Skemmtileg hlaðvörp í ferðalagið

Hlaðvörp geta stytt þér stundir á löngum ferðalögum.
Hlaðvörp geta stytt þér stundir á löngum ferðalögum. Ljósmynd/Colourbox

Til dæmis geta langar bílferðir verið upplagðar í slíkt og hefur undirrituð slátrað nánast heilli þáttaröð af hlaðvarpi í bíl með góðum vinkonum landshluta á milli, það er þó skilyrði í slíkum aðstæðum að allir séu sammála um hvað eigi að hlusta á. Hér fyrir neðan eru tíndir til nokkrir hlaðvarpsþættir sem gagnlegt og gaman er að hlusta á. 

Í ljósi sögunnar

Það þarf ekki að koma á óvart að þetta hlaðvarp er nefnt fyrst enda vinsælasta útvarpsefnið á landinu. Margir bíða í ofvæni eftir nýjum þætti á föstudagsmorgnum en óttist ei því hægt er að ná í alla þættina á helstu hlaðvarpsrásum. 

This American Life

Vandaðir og fræðandi þættir um allt sem þú vildir vita og líka allt sem þú vissir ekki að þú vildir vita um. Málin eru skoðuð frá öðru sjónarhorni sem gleður heilafrumur fróðleiksfúsra.

Morðcastið

Óhugnanlegt og æsispennandi hlaðvarp þar sem fjallað er um íslensk og erlend sakamál á léttu nótunum. 

Mum says my memoir is a lie

Bráðfyndið en á sama tíma sorglegt hlaðvarp þar sem mæðgur rifja upp forna tíma. Þær eru oftar en ekki ósammála um hvað hafi átt sér stað sem gerir þáttinn svo afskaplega skemmtilegan.

Happier with Gretchen Rubin

Ef það er einhvern tímann tilefni til að vinna í hamingjunni þá er það í umferðinni. Sálfræðingurinn og hamingjusérfræðingurinn Gretchen Rubin veltir hamingjunni fyrir sér frá öllum hornum og gefur hlustendum góð ráð.

By the book

Tvær vinkonur lesa og lifa eftir sjálfshjálparbókum í tvær vikur í senn og gefa svo hlustendum skýrslu um hvað gekk vel og hvað alls ekki. Oft og tíðum mjög fyndið og lærdómsríkt í senn þar sem þær skafa ekkert af hlutunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert