
Arnar Már man fyrst eftir sér á gjörgæslu en hann var tengdur öndunarvél í þrjár vikur. Kona hans,Steinunn Hildur Hauksdóttir, vék varla frá manni sínum og stappaði í hann stálinu. Ljósmynd/Aðsend

Var eitt stórt spurningarmerki

„Þennan dag, 17. september 2015, var ég á leið í vinnuna. Ég var að koma niður Vatnsendahvarf og það keyrði bíll í veg fyrir mig og ég lenti í þessu hræðilega slysi. Hann var að beygja inn í Ögurhvarf og hann fór fyrir mig og ég dúndraðist á bílinn,“ segir Arnar Már og fer yfir staðreyndirnar því ekki man hann eftir þessu. Dagurinn er nefnilega alveg horfinn úr minni Arnars Más.

Hvað er það næsta sem þú manst?

„Þegar ég opnaði augun á gjörgæslu. Ég sá mjög illa því augun voru svo bólgin. Ég sá konu í hvítum slopp sem horfði á mig og fór. Svo kom konan mín. Ég gat ekki hreyft mig og ekki sagt neitt og var bara eitt spurningarmerki. Ég mundi ekkert eftir slysinu og ekki enn í dag. Heilinn er búinn að þurrka þetta út; búinn að ákveða að þetta sé ekki góð minning.“

Þegar Arnar Már loks opnaði augun var þegar búið að gera tvær tilraunir til þess að vekja hann, án árangurs. „Ég var bara svo þjáður; svo illa brotinn, að það gekk ekki og ég hafði verið svæfður aftur. Ég held að þetta hafi verið þriðja tilraunin og þá voru liðnir 4-5 dagar frá slysinu,“ segir hann.

Meiðslin voru mikil. „Það brotnaði á þriðja tug beina og vinstri öxlin fór í sundur á nokkrum stöðum og eins mjöðmin. Vinstri rifjaboginn mölbrotnaði. Öll rifbeinin vinstra megin tvíbrotnuðu, nema það neðsta. Bæði frá bringubeini og frá hryggjarsúlunni,“ útskýrir hann og blaðamaður kemur varla upp orði.

„Þetta var rosalegt. Höfuðið slapp nokkuð vel, þótt ég hefði fengið mikið höfuðhögg. Hjálmurinn bar þess merki,“ segir Arnar Már. Hann segir innvortis meiðsl hafi verið allveruleg. „Vinstra lungað kramdist allt og lagðist saman en fyrir einhverja ótrúlega lukku rifnuðu engin önnur líffæri. Stubbarnir úr rifbeinunum stungust ekki á ranga staði. Hjartað slapp, mænan slapp og öll líffærin, fyrir utan lungað. Hendur og fætur sluppu,“ segir hann.

Hittir þú einhvern tímann þennan bílstjóra?

„Nei. Ég leitaði hann aldrei uppi og hef í sjálfu sér enga þörf fyrir að heyra í honum. Ég er samt hissa á því að hann hafði aldrei samband. Hann var klárlega í órétti og varð valdur að þessu slysi, óvart. Ég hefði sjálfur haft samband ef ég hefði lent í þessu.“

Tvísýnt í þrjár vikur

Arnar Már segir að beinbrotin hafi verið látin gróa af sjálfu sér. „Áhyggjuefnið var innvortis blæðingar. Ég held að ég hafi þegið tólf lítra af blóði. Það stoppaði ekkert. Það var alltaf verið að setja nýja poka,“ segir hann og man óljóst eftir þessu. „Ég er þarna á öflugum morfínskammti og var að vakna og sofna á víxl. Ég var í öndunarvél í þrjár vikur.“

Arnar Már staldrar við um stund. Fær sér sopa af sódavatni og strýkur um augun. Það tekur á að rifja upp þessa verstu daga lífs hans.

„Rosalegt sko. Ótrúleg lífsreynsla.“

Hvað var það fyrsta sem þú hugsaðir?

„Hvað er ég að gera hérna? Af hverju er ég hér, hvað gerðist? Ég náði að hreyfa varirnar og mynda orðin: hvað gerðist? Konan mín var búin að undirbúa þetta augnablik mjög vel. Hún tjáði mér hvað hefði gerst og róaði mig strax niður. Hún sagði strax: „Allt mun gróa. Þetta verður í lagi.“ Ég var aldrei hræddur, ég var aldrei hræddur í gegnum allt ferlið. Alltaf rólegur og aldrei í vafa um að þetta myndi verða í lagi,“ segir hann og nefnir að kona sín hafi verið hans stoð og stytta í gegnum allt ferlið.

„Steinunn hélt mér rólegum í gegnum allt ferlið og ég lagði allt traust mitt á hana. Þetta var mjög tvísýn barátta, í þrjár vikur í rauninni. Steinunn kom á hverjum morgni í óvissu um hvort ég væri lifandi. Ég fékk mjög heiftarlega lungnabólgu sem kom dálítið aftan að þeim því líkaminn sýndi góða súrefnismettun. Ég var í mjög góðu formi þarna sem hefur líklega bjargað lífi mínu. En þegar þeir áttuðu sig á því hvað lungnabólgan var orðin slæm sögðu þeir konu minni að búa sig undir það versta; þeir voru ekki vissir um að ég myndi hafa það af,“ segir Arnar Már.

Hann segir að Steinunn hafi fundið á sér að eitthvað væri ekki eðlilegt og viljað að læknarnir athuguðu betur lungun.

„Hún fann það á lyktinni. Það var einhver önnur lykt af mér og annar litarháttur og henni fannst einhver undarleg ró yfir mér. Læknarnir voru tregir til að mynda mig því það var svo mikið álag að setja mig í myndatöku. Þeir þorðu ekki að hreyfa við mér. Hún gaf sig ekki og bað þá um að mynda lungun en þeir voru tregir til. Svo kom annar læknir á vakt og hann tók þá ákvörðun að senda mig í skannann. Og þá kom ógeðið í ljós, að vinstra lungað var orðið eins og grá tuska, helsjúkt. Og sýkingin var komin í hægra lungað líka. Og það var þarna sem þeir sögðu við konuna mína að brugðið gæti til beggja vona.“

Vinstra lungað var mjög illa farið og var um tíma spurning hvort þyrfti að fjarlægja hluta þess. Það fór þó ekki svo.

„Svo batnaði þetta bara svo hratt! Læknarnir komu stundum hlaupandi með nýjustu myndir og voru hissa á batanum.“

Arnar Már er sannfærður um að innsæi Steinunnar hafi skipt sköpun. „Ég held að hún hafi þarna bjargað lífi mínu. Því ef þetta hefði komið í ljós aðeins seinna er ekki víst að það hefði verið hægt að snúa við blaðinu,“ segir hann.

„Það var rosalegt álag á fjölskylduna; sérstaklega konu mína. En dætur mínar þrjár vissu ekki hversu tvísýnt þetta var, því var haldið frá þeim.“

Einu ári eftir slysið örlagaríka birti Steinunn færslu á Facebook og með henni svarthvíta ljósmynd sem birtist hér með viðtalinu. Þar skrifar hún: „Eitt ár, 17. september, síðan við vorum þarna, ástin mín, og þú hræddir okkur í drasl. Það hefur ekki einn dagur farið í sjálfsvorkunn, allavega ekki hjá þér (pinkupons hjá mér). Þú ert búinn að gera kraftaverk á þessu ári, algjör hetja, og innblástur fyrir okkur hin venjulega fólkið um dugnað, æðruleysi, hugrekki og þakklæti.“

Arnar Már er farinn að stunda hjólreiðar aftur af fullu …
Arnar Már er farinn að stunda hjólreiðar aftur af fullu kappi þótt þrekið sé minna en áður. Ljósmynd/Aðsend

Var aldrei hræddur

Alls var Arnar Már fjórar vikur á gjörgæslu, þar af þrjár í öndunarvél. Því næst var hann á lungnadeild í rúma viku og þaðan var hann lagður inn á Grensásdeild. Þar lá hann inni í nokkrar vikur í endurhæfingu og hélt svo áfram í æfingum á göngudeildinni fram í janúar 2016.

Batinn kom hægt og bítandi. Arnar Már hafði lést heilmikið og segist hafa verið eins og beinagrind. Mátturinn var lítill sem enginn en kom til baka með tímanum.

„Ég gat ekki gengið fyrst eftir slysið. Fyrsti göngutúrinn var á lungnadeildinni, um fimm vikum eftir slys. Þá var ég í göngugrind með hjúkrunarfræðinga sitt hvorum megin við mig og annan fyrir aftan mig með hjólastól til þess að grípa mig. Ég gekk um sex metra áfram og sex metra til baka. Þetta var mikið móment.“

Varstu mikið kvalinn?

„Ég var ofboðslega lyfjaður. Mér leið aldrei illa, var aldrei kvalinn. Það er það merkilega við þetta. Það sem ég hafði áhyggjur af á þessum tíma var að ég yrði verkjasjúklingur alla ævi. Þegar vöðvar og vöðvafestingar færast til svona mikið þá kallar það á verki, og verkir þreyta. Í dag er ég ekki þjáður verkjasjúklingur þótt ég finni vissulega fyrir þessu. Þetta minnir á sig og ég þarf að passa mig en ég tek þátt í lífinu af fullum krafti,“ segir hann.

„Þú sérð það ekki utan á mér í dag en nuddarar hafa gaman að því að nudda mig því vöðvafestingar eru allar á vitlausum stöðum og ég er allur skakkur.“

Arnar Már segir að læknar og allt starfsfólk spítalans hafi reynst sér einstaklega vel og fær það seint fullþakkað. „Allt starfsfólkið snerist í kringum mig og gerði allt fyrir mig.“

Hann segist hafa verið einbeittur að ná sér sem fyrst. „Ég setti bara undir mig hausinn og var aldrei hræddur. Ég hef sjaldan verið eins einbeittur og í þessum bata. Hjólin voru alltaf hvatning. Það var mikill sigur þegar ég gat sest á hnakkinn á þrekhjóli,“ segir hann og segist strax hafa verið ákveðinn í að komast aftur á hjól.

Sá gyllta púka

Á meðan hann dvaldi á gjörgæslu liðu dagarnir og Arnar Már svaf og mókti mestallan tímann. Hann segist hafa upplifað gífurlegar draumfarir og ofskynjanir. „Ég ferðaðist um allan heiminn og í þessa drauma tvinnuðust bæði raunverulegir einstaklingar og eins einhverjir karakterar sem ég bjó til. Ég upplifði alls konar hluti sem voru mjög raunverulegir. Það kom fyrir að ég spurði hjúkrunarfræðing um hvað væri að frétta af einhverri ímyndaðri persónu. Þær eru svo vanar þessu að þær svöruðu bara: „allt gott“,“ segir hann og brosir.

„Sumir sjá skordýr á veggjum en ég sá púka. Gyllta púka í ljósunum. Ég var auðvitað fastur í öndunarvél og gat ekkert gert eða sagt en hjúkrunarfræðingarnir sáu stundum skelfingarsvipinn í augunum á mér. Þá spurðu þær mig hvort ég sæi eitthvað og ég gat kinkað kolli. Þá sprautuðu þær einhverju í hálsinn á mér og það fjaraði út. Ég er allur í örum því ég var tengdur snúrum eins og jólatré. Það var eins og apótek fyrir aftan mig; þar héngu öll lyfin sem verið var að dæla í mig.“

Arnar Már segir minningarnar frá gjörgæslunni enn mjög skýrar, bæði af þessum draumförum og eins af upplifuninni að vera fastur í öndunarvél. „Það þurfti reglulega að slökkva á öndunarvélinni til að sjúga vökva úr hálsinum. Það var svo skrítið að geta ekki dregið andann. Ég man að í fyrsta skipti sem þetta var gert helltist yfir mig ofboðsleg köfnunartilfinning. Og jú, ég var hræddur. Þá var ég hræddur. Svo var vélin sett aftur af stað og andaði fyrir mig,“ segir hann og eftir það kveið hann hverju skiptinu.

„Öndunarvélin var alveg að gera út af við mig,“ segir hann og segist hafa þráð að losna við hana. Þegar hún var svo loks aftengd tók við erfiður tími.

„Þegar ég var að reyna að anda sjálfur, þá fór ég að ofanda og var alveg að kafna. Það þurfti að þjálfa mig aftur til að anda en ég var alveg að fríka út. Það endaði með að þeir þurftu að setja mig aftur í öndunarvél en í það skipti var hún tengd gegnum gat á hálsi en ekki í gegnum munn. Ég gat þá talað í gegnum tæki. Þetta reyndi á þolinmæðina, sérstaklega þarna í lokin,“ segir hann.

„Ég man sérstaklega vel eftir einum degi. Ég fór í myndatöku sem var mjög erfið fyrir mig og ég var svo þreyttur og átti erfitt með að anda. Ég brotnaði niður. Þá hugsaði ég bara, þetta er vonlaust, ég nenni þessu ekki. Ég var bara að gefast upp. Svo kom konan mín og ég sagði við hana; „ég vil þetta ekki lengur“. Hún fór til læknanna og sagði þeim frá þessum hugsunum mínum. Þeir sögðu þetta gott; ég væri farinn að anda og sýna tilfinningar, þetta væri alveg eins og þeir vildu hafa þetta. Þennan dag var sú ákvörðun tekin að flytja mig yfir á almenna deild; daginn sem ég var að brotna niður,“ segir hann og brosir út í annað.

Arnar Már var sem betur fer með góðan hjálm sem …
Arnar Már var sem betur fer með góðan hjálm sem varði höfuðið en hann fékk mikið höfuðhögg og stórsá á hjálminum. Ljósmynd/Aðsend

Þakklæti efst í huga

Spurður út í andlegu hliðina eftir slysið svarar Arnar Már: „Svona breytir manni.“

Hann hugsar sig um og segir svo: „Það sem mér er efst í huga er þakklæti. Ég er mjög þakklátur einstaklingur í dag. Ég nýt lífsins og ég upplifi sterkar að vera til. Ég nýt alls betur, hvort sem það er fjölskyldan, vinir, vinnan eða áhugamálin. Maður tekur til hjá sér ósjálfrátt, forgangsraðar á annan hátt. Fyrir slysið var ég mjög mikið í mörgu en nú einbeiti ég mér að færri atriðum en það er meiri dýpt. Það er eins og lífið hafi sprungið í loft upp og þegar bitarnir féllu niður, féllu þeir á nýja staði. Ég fyllist þakklæti á hverjum degi. Augnablikin verða kraftmeiri. Börnin, fjölskyldan, rómantíkin og vinskapurinn er allt kraftmeira, og í raun allt sem ég tek mér fyrir hendur. Það er erfitt að lýsa því en það er allt skýrara,“ segir hann.

„Vandamál og áhyggjur bíta mun minna á mig í dag. Mér finnst ég vera heilsteyptari einstaklingur eftir þetta. Sumir segja að ég sé aðeins hægari en ég held að ég sé aðeins yfirvegaðri,“ segir hann.

Hugsarðu um slysið á hverjum degi?

„Já, svona nánast. Það kemur þá í mig gleðihnútur yfir því hvað það sé gaman að vera til. Og ekki bara að vera til heldur að geta gengið beinn. Þetta var rosalega mikið slys og heppni að vera á lífi. Ég er rosalega heppinn,“ segir Arnar Már en nefnir að hann hafi þurft að breyta ýmsu því hann geti ekki allt sem hann áður gat.

„Ég get ekki klifrað lengur og get ekki unnið þar sem ég þarf að lyfta höndum upp fyrir höfuð. Þar af leiðandi get ég ekki synt og ég get ekki hlaupið að neinu ráði. En ég get hjólað, þótt ég sé heftur. Rifjaboginn minn er þrengri en áður þannig að það eru færri lítrar af súrefni sem koma inn í lungum,“ segir hann og útskýrir að ekkert sé hægt að gera við því.

„Þegar ég er að hjóla með strákunum er ég ágætur í keyrslunni og fínn í brekkunum en þegar kemur að alvöru átökum þá finn ég að mig vantar síðasta lítrann af lofti.“

Arnar Már fór að stunda hjólreiðar strax sumarið eftir slysið. „Ég er nokkuð sprækur hjólari,“ segir hann og heldur sér í góðu formi með hjólreiðum. Hann segist hjóla núna 150-200 kílómetra á viku á þrekhjólinu heima og hlakkar mikið til vorsins svo hann komist út að hjóla.

Góðar kveðjur næra viljann

Samhugur fólks og batakveðjur áttu sinn þátt í að Arnar Már barðist eins og ljón á gjörgæslunni. Hann segir ótrúlegt hvað slíkt veiti mikinn styrk. „Kona mín bjó til opinn Facebook-hóp þar sem hún lýsti framvindunni og bakslögunum. Eins og þegar lungnabólgan kom og þetta leit illa út. Það voru fleiri hundruð manns sem fylgdust með og það rigndi inn kveðjum. Þegar ég lá í öndunarvélinni og gat ekki talað las Steinunn upp fyrir mig kveðjurnar. Þetta gaf mér rosalegan kraft. Þetta nærir viljann. Að vita af öllu þessu fólki að hugsa til manns og senda orku. Þetta hjálpar til, það er ekki spurning,“ segir hann.

„Ég man að þegar ég var kominn heim og á ról fórum við Steinunn eitt sinn í Kringluna. Ég gekk þar um væskilslegur og mjór og þá vatt ókunnug kona sér að mér og spurði: „Ert þú ekki Arnar Már?“ Ég játaði því og hún sagðist ekki þekkja mig en sagði mér frá því að hún tilheyrði bænahópi sem bað fyrir mér í mínu bataferli. Svo sagði hún hvað væri gaman að sjá mig og óskaði mér til hamingju með lífið. Alveg ótrúlegt. Svona lagað hjálpar til og gefur orku.“

Arnar Már segist vita að allt hjólasamfélagið fylgdist vel með honum í batanum. „Þetta var í miðri hjólasprengingu og það fylgdust allir með þessu. Þetta var kannski ekki fyrsta slysið en þetta var mjög sviplegt slys sem hafði áhrif á marga,“ segir Arnar Már og nefnir að bæði hjólreiðafólk sem og ökumenn hafi jafnvel farið að hugsa sinn gang.

„Þetta er raunverulegt ástand sem myndast þegar svona margir einstaklingar fara á göturnar og hjólastíga. Það hafa allir rétt á að vera þarna og það þurfa allir að taka meira tillit, hjólreiðafólk, gangandi vegfarendur og ökumenn. Fólk er óvant þessu og þetta tekur tíma, hjólreiðamenningin hér er enn ung. Erlendis tekur fólk meira tillit,“ segir hann og leggur áherslu á orð sín.

„Það er ekki nóg fyrir ökumenn að horfa eftir öðrum bílum, þeir þurfa líka að leita eftir hjólum.“

Ekki slakasti maðurinn

Í júní 2016 tók Arnar Már aftur þátt í Wow-maraþoninu, aðeins um átta mánuðum eftir hina örlagaríku hjólreiðaferð.

„Ég var ekki líklegur til afreka en ég tók þátt. Ég tók nokkra spretti. Strákarnir kröfðust þess að ég kæmi með og ég var nú ekki slakasti maðurinn í liðinu. Þetta sýndi hvað ég var fljótur á fætur,“ segir hann en viðurkennir að hann verði aldrei líkamlega eins og fyrir slys. Hann lætur það þó ekki stoppa sig og gerir allt sem hann getur og nýtur hverrar stundar.

„Ég þarf að hugsa vel um skrokkinn og hjóla því mikið. Ég lifi eðlilegu lífi og höndla álagið í vinnunni en ég þreytist fyrr. Það hefur margt breyst en andlega hliðin hefur ekki breyst til hins verra.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert