Upp með lyftu og niður á hjóli

Hjólin eru ferðjuð upp með skíðalyftu og síðan er hjólað …
Hjólin eru ferðjuð upp með skíðalyftu og síðan er hjólað niður. Ljósmynd/Aðsend

Skálafell Bike Park opnar í dag í fyrsta sinn í sumar. Lögð hefur verið ný braut sem er byrjendavænni en þær sem fyrir eru og segir brautarhönnuður að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Magna Kvam hannar og býr til brautirnar og segist hann búast við góðri ásókn og stemningu í Skálafelli í kvöld. 

„Við gerðum nýja braut núna sem er viðbót við það sem var fyrir. Þetta er til þess að gera þetta fyrir aðeins fjölbreyttari hóp. Það er aðeins minni hraði í henni þannig að fleiri geta hjólað hana. Hún er mjög flott viðbót við það sem var fyrir og stækkar markhópinn mikið og við búumst við aukningu í aðsókn hingað uppeftir,“ segir Magne. 

Unnið að gerð nýju brautarinnar.
Unnið að gerð nýju brautarinnar. Ljósmynd/Aðsend

Hjólagarðurinn var fyrst opnaður sumarið 2010 og er þetta því tíunda sumarið þar sem hjólagarpar geta farið með hjólin sín upp skíðalyftu í Skálafelli og hjólað niður. 

„Við festum hjólin á stólinn fyrir aftan mann þannig að hjólin hanga á sérsmíðuðum krók og koma bara upp á eftir þér í lyftunni fyrir aftan þig. Það er bara hjólað niður á við,“ segir Magne, en brautin þykir of brött svo að hægt sé að hjóla upp. 

„Við gerðum fyrst hjólabraut hérna fyrir átta árum og höfum alltaf verið að bæta aðeins við. Það er mismunandi hraði á brautunum, sumar með stökkpöllum og aðrar ekki. Þessi nýja er svona byrjendavænni, það eru engir hættulegir pallar eða þannig svo að bæði þeir sem eru styttra og lengra komnir hafa gaman að henni,“ segir Magne. 

Magne segist einnig hvetja svifdreka- og göngufólk til að koma og nýta lyftuna, en hægt er að kaupa bæði stakt gjald eða aðgang fyrir heilan dag. 

Að sögn Magne eru viðtökurnar alltaf góðar og hefur ásóknin aukist á síðustu árum. 

„Það var mikil stækkun í fyrra, mjög mikil aukning. Við búumst við því að það verði líka mikil aukning í sumar. Við skorum á alla að koma, þetta er ekki bara fyrir þá sem eru á klikkuðustu hjólunum. Það ættu allir að geta fundið eitthvað.“

Þá bendir Magne á það að mikilvægt sé að vera vel búin, með góðan hjálm, vettlinga og að það sé ekki verra að vera með hnéhlífar.

Hjólabraut í Skálafelli.
Hjólabraut í Skálafelli. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert